16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í D-deild Alþingistíðinda. (5715)

271. mál, endurskoðun og samþykkt ríkisreikninganna

Frsm. (Ingólfur Jónsson:

Það er ástæðulaust að bæta miklu við það, sem sagt var um þessa till., þegar hún var til umr. síðast, en allshn. hefur til samkomulags við þá hv. þm., sem andæfðu þessari till., gert dálitla orðabreytingu á till., og er það aðeins orðabreyting, en ekki efnisbreyting, og voru allir nefndarmenn sammála um, að sjálfsagt væri að gera það, a. m. k. 2 hv. þm. lögðu kapp á, að það yrði gert.

Það er lagt til, að tillgr. orðist eins og gert er á þskj. 1081: „Alþ. ályktar að skora á ríkisstjórnina að hlutast til um að hraða svo útgáfu ríkisreikningsins, að hann geti jafnan legið fyrir fullgerður með athugasemdum og svörum fyrir lok næsta árs á eftir.“ Brtt. n. á þskj. 1025 er þá tekin aftur, en hv. þm. er kunnugt um, hvernig hún hljóðaði, og ef hún er borin saman við brtt. á þskj. 1081, verður öllum ljóst, að það er enginn efnismunur, en eins og till. er á þskj. 1081 er fengið samkomulag um hana við þá menn, sem hér við umr. síðast töldu ástæðu til að gera aths. við till., eins og hún hljóðaði á þskj. 1025.

Þykir okkur flm. og n. gott, að samkomulag hefur fengizt, og við teljum það vænlegra til árangurs, að till. verði samþykkt mótatkvæðalaust af öllum hv. alþm. heldur en kannske með litlum atkvæðamun. Ég tel svo óþarft að fara fleiri orðum um þetta, þar sem mér virðist komið samkomulag um orðalag till. og enginn hv. þm. mun mæla á móti því, eins og hún nú er orðuð.