18.12.1944
Sameinað þing: 78. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

143. mál, fjárlög 1945

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. — Tilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er till. fjvn. eða meiri hl. hennar á þskj. 725, 11, um skáld, rithöfunda og listamenn, aths. við fjárveitinguna. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárhæð þessari skal úthlutað af nefnd, er ráðherra skipar. Skal skipa í nefnd þessa 5 menn, einn eftir tilnefningu hvers þingflokks og forseta Þjóðvinafélagsins, og er hann formaður nefndarinnar.

Við þessa till. er margt að athuga. Mér finnst hún í stuttu máli fráleit. Í fyrsta lagi er erfitt að skilja hana. Þar segir, að skipa skuli í n. fimm menn, einn eftir tilnefningu hvers þingflokks og forseta Þjóðvinafélagsins. Þetta má bæði skilja svo, að forseti Þjóðvinafélagsins ætti að tilnefna formanninn, og líka, að forseti Þjóðvinafélagsins ætti að vera form. n. Þetta er nokkuð nýstárleg till., að ætla ráðh. að skipa alla mennina, en ráða ekki skipun eins einasta manns. Það er í sjálfu sér ekki óvenjulegt, að einhver hluti nm. sé skipaður eftir tilnefningu, og ekki óvenjulegt, að n. séu skipaðar eftir tilnefningu þingflokka, þó að ýmislegt mætti um það segja og menn geti greint á um það. Hitt er algert nýmæli, að ráðh. sé falið að skipa ákveðinn tiltekinn mann, og alveg furðulegt, að slík till. skuli koma fram. Hvers vegna er þá ekki heldur ákveðið alveg umbúðalaust, að þessi maður skuli vera í n.? Ég held því, að þessi tili. hljóti að vera á misskilningi byggð eða sé ekkert annað en misskilningur. Ef þessi till. yrði samþ. svona, þá get ég ekki litið á hana öðruvísi en sem, — ég vil ekki segja vantraust, en a.m.k. vafasamt traust. Ef þessi till. félli niður og ekkert kæmi í staðinn, þá er það ég, sem á að úthluta þessum styrk, og það er fjarri því, að ég kæri mig um það. Hins vegar er hér brtt. frá tveimur nm., hv. 6. landsk. og hv. 2. landsk., sem er á þá leið, að þetta verði með sama hætti og verið hefur undanfarið, og legg ég til, að sú brtt. verði samþ., þannig að fyrirkomulagið verði óbreytt. Ég veit, að ýmsir hv. þm. eru óánægðir með þetta fyrirkomulag og menn greinir nokkuð á um það, en ef breyta ætti þessu, tel ég mikils vert, að um það gæti orðið sem víðtækast samkomulag. Nú liggur ekki slíkt samkomulag fyrir. Við 2. umr. var felld till. um þetta efni frá meiri hl., og eru ekki miklar líkur, þegar svo er komið, að afgr. fjárl. fer fram á morgun og umr. lokið í kvöld, að nokkurt samkomulag geti fengizt um breyt. á þessu. Er þá eðlilegast, að þetta sé haft á sama hátt og undanfarið, svo lengi sem ekki verður samkomulag um aðra lausn.