16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í D-deild Alþingistíðinda. (5774)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Út af því, sem rætt hefur verið hér um það, hvort þessari þáltill. skuli vísað til n., og þá til hvaða n., vildi ég segja nokkur orð. Ég er, satt að segja, dálítið undrandi yfir því, að hæstv, atvmrh. óskar eftir því, að jafnveigamikið mál og þetta fari ekki til n. til athugunar, heldur verði samþ. án þess það fái þinglega meðferð í n. Ég mun því taka mjög undir það, sem hér hefur komið fram hjá tveimur hv. þm., að málinu verði vísað til n. til athugunar. — Hv. þm. Borgf. telur, að þetta mál eigi heima í allshn., en það get ég ekki alls kostar fallizt á, að rétt sé, því að hér er um mjðg mikið fjárhagsatriði að ræða. Þetta er ekki sagt af því, að ég er form. allshn., heldur bendi ég á þetta til athugunar. En því er ekki hægt að neita, að samþ. þessarar till. hefur í för með sér mjög mikla fjárhagslega áhættu fyrir ríkissjóð, — e. t. v. getur orðið af samþ. þessa máls fjárhagslegur gróði fyrir ríkissjóð, en það skal ég ekki segja um, hið gagnstæða gæti líka átt sér stað. En ef það skyldi verða ofan á, að málinu yrði vísað til allshn., vildi ég, að hæstv. atvmrh. vildi athuga þær aths., sem ég vil gera um þetta mál nú.

Eins og málið liggur nú fyrir, finnst mér það fyrsta, sem þurfi að gera, sé að breyta þáltill. á þann hátt, að þessi samningur verði ekki lagður fram til samþykktar eða synjunar á Alþ. Vildi ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvmrh., hvort hann heldur fast við það orðalag till. Því að það má vitanlega alveg eins samþ. á Alþ. að heimila ríkisstj. að gera þennan samning. Ef tekin er sú aðferð um afgreiðslu málsins að heimila ríkisstj. að gera samning þennan, þá tekur ríkisstj. á sig alla ábyrgðina á samningnum, eins og hann er gerður, enda hefur hún vitanlega gert það. Því að hæstv, atvmrh. hefur lýst yfir, að engu verði breytt í samningnum. Þess vegna finnst mér, að hér eigi aðeins að vera um að ræða samþykki eða synjun á heimild til ríkisstjórnarinnar til að gera samning um leigu á færeyskum skipun.

Þá kemur einnig til greina, hvort ekki væri rétt að hafa heimild þessa víðtækari og heimila ríkisstj. ekki aðeins að gera samning um leigu á þessum færeysku skipum, heldur líka öðrum skipum eftir því, sem henni þætti nauðsyn til bera til þess að koma fiski út á erlendan markað. Ef því hæstv. ríkisstj. heldur fast við það orðalag á þáltill., sem nú er á henni, mun ég fyrir mitt leyti ekki geta fylgt till. Ég get ekki látið hæstv. ráðh. fyrirskipa mér þannig um að greiða atkv. um mál, sem ekki hefur verið til meðferðar og er samningur, sem hæstv. ráðh. hafa gert á sína ábyrgð, — og sérstaklega, þegar margt er í þessum samningi þannig, að það hefði ekki gengið út úr Alþ., ef samningurinn hefði verið lagður fyrir þingið til umr. nægilega snemma. — Vil ég benda á atriði, sem hæstv. ráðh. minntist á sjálfur. Hann sagði m. a., að hér séu laun starfsmannanna reiknuð þannig, að meira en 15% af fiskverðinu sé dregið frá áður en þeir fá sinn ágóðahlut. En nú er það ekki svo. Því að það má í þessu tilliti ekki draga meira frá af fiskverðinu eftir samningnum heldur en var 1944, 15%. Þá eru en fremur ákvæði í samningnum um það, að ís skuli reiknaður eftir allt öðru verði heldur en er á honum á Íslandi. Og fleiri atriði eru í samningnum, sem ég fyrir mitt leyti get ekki fellt mig við, að samþ. verði af hæstv. Alþ. Hitt er annað atriði, hvort ekki er sjálfsagt að gefa hæstv. ríkisstj. heimild til þess að leigja þessi skip og þá enn fremur til þess að leigja önnur skip, sem nauðsyn er, til þess að reka þessa flutninga. Og ég vil benda á, að jafnvel þótt samið sé um að skila skipunum 1. júní eða 15. okt., þá er svo langt gengið í samningnum, að það skuli skila þeim í vetrarfestum á þeim stað, þar sem þau eru tekin á leigu. Ég bendi á þetta sem dæmi um það, sem ekki hefði verið ástæða til að setja inn í samninginn.

Ef heimila á ríkisstj. að leigja skip, ber einnig að athuga, hvort heimila eigi ríkisstj. að endurleigja þau eða reka þau sjálf. Og sé farið inn á þá leið að heimila ríkisstj. að reka þau sjálf, þá er það stærsti ríkisrekstur, sem við nokkurn tíma höfum farið inn á, því að umsetning hans mundi skipta mörgum millj. kr. Og ég ber ákaflega mikinn kvíðboga fyrir því, að þegar upplýst var, að Færeyingar vildu láta af hendi á leigu ekki aðeins góð skip, heldur líka allt ruslið, þá kunni einnig svo að fara, að þótt ríkisstj. geti leigt eitthvað af þessum skipum til annarra í frjálsum samskiptum, þá verði erfitt fyrir ríkisstj. að leigja út þau skip, sem Færeyingar sjálfir gátu ekki leigt hingað, þ. e. a. s. eigendur þeirra skipa sem slíkir. Og þá getur verið, að veita þurfi ríkisstj. heimild til þess að gera skipin út, til þess að hafa von um hag af betri skipunum til þess að geta staðið undir tapi af þeim skipunum, sem lökust eru, — nema ríkisstj. takist að leigja fyrir eitthvað hærra betri skipin heldur en hún borgar fyrir þau. Mér virðist því auðsætt, að ef gefa á ríkisstj. heimild til að reka skipin, þá verði að gefa henni heimild til að reka öll skipin. — Ef mál þetta kemur til allshn. til athugunar, mun ég gera tilraun til þess, að tillgr. verði breytt í það horf, sem hér hefur verið greint af mér, en ég mun hins vegar gera allt til þess að flýta málinu eins og í mínu valdi stendur. En vegna eðlis málsins tel ég, að sjálfsagt sé, að málið fari til fjvn. til athugunar, því að þar á það vitanlega heima.

Viðkomandi verðjöfnun á fiski vil ég taka undir það, að það er náttúrlega alls ekki sanngjarnt að láta þá landshluta, sem lakasta hafa aðstöðu, líða fyrir þessar ráðstafanir. Það verður að sjálfsögðu að tryggja þeim a. m. k. það verð, sem áður var á fiski á Íslandi, hvað sem öðru líður. En á því munu mestir örðugleikar verða. Það mætti e. t. v. gera jöfnuð í þessu efni með niðurrröðun skipa. Því að ég tel óhjákvæmilegt, að lökustu skipin séu sett á þá staði, sem næstir eru markaði, því að rekstur þeirra getur aðeins borið sig með því, að þau flytji fisk frá slíkum stöðum, en alls ekki með því að flytja frá hinum stöðunum, sem liggja fjær. Og ef á að flytja með lökustu skipunum fisk frá stöðum, sem eru fjarst markaði, þá er útilokað, að fyrir þann fisk fáist það verð, sem fékkst fyrir fiskinn 1944. Þetta er stórt framkvæmdaratriði fyrir ríkisstj. að glíma við. Það mun verða erfitt að fá fiskimenn við Faxaflóa til þess að gefa góðfúslega eftir verðjöfnun til hinna, sem búa t. d. á Norðausturlandi, og um það munu verða átök. En það mun enginn friður verða, ef útflutningur frá Faxaflóa gefur 15—20% meiri ágóða heldur en frá öðrum stöðum; eftir að allir landsmenn verða að taka á sig áhættu um það, að ríkissjóður greiði háar upphæðir í sambandi við þennan rekstur.