16.02.1945
Sameinað þing: 95. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í D-deild Alþingistíðinda. (5809)

284. mál, leiga á færeyskum skipum o.fl.

Frsm. (Gísli Jónsson):

Samkv. ósk hæstv. ríkisstj. kom allshn. saman á fund í kvöld til þess að ræða þá till., sem liggur hér fyrir. Þar mættu allir nm., að undanteknum hv. 2. þm. Rang., sem farinn var úr bænum og náðist ekki til. Auk þess mætti á fundi hjá n. hæstv. forsrh. og hæstv. atvmrh., og ræddi n. við þá báða um þetta mál.

Ég vil hér leyfa mér að geta þess, að það er á nokkrum misskilningi byggt, sem hefur verið haldið fram í umr. um þetta mál, að það snerti eingöngu samninga um færeysk skip. Það snertir að vísu þann hluta um heimildina á samningnum, en hins vegar felast í þessu nokkur ákvæði um, hvernig ráðstafa skuli þessum skipum, sem hér um ræðir. Það er því ekki auðvelt að kljúfa þetta mál eins í sundur og hv. 2. þm. S-M. ætlast til, því að þótt þá síðar yrði gefið út nál. eða samin þál. um, hvernig haga ætti þessu máli öllu, kynnu að hafa verið gerðar þær ráðstafanir um þessi skip sérstaklega, sem gætu komið í veg fyrir, að hægt væri að ná í það sama og ætlazt var til.

Á nefndarfundi var nokkuð rætt um tvennt, annars vegar, að þeim stöðum á landinu, sem eiga erfiðast með útflutning, væri með þessari till. trpggður útflutningur á borð við aðra staði. Það var einnig rætt um, að sett væri jafnvel inn í till. að tryggja íslenzkum skipum a. m. k. sama rétt og þeim skipum, sem leigð eru frá útlendingum, en með því að hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir við n., að það væri hennar eindreginn vilji að stuðla að því, að íslenzkum útgerðarmönnum yrði ekki gert lægra undir höfði en öðrum útgerðarmönnum eða þeim, sem með þessi skip hafa að gera, sá n. ekki raunverulega ástæðu til þess að setja þetta beint inn í till., en hún væntir þess fyllilega, og vil ég beina því sérstaklega til hæstv. atvmrh., að þessum málum verði þannig skipað, að full notkun náist einnig á þeim skipum, sem eru í íslenzkri eign og eru gerð út af Íslendingum. Ég veit, að það mun vera eindreginn vilji hæstv. ríkisstj. að ná því takmarki, enda yrði ekki takmarkinu náð að fullu, ef það yrði til þess að hefta að einhverju leyti íslenzk skip til að annast að sínu leyti um útflutning. Ég get lýst því yfir hér, að þessi skilningur á málinu kom fyllilega fram hjá hæstv. ríkisstj., enda væri allt annað náttúrlega engan veginn eðlilegt.

Ég skal einnig geta þess, að bæði ég persónulega og sumir aðrir nm. hefðum heldur óskað eftir, að till. yrði breytt í það horf, að ríkisstj. væri heimilt að leigja skip, — ekki kannske eingöngu þau, sem hér um ræðir í þáltill., heldur einnig önnur —, en ríkisstj. lagði sjálf sérstaka áherzlu á, að þessi samningur á þskj. 1120 væri samþykktur. Ég get að þeim upplýsingum fengnum hjá hæstv. ríkisstj., sem kom fram í heimildinni, fallizt á, að í raun og veru er enginn eðlismunur á að gera heimild um samning, sem búið er að undirskrifa, eða samþykkja samninginn. Heldur en að kljúfa á nokkurn hátt n., sérstaklega með tilliti til þess, hve lítill tíminn var, þá varð að síðustu samkomulag hjá öllum nm. um að mæla með, að þáltill. verði samþykkt með þeim breyt., sem ég skal nú lesa upp. Á eftir meginmálsgreininni komi: „Enda leitist ríkisstjórnin við að tryggja eftir föngum hagsmuni þeirra staða, sem örðugast eiga um útflutning. Ríkisstjórninni heimilast að greiða úr ríkissjóði þann kostnað, sem þessar ráðstafanir kunna að hafa í för með sér.“ Skal ég nokkuð gera grein fyrir, hvers vegna við óskuðum eftir, að þetta væri sett inn í till.

Snemma á síðasta þingi var sett inn í fjárl. fyrir 1944, að þáverandi ríkisstj. væri heimilt að greiða allt að 200 þús. kr. til þess að aðstoða útvegsmenn á Íslandi til að koma fiskinum á útflutningsstaði. Nú hefur fyrrv. ríkisstj. ekki notað þessa heimild á neinn hátt, og hefur það ekki aðeins valdið vonbrigðum hjá mönnum úti um land, heldur töluverðu tjóni. Við töldum, að með því að setja þetta inn og heimila ríkisstj. að greiða úr ríkissjóði þann kostnað, sem þetta kynni að hafa í för með sér, mætti hjálpa til að koma þessu fiskmagni á þá staði, sem ekki væri nægilegur fiskur fyrir undir venjulegum kringumstæðum. Þar, sem svoleiðis háttar, að aðeins hafa fengizt 5 til 10 tonn á dag, en mætti safna öðrum 10 eða 15 með lítils háttar aðstoð frá ríkissjóði, væri þá gert tvennt í einu: að styðja að því, að þessir staðir kæmu fiskinum í burtu, og að þessi skip væru notuð á meiri og betri hátt en hægt væri á öðrum stöðum. Það var þess vegna m. a., að n. hefur lagt til, að þetta yrði sett inn í till.

Það þótti einnig sjálfsagt að gefa ríkisstj. heimild til að greiða úr ríkissjóði þann kostnað, sem till. öll í heild kann að hafa í för með sér, þó fyrst og fremst sé ætlazt til, að sá kostnaður greiðist af þeim tekjum, sem ef til vill kynnu að verða á þessum rekstri, og þá einnig þann kostnað, sem kynni að verða af því að þurfa að hjálpa öðrum til að safna fiskinum saman.

Það eru tveir af hv. nm., sem skrifuðu undir nál. með fyrirvara, þeir hv. fyrri þm. Skagf. og hv. 2. þm. N-M. Gera þeir að sjálfsögðu grein fyrir fyrirvaranum, og sé ég ekki ástæðu til að ræða það frekar.

Að síðustu vil ég geta þess, að n. leggur til, að málið sé afgreitt á þann hátt, sem ég hef yfir lýst.