01.03.1944
Efri deild: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í D-deild Alþingistíðinda. (6282)

49. mál, ríkisskuldir Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Hv. þm. S-Þ. telur það skipta miklu máli, að þetta takmarkist við 60 þús. kr., en ekki 100 þús. Ég tel þetta ekki skipta miklu máli, en tel óheppilegt að setja markið lægra en 100 þús., ef um eignaraukaskatt er rætt, eins og hér er gert. Ástæðan til þessa er sú, að ég býst ekki við, að þetta mundi auka mjög mikið tekjuöflunarmöguleikana, hins vegar mundu erfiðleikarnir við framkvæmdir skattsins vaxa mikið. Gjaldendum mundi fjölga mikið, og þyrfti því að skerpa eftirlitið með framkvæmd l. mjög mikið, ef þau ættu að koma réttlátlega niður á gjaldendunum. Ef miðað yrði við 100 þús., mundu 100–200 menn verða skattskyldir, miðað við tekjuaukninguna fram til ársins 1944, og þeim mundi fjölga verulega, ef takmarkið væri fært niður í 60 þús. kr. Önnur meginástæðan er sú, að 20 þús. kr. gróða á ári að meðaltali er varla hægt að telja sérstakan stríðsgróða — og alls ekki 10–12 þúsund kr. Hins vegar skal ég játa, að það er ýmislegt, sérstaklega af því, sem hv. 6. þm. Reykv. drap á í sinni ræðu, sem er því til stuðnings, að skattur sé á lagður, ekki til að mæta sérstökum þörfum í þjóðfélaginu, heldur sem heildarátök þjóðarinnar til að greiða skuldir ríkissjóðs upp.

Ef sú leið verður farin að skattleggja gróða, sem ekki nemur nema 10–20 þús. kr. á ári, þá er óhugsandi að láta menn, sem fyrir stríð hafa safnað hundruðum þúsunda, komast hjá skatti. Þessu hef ég ekki hreyft í till., af því að ég vildi ekki slá málinu á dreif, en mér þykir rétt, að það komi fram hér í umr., að mér er ljóst, að það hníga ýmis rök að því, að fleiri gjaldendur komi til greina en gert er ráð fyrir.

Hvað það snertir að leita álits sýslunefnda og bæjarstjórna á málinu, þá er mín skoðun sú, að það mundi aðeins verða til tafar. Hins vegar er ekkert á móti því, að ríkisstj. leiti, ef til kemur, álits þar, sem henni sýnist bezt. Hv. 6. þm. Reykv. taldi mig mikinn lánsmann, og það er ég að ýmsu leyti, en hann meinti að því leyti, að ekki var samþ. 1943 að leggja á eignaraukaskatt. Þetta er kannske rétt að nokkru leyti. Því lengri tíma, sem auður hefur safnazt, því meira fæst upp úr skattinum.

Annars vil ég minna á, að þegar þetta frv. var flutt 1943 og miðað við gróða til ársloka 1942, var tekið fram í grg., að jafnframt þyrfti að taka til endurskoðunar skattalöggjöfina í heild og reikna eftir raunverulegu verði fasteigna, sem gengju kaupum og sölum. Einnig var minnzt á í frv. um eignaraukaskatt, að ríkisstj. skyldi setja vissar reglur til tryggingar réttum framtölum. Allt þetta hefði getað orðið til þess að afla ríkissjóði mjög mikilla tekna og því verið óþarfi að leggja marga eignaraukaskatta á þjóðina.

Hv. 6. þm. Reykv. gaf yfirlýsingu, sem mér þótti vænt um að heyra og vil endurtaka. Hún er sú, að Sjálfstfl. geti verið með slíkum skatti sem þessum, ef hann væri notaður til lækningar á dýrtíðinni, eins og hann komst að orði, og væri liður í slíkri alhliða ráðstöfun. Ég fagna þessari yfirlýsingu frá hv. þm., treystandi því, að meira megi marka þetta en það, sem áður hefur heyrzt frá hans flokksbræðrum í þessu efni.

Hv. þm. sagði, að í frv. um eignaraukaskatt væru engar ráðstafanir gerðar til þess að ná til þeirra, sem skattarnir kæmu léttast niður á, en það er beinlínis tekið fram í frv., að gera eigi ráðstafanir til að tryggja rétt framtöl og miða eigi við sannvirði fasteigna, það verð, sem þær eru keyptar og seldar fyrir.

Ég vil mæla með því, að till. hv. þm. S-Þ. verði samþ. með breyt., sem ég hef lagt til, að gerðar verði, og vænti þess, að hann geti fallizt á að styðja það. Ég vil taka undir það með honum, að það væri ánægjulegt, ef takast mætti að greiða ríkisskuldir þjóðarinnar um leið og lýðveldið verður endurreist.