26.02.1945
Sameinað þing: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í D-deild Alþingistíðinda. (5832)

286. mál, listasafn o.fl.

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég get verið stuttorður, því að þetta mál er öllum kunnugt.

Ég vil benda á, að nú eru liðin rúmlega 50 ár, síðan íslenzka þjóðin heiðraði listamann í fyrsta skipti, Matthías Jochumsson. Hér stendur líkt á um hann og þann listamann, sem þessi tillaga fjallar um. Þeir eru báðir listamenn, annar í orði, hinn í litum. Það er eftirtektarvert, að þeir, sem upphaflega báru fram, að Matthías Jochumsson skyldi fá skáldalaun, voru bændur í Skagafirði. Alþingi varð við þessu, þótt á krepputíma væri. Hann var fyrsti Íslendingurinn, sem slíkan heiður hlaut. Nú hafa gerzt aftur þau tíðindi, að fólkið sjálft, að þessu sinni í höfuðstaðnum, hefur margvíslega sýnt, að það metur þennan nálega sextuga listamann sérstaklega mikils. Hann lagði fram hér rétt við hliðina á okkur tveggja sumra vinnu sína fyrir nokkrum dögum, og þeir, sem höfðu aðstöðu til að kaupa, keyptu þessa framleiðslu á einum tuttugu mínútum. Síðan komu 14 þúsund menn til að skoða þessi listaverk næstu daga á eftir.

Síðan Matthías var heiðraður eins og ég áður sagði, hafa margir aðrir listamenn og skáld farið þá braut. Það hefur verið reynt á undanförnum árum að greiða götu nálega allra listamanna hér með því að hjálpa þeim til að byggja yfir sig hús. Jóhannesi Kjarval hefur aldrei verið hjálpað þar neitt. Hann hefur aldrei beðið um neitt og mundi aldrei biðja um neitt nema að fá að vinna. Hann hefur unnið við erfiðustu skilyrði fram á þennan dag. Þess vegna er það, að ég og þrír aðrir hv. þm. hafa borið fram þá ósk, að Kjarval fái nú betri aðstöðu en áður til að starfa, til að þeim þúsundum og aftur þúsundum Reykvíkinga og annarra, sem þyrstir eftir að sjá verk þessa mikla listamanns, gefist betra færi á því en áður, því að það eru vissulega miklu fleiri en þeir, sem kaupa málverk hans, sem langar til að sjá þau, til þess eru þau ekki nógu mörg, þó að mikið sé gert. Okkur finnst vera á síðustu stund að búa honum nú betri vinnuskilyrði en verið hefur og svipuð vinnuskilyrði og hinir hafa. Eins og tekið er fram í Alþýðublaðinu, yrði að reyna að sjá svo til, að þeir mörgu menn, sem hungrar eftir að sjá þessi listaverk, eigi þess kost, en að þau verði ekki öll keypt. Ég hef svo ekki um þetta fleiri orð, en legg til, að till. verði vísað til síðari umr. og til n.