16.02.1945
Sameinað þing: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í D-deild Alþingistíðinda. (5782)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Forseti (GSv:

Nú er komið að þeim tíma, er gefa verður nokkurt fundarhlé. Þessu er svo til hagað, eins og tilkynnt hefur verið, að hæstv. ríkisstj. leggur á það áherzlu, að umr. um málið verði hraðað og það afgr. í dag, en hins vegar vilja sumir hv. þm., að málinu verði vísað til n., og hefur enn ekki verið komizt að niðurstöðu um það atriði. Hæstv. ríkisstj. heldur því fram, að till. skuli afgreidd, en vill ekki ganga inn á, að málið gangi til n. Nú gæti það hins vegar orðið til hægðarauka að láta þessari umr. lokið og vita, hvort ekki mætti takast að koma málinu til n. Yrði þá að samþ. þetta til síðari umr., en því fylgdi eðlilega engin skuldbinding um endanlega afstöðu til málsins. Hin síðari umr. yrði þá í kvöld, og mætti afgreiða málið í nótt.

Boðað hefur verið til fundar í Ed., en mér hafa borizt orð frá forseta Ed. um, að þeim fundi skuli frestað, ef þörf gerist vegna afgreiðslu þessa máls.

Nú vil ég spyrja þá hv. þm., sem kvatt hafa sér hljóðs, hversu þeir vilja fara með málið.