07.02.1945
Sameinað þing: 92. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í D-deild Alþingistíðinda. (5705)

271. mál, endurskoðun og samþykkt ríkisreikninganna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég get stytt mál mitt, vegna þess að hv. frsm. hefur gert grein fyrir málinu. Ég mun aðeins drepa á það, sem ég skaut inn í ræðu hv. fyrri þm. Árn. Ég ræddi einmitt sérstaklega um þetta við skrifstofustjóra fjmrn. Og ég vil benda hv. þm. á það, að hann lagði til, að till. væri samþ. Í till. er ekki sagt, að reikningurinn skuli hafa verið samþ. fyrir árslok næsta ár á eftir, heldur að hann sé tilbúinn til samþ. og umr. fyrir árslok. Það er fullur skilningur og réttur skilningur á till., eins og hún er orðuð nú. Ef við höldum okkur við árið 1944, þá er gangur málsins hugsaður þannig, að fjmrn. loki reikningunum í apríl 1945. Skrifstofustjóri fjmrn. upplýsir, að þeir geti þá vel orðið tilbúnir bæði til prentunar og endurskoðunar, en það á að fara fram samtímis. Það er gamall og úreltur háttur að láta prenta þá fyrst, eins og hv. frsm. tók fram, og endurskoða þá á eftir. Þá er verið að gera prófarkalestur, sem ekki kemur endurskoðun við. Endurskoðun frumreikninganna eiga að gera allt aðrir menn, sem þurfa allt aðra menntun heldur en prófarkalesarar. Skrifstofustjóri fjmrn. taldi, að þetta verk gæti verið búið í apríllok, og til áramóta eru þá 8 mán., sem menn hafa til að endurskoða reikninginn. Ég vil benda á það, að þegar þing situr á haustin, mun kannske vera álitið, að þeir menn, sem Alþ. kýs til endurskoðunarinnar og sæti eiga á Alþ., hafi ekki tíma til að sinna endurskoðuninni meðan þing situr. En það er ekki hægt að byggja afgreiðslu og endurskoðun ríkisreikningsins á því, að þeir, sem valdir eru til starfsins, hafi ekki tíma til að vinna verkið, sem þeir era ráðnir til að gera. Ef þeir taka verkið að sér, eiga þeir að ljúka því innan þess tíma, sem Alþ. telur nægilegan. Sem sagt, ríkisreikningur ársins 1944 á að liggja fyrir endurskoðaður og prentaður fyrir árslok 1945, en hvenær hann verður svo samþ., fer eftir því, hvenær Alþ. kemur saman. Till. segir ekkert annað en þetta, ef menn lesa hana eins og vera ber og eins og menn lesa almennt mál.