04.10.1944
Sameinað þing: 51. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

143. mál, fjárlög 1945

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti, góðir áheyrendur. — Það eru aðeins þrjú atriði í ræðu hæstv. fjmrh., er hann flutti hér áðan, sem ég sé sérstaka ástæðu til að víkja nokkrum orðum að. Í fyrsta lagi vildi ég minnast á frv. það, sem stj. lagði fram til lækkunar á dýrtíðinni eða um breyt. á dýrtíðarl. og hæstv. fjmrh. talaði um. Ég vil aðeins minna hann á það, að jafnvel þótt frv. verði samþ., yrði ómögulegt að halda jafnvel núverandi vísitölu óbreyttri án verulegra fjárframlaga úr ríkissjóði, auk þess sem á því eru þeir ágallar, að ekki er unnt að samþ. það. Hins vegar er ég sammála hæstv. fjmrh. um það, að ekki sé unnt að ganga frá fjárl., meðan Alþ. hefur ekkert ákveðið um það, hvað gert verði til varna vaxandi dýrtíð, en harma, að hann skuli ekki hafa bent á fleiri leiðir til úrbóta en hann hefur gert til þessa. — Þá vildi ég einnig minnast á það, sem hæstv. fjmrh. drap réttilega á, að nauðsynlegt væri að taka til endurskoðunar rekstur þjóðarbúsins. Um þetta er ég honum sammála, en ég harma það, að hæstv. fjmrh. skuli ekki hafa opnað augun fyrir þessu atriði fyrr en svo seint, eins og ég harma það, að þessi stj. skuli ekki hafa einmitt vegna aðstöðu sinnar tekið mjög aðkallandi mál til meðferðar, sem sé endurskoðun skattalöggjafarinnar, þar sem það er ópólitískt atriði, með að fyrir augum fyrst og fremst að tryggja betur en nú er skýr og rétt framtöl og setja reglur um, hvernig tekjur eigi að koma til skatts. Ef stj. hefði tekið að sér að leysa slík verkefni og tekizt að leysa þau, hefði hún áreiðanlega getið sér góðan orðstír.

Hæstv. ríkisstj. lýsti yfir því, er hún tók við völdum fyrir tæpum 2 árum, að hún væri til þess mynduð að lækka dýrtíðina og koma þannig atvinnuvegunum á heilbrigðan grundvöll. Þetta skyldi vera hennar eina hlutverk auk venjulegra ópólitískra afgreiðslustarfa. Fyrrv. stjórnir, stj. Ólafs Thors og samstj. Framsfl. og Sjálfstfl., höfðu áður gefið svipuð fyrirheit, en með þeim árangri, að dýrtíðin hafði stöðugt aukizt. Nú skyldu verða umskipti, dýrtíðin tekin þeim tökum, sem að haldi kæmu. Hefur stj. tekizt að vinna bug á dýrtíðinni? Eru atvinnuvegirnir á traustum og heilbrigðum grundvelli? Vísitala framfærslukostnaðar var 272 stig, þegar stj. tók við fyrir 23 mánuðum. Hún er nú 272 stig eða nákvæmlega jafnhá. En sagan er ekki öll sögð með því. Hin raunverulega dýrtíð er langtum meiri en vísitalan segir til um. Tugir millj. hafa verið greiddir hvort þessara tveggja æviára stj. til þess að halda niðri verði landbúnaðarafurða. Væru þessar greiðslur felldar niður, yrði vísitalan allt að 330 stigum eða um 60 stigum hærri en þegar stj. tók við, að óbreyttu gildi ályktunar sex manna n. og samkv. áætlun kjötverðlagsn. — Undanfarið hefur verið greitt úr ríkissjóði nálægt 2 millj. kr. á mánuði til jafnaðar til verðuppbóta á landbúnaðarafurðir. Ef lækkun samkv. sex manna n. álitinu kæmi til framkvæmda, mundi þessi upphæð þurfa að hækka upp í nálega 3 millj. kr. á mánuði eða 35 millj. kr. á ári til þess að halda vísitölunni óbreyttri. Það er augljóst mál, að slíkt er ríkissjóði ofvaxið. Upphæð þessi samsvarar 2/5 eða 40% af öllum tekjum ríkissjóðs á næsta ári samkv. frv. hæstv. fjmrh. Hitt er ekki síður ljóst, að ef vísitalan hækkar upp í 330 stig, þá hlýtur mestur hluti útvegsins að stöðvast, jafnvel þótt það verð, sem hann nýtur nú, haldist óbreytt.

Hæstv. ríkisstj. lagði fram snemma á þessu þingi frv. um breyt. á dýrtíðarl. Jafnvel þótt það frv. hefði verið samþ., svo fráleitt sem það að ýmsu leyti var, hefði þurft að greiða úr ríkissjóði tugi millj. til þess að halda vísitölunni óbreyttri, og hvorki frv. um breyt. á dýrtíðarl. né frv. það til fjárl., sem hér liggur fyrir, gerði ráð fyrir fjáröflun til þess að gera ríkissjóði fært að inna þær greiðslur af hendi.

Þær staðreyndir, sem fyrir liggja, eru því þessar: Hæstv. ríkisstj. hefur gefizt upp í baráttunni við dýrtíðina. Hún hefur lagt árar í bát. Hún hefur hreinlega viðurkennt, að hún hafi ekki reynzt þeim vanda vaxin, sem hún færðist í fang, þegar hún tók við völdum. Viðurkenning hæstv. ríkisstj. sjálfrar á þessum staðreyndum liggur og fyrir. Hún hefur beðizt lausnar fyrir um þremur vikum og viljað vísa vandanum frá sér til Alþingis. Það er eins og hún sjái ekki dýrtíðina eða þann voða, sem af henni getur stafað.

Frv. það til fjárl., sem hér liggur fyrir, er samið af ríkisstj., sem ekki gerir ráð fyrir sjálf að lifa og stjórna í samræmi við það, heldur ætlar öðrum að stýra rekstri þjóðarbúsins skv. því. Fjárl. eru jafnan talin ein hin allra þýðingarmestu l., sem Alþingi setur. Þau snerta mjög hag hvers einasta manns í landinu og segja fyrir um, hversu sameiginlegum tekjum þjóðarinnar skuli varið, svo að alþjóð verði að sem mestum notum. Fjárlfrv. er því mat þess ráðherra, sem semur það og leggur fram, á þörf þjóðarinnar til sameiginlegra aðgerða og á fjárhagsgetu hennar. Það er mat hans á framtíðarhorfunum og möguleikum þjóðarinnar til þess að ráða einhverju um, hvernig framtíðin verður. Frv. það til fjárl., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir, að tekjur ríkissjóðs verði nærfellt 87 millj. kr. árið 1945. Hrein rekstrargjöld eru áætluð um 82 millj., afborgun skulda um 3 millj. og greiðsluhalli um 300 þús. kr. En þrátt fyrir þessar háu upphæðir og bágbornu niðurstöðu er ekki einn eyrir ætlaður til dýrtíðarráðstafana, hvorki til að halda niðri verði innan lands né til þess að greiða verðuppbætur á útfluttar vörur.

Um útflutningsbætur skal ég ekki ræða margt nú. Fyrirframskuldbindingar um slíkar greiðslur til einstakra stétta, meðan allt er í óvissu um afkomu annarra stétta, fjárhag ríkissjóðs og hvað fyrir vörurnar fæst, tel ég með öllu óverjandi, að Alþingi taki á sig. Nokkuð öðru máli gegnir um framlög til að halda verðinu niðri innan lands. Það hefur nú verið gert í tvö ár og mundi því valda stórfelldu raski og erfiðleikum, ef þær greiðslur yrðu felldar niður, eins og nú er ástatt, og dýrtíðarvísitalan látin hækka sem því nemur. En eins og áður er sagt, er í frv. enginn eyrir ætlaður til slíkra ráðstafana. Þá er það ekki síður athyglisvert, að framlög til ýmissa verklegra framkvæmda hafa verið lækkuð mjög verulega og heimild til að verja 2 millj. kr. til atvinnuaukningar hefur verið felld niður. Eigi að skoða þetta sem mat hæstv. ráðh. á atvinnuhorfum og þörfum verkalýðsins á næsta ári, hika ég ekki við að segja, að þetta mat sé rangt og lít svo á, að einmitt á næsta ári sé fyllsta ástæða til að gera ráð fyrir, að þörf verði á að auka atvinnu við verklegar framkvæmdir og jafnvel grípa til sérstakra atvinnubótaframkvæmda.

Samkv. 16. gr. frv., sem fjallar um atvinnumál, er gert ráð fyrir, að varið verði til landbúnaðarmála um 7 millj. kr. auk tveggja millj. til áburðarverksmiðju eða samtals 9–10 millj. til landbúnaðar. Til sjávarútvegs er hins vegar aðeins gert ráð fyrir í sömu gr., að lagðar verði um 700 þús. kr. eða einn þrettándi hluti þess, sem ætlað er til landbúnaðar, að ótöldum uppbótum, og til iðnaðar aðeins 300 þús. kr. Ekki get ég neitað því, að mér virðist hæstv. ríkisstj. mislagðar hendur við skiptingu fjárins milli þessara þriggja höfuðatvinnuvega okkar. Mér finnst það gleymska hjá henni, að ekki er meira ætlað til sjávarútvegsins, sem þjóðin á þó mest undir, ef hún ætlar að halda uppi sambandi við aðrar þjóðir.

Loks vil ég benda á, að frv. gerir ráð fyrir og miðar útgjaldaáætlanirnar við, að framfærsluvísitalan verði á árinu 1945 um 250 stig. Nú er vísitalan 22 stigum hærri eða 272 stig, en dýrtíðin raunverulega miklu meiri, allt að því 330 stig, ef niðurstaða sex manna n. gildir áfram og áætlanir kjötverðlagsn, standast.

Fjárlfrv. staðfestir því það, sem áður er sagt, að ríkisstj. hefur lagt árar í bát, gefizt upp í baráttunni við dýrtíðina, lokað augunum fyrir staðreyndunum.

Það væri rangt að gefa hæstv. ríkisstj. einni sök á, að ekki hefur tekizt að stöðva dýrtíðina, hvað þá að lækka. Alþingi, einstakir flokkar þess, eiga þar og sína sök, og fleira kemur enn til. Hin gegndarlausa hækkun landbúnaðarvara haustið 1942, Ingólfsstyttan, hleypti skriðunni af stað. Hæstv. fjmrh. upplýsti, að þær aðgerðir einar hefðu hækkað vísitöluna um 30 stig. Það hlutfall, er sex manna n. ákvað milli tekna bænda og verkamanna í sambandi við verðlag landbúnaðarafurða, varð til þess að hækka dýrtíðina verulega, þótt fagna beri þeirri ákvörðun svo langt sem hún nær. Hins vegar hefur Alþ. látið ríkisstj. í té mjög víðtækar heimildir til að halda dýrtíðinni niðri, bæði á vörum almennt og flutningsgjöldum, sem vænta hefði mátt árangurs af.

Ríkisstj. kennir Alþingi um margt og telur samvinnuna ekki eins góða og vera ætti. En á þessu sviði hefur hún haft frjálsar hendur. Hvernig hefur þá ríkisstj. tekizt í þessu efni? Þrátt fyrir verðlagseftirlitið virðist verzlunum, einkum heildverzlunum, fara stöðugt fjölgandi. Svo er að sjá, sem þær þurfi engan tilkostnað að spara. Hver af annarri setja þær upp dýrar skrifstofur í Bandaríkjunum, samtímis því sem svokallað innflytjendasamband tekur í sínar hendur kaup ákveðinna fleiri og fleiri vörutegunda og situr eitt að þeim innflutningi. Allt þetta verða neytendur að greiða í vöruverðinu. Skattskýrslur sýna geysigróða sumra verzlunarfyrirtækja, þrátt fyrir verðlagseftirlitið, svo sem olíufélaganna, og síðast, en ekki sízt, er Eimskipafélag Íslands, sem hefur verið látið haldast uppi að græða. yfir 2 tugi millj. á flutningi til landsins s.l. ár þrátt fyrir ótvíræðar heimildir ráðherrans til að ákveða flutningsgjöldin. Og allur þessi gróði er fenginn á leiguskipum, sem ríkisstj. hefur fengið fyrir vinsemd Bandaríkjamanna, sem hafa nóg að gera við öll sín skip. Ofan á þennan feiknagróða bætast svo tollar og álagning verzlana, og getur því hver maður séð, hversu gífurlega þetta hefur hlotið að hækka vöruverð og dýrtíð. Er ekki von, að trú manna á aðgerðir ríkisstj. í dýrtíðarmálunum minnki, þegar þetta viðgengst undir handarjaðri þess ráðherra, sem fór í stjórn eingöngu til þess að berjast gegn dýrtíðinni? Vissulega hefur oss Íslendingum áskotnazt mikið fé á undanförnum árum, en við höfum samt engin efni á að láta eitt félag græða 20–25 millj. á ári á flutningum til landsins og leggja síðan tolla og verzlunargróða á þessa fúlgu. Við höfum ekki heldur efni á að greiða 35 millj. kr. á landbúnaðarafurðir né að greiða kr. 18,82 fyrir 1 kg af kjöti, eins og kjötverðlagsn. telur, að rétt sé og nauðsynlegt, en það væri sama og að stöðva sauðfjárbúskap Íslendinga. Þetta er dregið fram til að sýna, hvernig ástatt er nú og hverju er að mæta á næstunni. Þetta sýnir ljóst, hvernig dýrtíðarmálunum er nú komið, þegar landsstjórnin kveður eftir tveggja ára setu. En fleiri eiga sök á þessu en hún, eins og ég hef áður tekið fram. Ég vildi aðeins festa þetta í minni hv. þm.

Núv. ríkisstj. er skipuð með sérstökum hætti. Hún nýtur ekki stuðnings meiri hl. Alþ. Hún var skipuð athafna- og fræðimönnum og óháð þingflokkunum. Þegar tilraunir til stjórnarmyndunar höfðu misheppnazt haustið 1942 innan þingsins, skipaði ríkisstjóri núv. ríkisstj., og tók hún við völdum í des. 1942. Ég hygg, að reynslan hafi sýnt, að ríkisstj., sem ekki er skipuð af flokkunum og því óháð þeim, geti ekki gefizt vel, og efa ég þó ekki, að núv. ríkisstj. skipa duglegir menn. Það verður því að mynda stj. með þingræðislegum hætti með ákveðinn þingmeirihluta að baki sér. Ég hygg, að þetta hafi verið að skýrast, síðan þessi stj. tók við völdum. Undanfarið hefur verið unnið að myndun nýrrar stj., en slitnað upp úr þeim umleitunum.

Alþfl. hefur alltaf sett það skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstj., að hann gæti sætt sig við málefnagrundvöll þann, sem byggt yrði á. Nú er svo ástatt, að annars vegar eru alveg sérstakir erfiðleikar innan lands um átvinnuhorfur vegna dýrtíðarinnar. Hins vegar er um meira fé að ræða, sem Alþ. getur tekið sér yfirráð yfir, en nokkru sinni áður. Það, sem nú liggur fyrir og mjög mikil nauðsyn ber til, er að stöðva dýrtíðina eða minnka hana, ef það er hægt. Það skal játað, að þetta er ekki karlmannlega mælt, en það er gert af ráðnum hug, þar sem það hefur ekki tekizt undanfarin ár.

Þá verður að festa verð á landbúnaðarafurðum og tryggja vinnufrið í landinu, koma á heilbrigðri samvinnu milli atvinnurekenda og verkalýðssamtakanna í landinu. Innstæður erlendis yrði að festa og binda þeim ákvæðum, að þær yrðu aðeins notaðar á sérstakan hátt til kaupa á skipum, til að reisa verksmiðjur, koma á fót rafveitum og fleira til tryggingar atvinnu í landinu. Það verður að nota innstæðurnar til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi.

Deilur milli verkalýðsstéttarinnar og bænda um afurðaverð verður að jafna, því að samvinna þessara stétta er nauðsynleg til þess að tryggja framtíð beggja stéttanna. Ef það lánast að breyta erlendum innstæðum í verðmæti, sem verða til þess að tryggja í framtíðinni þessar stéttir þjóðarinnar, verkalýð og bændur, og gera atvinnutæki landsmanna afkastameiri, hlýtur samvinna þeirra að verða óhjákvæmileg, ef þessum verðmætum á að ráðstafa þannig, að báðum verði til hagsbóta í framtíðinni.