16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í D-deild Alþingistíðinda. (5776)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Út af orðum hæstv. forseta vil ég taka fram, að ég get ekki fallizt á, að ástæða sé til þess, að þetta mál fari í n. Það er alls kostar óviðurkvæmilegt að tengja ýmis þau mál, sem hér hefur verið minnzt á og ekkert koma við þessum samningum, við þessa samninga um færeysku skipin. Og ef Alþ. færi að tengja önnur mál, sem geta verið deilumál, við samningana við Færeyinga um þessi skip, þá væri ómögulegt að skoða það öðruvísi en svo, að það væri óvinfengi við þá þjóð.Og ekki er ástæða til þess. Þegar um slíka sarnninga er að ræða, er ekki viðurkvæmilegt annað en afgreiða þá út af fyrir sig. Svo getum við tekið deilumálin til meðferðar sér á parti utan við þetta mál, ef við viljum, svo sem það, hvort ríkisstj. hefur ákveðið verðjöfnun á fiski án heimildar og hvort ríkisstj. hafi án heimildar gert samning við Eimskipafélags Íslands. Þess vegna vil ég ekki fallast á, að nauðsyn sé á því, að þetta mál fari í n. Og það er ósk ríkisstj. í heild, að þetta mál verði afgr. endanlega frá þinginu í dag.

Samningurinn er að vísu gerður, það er ekki um það að ræða að breyta honum. Þetta mál hefur verið rætt á lokuðum fundi allra þm. og líka á fundi utanrmn., svo að hv. þm. vissu vel, hvað hér var á ferðinni.

Í sambandi við það, sem hv. 2. þm. S.-M. og hv. þm. Barð. tóku hér fram, þá vil ég taka það fram, að það er alls ekki svo, að stj. sé á nokkurn hátt að reyna að skjóta sér undan neinni ábyrgð. Þáltill. er ekki borin fram til þess, — síður en svo; heldur er aðeins farið fram á, að þingið samþ. þessar gerðir stj.

Út af fyrirspurn, sem fram hefur komið um, hve mörg skip væri hér um að ræða, vil ég skýra frá, að það eru 60 skip frá því í febrúar og fram í júní og 30 skip frá þeim tíma og fram til 15. okt. Þetta segir hv. 2. þm. S.-M., að sé svo mikið fjárhagsmál, að slíks séu engin dæmi, þar sem leigan sé 4 millj. kr. Ég verð að segja, að við, sem borgum 20 milljónir til landbúnaðarins, hrökkvum ekki við, þó að nefndar séu 4 milljónir króna. Ég vil enn fremur benda á, að í fyrsta skipti, sem till. kom um þessar greiðslur úr ríkissjóði, sem voru þá 20 milljónir á einu bretti í þál., þá þótti ekki einu sinni þörf á, að sú till. færi til n. Og þá verð ég að segja, að það er í hæsta máta einkennilegt, ef það mál, sem hér er til umr., á að vera svo stórkostlegt, að það þarf um það langar umr. og n. að athuga það, eftir að málið liggur þannig fyrir, að allfjölmenn n. ýmissa vel færra manna, sem eru vel kunnugir öllum sjónarmiðum Íslendinga í þessum greinum, hefur starfað að samningunum.

Ég vil enn fremur benda á, að það er full ástæða fyrir okkur til að afgr. samningana á þann hátt, að þar komi fram fullt vinfengi frá okkar hendi í garð Færeyinga. Þeir hafa átt við mjög erfið kjör að búa. Þar hefur verið atvinnuleysi og það mjög mikið. Þetta er þjóð, sem er náskyld okkur og hefur lifað á sama atvinnuvegi og við, þjóð, sem við þurfum að hafa sem allra nánast samstarf við á næstu árum bæði til hagsbóta fyrir okkur sjálfa og fyrir þá. Ég held, að það sá afar illa til fallið að byrja það samstarf með því, eins og hv. 2. þm. S.-M. vill gera, að draga inn í umr. alls konar deilumál okkar Íslendinga. Það hefði engum dottið í hug að draga slík deilumál inn í umr., ef Bretland eða Bandaríkin hefðu hér átt í hlut, en ekki Færeyingar. En það má koma hér með hvaða deilumál sem er, af því að það eru Færeyingar, sem um er að ræða, og sýna með því óvináttu í þeirra garð. (EystJ: Er hæstv. ráðh. svo voðalega hræddur við þetta?) Það er óeðlilegt og óviðurkvæmilegt að afgr. þessa till. ekki á þann hátt, sem vanalegt er að gera. Ég er albúinn að ræða um verðjöfnunarsvæði og annað slíkt á sérstökum fundi, en það er óviðurkvæmilegt í þessu sambandi.

Ég vil taka fram, að leigukjörin á færeysku skipunum eru svipuð eða svo að segja þau sömu og voru í samningum einstaklinga, sem búið var að gera, en biðu samþykkis Lögþingsins, og svipuð því, sem var í samningum um þessi skip á síðasta ári, enda tryggðum við það, þegar n. var skipuð til samninga við Færeyinga, að valdir voru til þess menn, sem voru gagnkunnugir færeyskum skipum að undanförnu. Ég vil líka taka fram, að það eru góðar horfur á, að meginið af þeim verði framleigt með óbreyttum kjörum.

Ég er sammála hv. þm. Barð., að það er óæskilegt, að ríkið fari að reka svona mörg skip, en við töldum þó rétt að setja það í þessa þál., að ríkinu yrði heimilt að reka þau, ef ekki væri hægt að leigja eitthvað af þeim. Skipin eru misjöfn að gæðum, en í þessum skipum eru engin, sem eru ómöguleg, og ég býst við, að þar sé ekkert skip, sem samlögin mundu neita að taka við, ef þau fengju betri skip með. Þess vegna verður framleigunni hagað þannig, að hvert samlag fær bæði betri og lakari skip. Sum smærri skipin hafa betri vélakost en þau stærri, svo að það er ekki víst, að alltaf sé hagstæðara að fá þau stærri. Það getur verið meiri áhætta í sambandi við þau stóru, t. d. ef þau fá mótbyr og farmurinn skemmist. Það hefur verið rætt um, að ekkert samlag fái að velja úr. Það verður reynt að sjá svo um, að öll samlögin fái svipuð skip.

Um leigu á brezkum skipum skal ég upplýsa, að þar er ekki um leigu að ræða, heldur fragtsamninga. Það er borguð fragt fyrir farminn, 5 £ á tonnið. Þetta eru skip, sem eingöngu geta tekið fisk, þegar þannig stendur á „convoy“. Um skip Eimskipafélagsins er það að segja, að þar er að vísu um leigu að ræða, en ég vil undirstrika það, að mér finnst óeðlilegt að setja það á nokkurn hátt í samband við samningana um færeysku skipin. Ég mælist eindregið til, að þetta mál fari ekki til n., af því að það er ekki þannig vaxið, að ástæða sé til þess, og í öðru lagi mælist ég til þess, að málið verði endanlega afgr. í dag.