16.10.1945
Sameinað þing: 3. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

16. mál, fjárlög 1946

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þegar núv. ríkisstj. var mynduð, kom til orða, að allir flokkar ættu þátt í myndun ríkisstj. Framsfl. lýsti yfir því, að hann gæti ekki tekið þátt í myndun ríkisstj., nema ráðstafanir væru gerðar til þess að stöðva verðbólguna, og síðan ákveðið að lækka dýrtíðina.

Þetta taldi Framsfl. óhjákvæmilega undirstöðu heilbrigðs atvinnu- og fjármálalífs og það alveg sérstaklega, þegar þess var gætt, að næstu missiri þurftu að verða miklar framfarir í landinu, en í því sambandi hlaut að eiga sér stað mikil fjárfesting í atvinnuvegum landsmanna. Tillögum Framsfl. um þessi efni var algerlega vísað á bug.

Síðastliðið haust lá fyrir tilboð frá fulltrúum bænda á búnaðarþingi um tilslökun á afurðaverði, og var það hugsað sem fyrsta skref til algerrar breytingar í dýrtíðarmálum. Í stað þess að fallast á stefnu Framsfl. í verðlags- og fjárhagsmálum og stefnu búnaðarþings, var núv. ríkisstj. mynduð á þeim grundvelli, að tilboð bændastéttarinnar um verðlagsmálin var misnotað til þess að kaupa kommúnista til fylgis við núv. ríkisstjórn. Í stað þess að stöðva verðlag og kaupgjald, var afurðaverðið eitt stöðvað í bili, en almennum kauphækkunum um land allt lofað um leið. Jafnframt var enn einu sinni flutt sú kenning, að kauphækkanir hefðu engin áhrif á dýrtíðina í landinu og því lýst yfir, að dýrtíðin hefði verið stöðvuð. Með drembilæti og hofmóði var byrjað að prédika, að það væri fásinna og afturhald að tala um, að minnka þyrfti verðbólguna, og engin von væri til þess, að menn vildu samþykkja niðurfærslu verðlags og kaupgjalds, þar sem hennar væri engin þörf. Stóð svo um hríð.

Þegar að því kom, að stjórnarliðið átti að afgr. fjárlög fyrir yfirstandandi ár og afla tekna í því sambandi, þegar stjórnarliðið stóð frammi fyrir því að þurfa að afgr. ný launal., sem lofað hafði verið, og þegar séð varð, að til þess að halda vísitölunni óbreyttri þurfti 20–30 millj. kr. framlag úr ríkissjóði, minnkaði þó ofsi stjórnarliðsins um stundarsakir. Í örvæntingu var gripið til þess að samþ. veltuskattinn, sem löngu er landsfrægur orðinn að endemum sem óréttlátasti skatturinn, sem lagður hefur verið á hér á landi, og þyrfti víst víða og lengi að leita að hliðstæðu „afreki“ í þjóðmálum.

Til þess að halda uppi verklegum framkvæmdum var gripið til þess að veita fé úr og éta upp þá litlu sjóði, sem ríkið hafði safnað á undanförnum árum. Í átökum þeim, sem urðu um þessi mál, bognaði hæstv. fjmrh. nokkuð undan þunga staðreyndanna, og síðasta Alþ. lauk svo, að hæstv. ráðh. gaf hina frægu yfirlýsingu um það, að fjármálastefna sú, er þá var fylgt, gæti ekki staðizt, og yrði því að breyta um stefnu. Lét hann þess þó jafnframt getið, að hann væri ekki reiðubúinn að segja, hversu með fjárhags- og dýrtíðarmálin skyldi fara, en sat samt.

Nú liðu nokkrir mánuðir, og stjórnarliðið naut lífsins í nefndum og ráðum. En verðbólgufræið, sem stjórnin setti niður síðla vetrar og í vor með allsherjar kauphækkunum í landinu, spratt á meðan í næði. Leið svo fram í ágúst. Fóru þá draumar að þyngjast, og geta menn gert sér í hugarlund, að líðan ríkisstj. og þá sérstaklega hæstv. fjmrh. hafi verið eitthvað svipuð því, sem segir í þjóðsögunni um konuna, sem fól Gilitrutt vefnaðinn. Varð nú ekki undan því komizt að horfa framan í staðreyndirnar. Vísitölu landbúnaðarins varð að reikna. Kom þá í ljós það, sem vita mátti, að hún hafði hækkað verulega, eða um nærri 10%. Stóðu málin nú þannig, að bændur áttu inni önnur 10% frá síðastliðnu hausti. Þurfti verðlag þeirra því að hækka um 30% til þess, að þeir stæðu jafnfætis öðrum stéttum. Urðu nú lítils virði fullyrðingar stjórnarliðsins frá því s. l. vetur og vor um, að framkvæmd kauphækkana hefði engin áhrif á dýrtíðina í landinu, og dýrtíðin væri stöðvuð. Ef verðlag landbúnaðarafurða átti að setjast í samræmi við kaup og annan framleiðslukostnað og niðurgreiðslur úr ríkissjóði að hætta, þá var vísitalan fljótlega komin á fjórða hundrað stiga. Þannig hafði ríkisstj. búið í haginn þann stutta tíma, sem hún hafði setið að völdum.

Fór nú víst að fara um þá, sem hæst höfðu hrópað gegn því, að nauðsyn bæri til niðurfærslu verðbólgunnar. Aðalstuðningsblöð stjórnarinnar gerðu nú allt í einu þá uppgötvun, að Framsfl. hefði haft rétt fyrir sér. Morgunbl. sagði, að nú væri tækifæri til þess að aðhafast eitthvað raunhæft í dýrtíðarmálunum, ekki mætti tæpara standa um afkomu atvinnuveganna. Og jafnvel Þjóðviljinn tók undir. Morgunbl. boðaði, að nú mætti vænta, að kallið kæmi frá ríkisstj., að augu valdhafanna hefðu opnazt og skírskotað yrði til landsmanna að standa nú saman og aðhafast eitthvað raunhæft í dýrtíðarmálunum.

Enginn tók þetta fjas alvarlega, svo að við yrði vart. Menn hafa áður séð skrif Morgunblaðsins um þessi efni. Menn hafa heyrt skraf hæstv. núv. forsrh. um bölvun dýrtíðarinnar og séð þá lyppast niður jafnharðan og byrja að lofsyngja verðbólguna á nýjan leik, undireins og á þurfti að halda til þess að halda völdunum. Menn bjuggust því ekki við miklu. Og í þessu hefur mönnum ekki heldur yfirsézt. Allt fór á sömu leið og vant var: Ríkisstj. gafst upp við lausn málsins. Það kom ekkert kall. Augu valdhafanna höfðu aðeins opnazt örlitla stund, en það, sem þau sáu, var ekki þægilegt, og þá var ekkert annað að gera en leggja þau aftur á ný. Engar raunhæfar ráðstafanir voru gerðar. Aðeins kák eitt, en verra og hættulegra kák en nokkru sinni fyrr. Það mátti líka svo sem nærri geta, hvað þeir menn gátu gert til þess að lækka dýrtíðina, sem vegna metnaðar höfðu bundið sig í þessum málum s. l. haust og tekið sér fyrir hendur að kalla þá menn ónefnum og ausa þá auri, sem höfðu bent á raunhæf úrræði til lækkunar verðbólgunnar. Hvers var að vænta af þeim mönnum, sem tekið höfðu að sér stjórnarmyndun fyrir nokkrum mánuðum á þeim grundvelli, að engrar niðurfærslu væri þörf?

Ríkisstj. var það vel ljóst í sumar, að bændastéttin var ófáanleg til þess að taka á sig einhliða byrðar dýrtíðarinnar. Bændur voru staðráðnir í því að halda fram hlut sínum, eins og aðrir. Þeir höfðu í fyrrahaust reynt þá leið að slaka til einir og ætluðu að gefa með því fordæmi og gera mögulega allsherjar stefnubreytingu í dýrtíðarmálunum. En þær ráðstafanir voru herfilega misnotaðar og reist ný dýrtíðaralda. Undir forustu hæstv. fjmrh. var þá gripið til þess nú að skipa bændastéttinni forráðamenn til þess að gera það, sem menn vissu fyrirfram, að allir bændur landsins voru mótfallnir. Þessir stjórnskipuðu forráðamenn bændastéttarinnar voru látnir ákveða stórkostlega verðlækkun á kjötvörum til bænda frá því, sem þeir fengu heim í bú sín s. l. haust, og 10% lægra verð á mjólkurvörum en þeir áttu að fá samkvæmt sex manna nefndar álitinu. Þetta var gert nær sömu dagana sem bændur stofnuðu stéttarsamtök sín og gerðu kröfur um að verðleggja sjálfir afurðir sínar. Með þessum fáheyrðu þvingunarráðstöfunum, sem ekki hefðu verið kallaðar aðeins þrælalög, heldur einhverju enn sterkara nafni, ef aðrar stéttir hefðu átt í hlut, var meginþunga dýrtíðarinnar, sem ríkisstj. hefur skapað, velt yfir á bændur, en til viðbótar var gripið til úrræða, sem á sínu sviði jafngilda helzt veltuskattinum fræga.

Úrræðið — ef úrræði skyldi kalla — var í stuttu máli það, að tekinn var hluti af kjötverðinu út úr vísitölunni og dýrtíðinni þar með að því leyti sleppt lausri, en viss hluti þjóðarinnar keyptur undan þessu að nokkru leyti með fjárgreiðslum úr ríkissjóði. Þjóðinni er þannig skipt í hreina og óhreina, í verðuga og óverðuga, Þeir óverðugu eru allir þeir, sem hafa einn eða, fleiri menn í þjónustu sinni.

Þegar þessi afrek eru talin, er þó ekki lengra komið en svo í málinu, að vísitalan hækkar verulega þrátt fyrir þetta, og ríkissjóður verður að greiða allt að 20 millj. kr. á ári til þess að halda vísitölunni ekki fjarri 280 stigum. Þetta er hin nýja stefna í dýrtíðarmálum. En það eru engar ýkjur, að þessar ráðstafanir vekja ýmist sára gremju eða þeim er tekið með nöpru háði um allt land. — Afleiðingar þessa ráðleysis, sem ríkt hefur og ríkir enn þá í þessum málum, eru margvíslegar í atvinnulífi og fjármálalífi þjóðarinnar. Ýmsir ráðamenn þjóðarinnar virðast vinna hreint og beint markvisst að því að búa til kreppu í atvinnu- og fjármálum landsins. Þessir menn eru ekki heldur langt frá markinu, eins og glöggt sést á afleiðingum þess, ef eitthvað ber út af um hæsta stríðsverð eða óvenjulega aflasæld og árgæzku til lands og sjávar.

Það gæti verið ástæða til að draga upp mynd af því, hvernig horfir nú orðið um rekstur landbúnaðar og sjávarútvegs, afkomu bænda og fiskimanna, um byggingarkostnað og hvernig þeir eru settir, sem ekki áttu þak yfir höfuð sér fyrir styrjöldina, en því miður er ekki tími til þess að fara út í þá sálma að þessu sinni. Hér er aftur á móti til umræðu fjárlfrv. það, sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fyrir Alþ., en þetta fjárlfrv. gefur nokkuð glögga hugmynd um, hvert stefnir með fjármálastjórnina.

Ég hef margsinnis bent á það og geri það enn, að verðbólgustefnunni fylgja síhækkandi ríkisútgjöld. Kostnaðurinn við ríkisreksturinn verður svo mikill, að draga verður úr verklegum framkvæmdum. Skattar verða óviðráðanlegir og loks kemur að því, að stórkostlegur tekjuhalli verður samhliða niðurskurði verklegra framkvæmda. — Lítum þá á fjárlfrv., og gefum því gætur, hvort þess sjáist merki, að í vændum séu þessir atburðir.

Gildandi fjárlög voru þau langhæstu, sem Alþ. hafði nokkru sinni samþ., og var þó gefið mál fyrir fram, eins og hæstv. fjmrh. upplýsti raunar í ræðu sinni áðan, að gjöldin fyrir þetta ár verða milljónatugum hærri en fjárlögin, en þau gerðu ráð fyrir 110 millj. króna útgjöldum. En það fjárlagafrv., sem hér er til umræðu, gerir ráð fyrir 115 millj. kr. útgjöldum á rekstrarreikningi og 130 millj. kr. greiðslum úr ríkissjóði. Þetta fjárlagafrv. er því nú þegar, þegar að er lagt fram, um 20 millj. kr. hærra en gildandi fjárlög. — Við skulum nú athuga, í hverju þetta liggur.

Það verður fljótt augljóst, að þessi gífurlega hækkun á rót sína að rekja til sívaxandi rekstrarútgjalda ríkisins og dýrtíðargreiðslna, sem teknar eru inn í fjárlögin, en ekki til þess að almennar verklegar framkvæmdir hafi verið auknar. Þvert á móti eru framlög til margra þeirra verklegra framkvæmda, sem mest eru aðkallandi og mesta almenna þýðingu hafa, lækkuð frá því, sem þau eru í gildandi fjárlögum. Skal ég geta um nokkur slík framlög og fjárveitingar til þýðingarmikilla mála til þess að gefa hugmynd um blæinn á þessu mesta fjárlfrv. í sögu íslenzku þjóðarinnar, en það er um það bil sexfalt hærra en fjárlögin voru fyrir stríð.

Til nýrra landssímalína um byggðir landsins eru ætlaðar 400 þús. kr. Geta menn gert sér í hugarlund, hvort þessi fjárveiting muni svara til eftirspurnar eða þarfa. Í þessu sambandi ber þess sérstaklega að gæta, að nú fer væntanlega að koma hið langþráða efni til þessara framkvæmda. En eftir fjárlfrv. að dæma, þolir landssíminn ekki meiri framlög. Þannig er verðbólgustefnan búin að koma hag hans.

Framlögin til landhelgisgæzlu eru hækkuð um einar 200 þús. kr. Má nærri geta, í hvaða samræmi slíkt er við þörfina, þegar þess er gætt, að brýna nauðsyn ber nú til þess að auka stórkostlega landhelgisgæzluna, með hliðsjón af því, að styrjöldinni er hætt og búast má við því, að erlend skip taki að sækja aftur á Íslandsmið. Framlög til nýrra þjóðvega eru lækkuð um 1 millj. kr. og framlög til brúargerða um 300 þús. kr. — Framlög til flóabátaferða eru lækkuð um nærri 1 millj. kr. Er erfitt að sjá, á hvaða viti þetta er byggt, þegar þess er gætt, að stórkostleg þörf er á auknum og bættum strandferðum. Það verður bókstaflega ekki komizt undan að sinna þeim kröfum, sem gerðar hafa verið og gerðar eru í þá átt. — Framlög til hafnargerða og lendingarbóta eru lækkuð um meira en 1 millj. kr. Á sama tíma eru nefndir ríkisstj. á þönum um landið þvert og endilangt, mælandi fyrir nýjum höfnum, og mönnum er lofað stórfelldum framkvæmdum í þeim málum á næstunni, auk þess sem fyrir dyrum standa byggingar sérstakra landshafna, eftir því sem uppi hefur verið látið, og vitað, að stjfrv. um byggingu einnar slíkrar hafnar mun verða lagt fram á þessu þingi.

Í frv. er engin fjárveiting sjáanleg, hvorki smá né stór, til stuðnings þeirri nýsköpun atvinnulífsins, sem ríkisstj. hefur gumað af fyrr og síðar. — Til raforkumála er veitt aðeins sú hálfa milljón, sem ákveðin var til raforkusjóðsins með lögum, áður en núv. ríkisstj. kom til valda. — Í frv. er sýnilega ekki gert ráð fyrir stórfelldum nýjum ráðstöfunum í ræktunar- eða nýbýlamálum. — Engin fjárveiting er í frv. til þess að styðja nýjungar í sjávarútvegsmálum. Ætti það þó að vera öllum ljóst, að mikil þörf er á því, að rækilega verði studdar margs konar rannsóknir og tilraunir í þágu sjávarútvegsins. Það þarf að veita fé til þess að gera tilraunir með nýjar veiðiaðferðir og verkunaraðferðir, auk þess sem leggja þarf fram fé til að vinna nýja markaði víðs vegar í öðrum löndum. Fjöldamörg önnur nýmæli í sjávarútvegsmálum eru þannig vaxin, að þeim verður ekki hrundið í framkvæmd nema með stuðningi þess opinbera. Það er ekki grænn eyrir af 130 millj. ætlaður til þessara mála.

Ástandið í byggingarmálum manna bæði í sveitum, kauptúnum og kaupstöðum er verra en það hefur nokkru sinni verið á síðari áratugum. Það þarf stór átök í þeim efnum, og óhugsandi, að það verði gert, án þess að ríkið leggi þar eitthvað verulega af mörkum umfram það, sem verið hefur. — Stjórnarflokkarnir hafa lofað fullkomnum alþýðutryggingum, sem lögleiddar eiga að verða þegar á þessum vetri. Ekki er einn eyrir ætlaður í fjárlfrv. fyrir þeim stórkostlega kostnaði, sem af þeirri framkvæmd hlýtur að leiða. — Það er augljóst, að Íslendingar verða að leggja fram meira fé en þeir hafa gert til hjálparstarfsemi sameinuðu þjóðanna. Fyrir því er ekkert gert í fjárlagafrv.

Þannig er þá komið málum, að lagt er fram fjárlfrv., þar sem gert er ráð fyrir 115 millj. kr. rekstrarútgjöldum, en 130 millj. kr. heildarútgjöldum, en jafnframt lækkaðar fjárveitingar til ýmissa hinna þýðingarmestu verklegra framkvæmda. Enginn eyrir er ætlaður til margumræddrar nýsköpunar og látið eins og þau framfaramál séu ekki til, sem þjóðin hefur mestan áhuga á. Þannig eru áhrif verðbólgustefnunnar á möguleika ríkissjóðs til þess að standa undir verklegum framkvæmdum og félagslegum útgjöldum.

Það er ekki að furða, þótt það hafi verið eitt aðalverkefni hæstv. ríkisstj. undanfarna mánuði að halda fram þeirri kenningu, að öllu væri óhætt og engin ástæða til þess fyrir þjóðina að ranka við sér og breyta um stefnu.

Þetta er nú um verklegar framkvæmdir og framlög til félagsmála. En það verður allt annað uppi á teningnum, þegar vikið er að rekstrarútgjöldum ríkisins. Það er tæplega hægt að finna einn einasta lið þessarar tegundar í frv., sem ekki hefur stórhækkað frá því, sem er í gildandi fjárlögum. Þetta stafar bæði af launahækkunum og svo af hinni gífurlegu útþenslu og eyðslu í öllum greinum, sem einkennir starfrækslu undir forustu núv. ríkisstjórnar. Það er rétt að nefna nokkrar tölur. Kostnaður við stjórnarráðið ásamt ríkisráði og fjárhirzlu er áætlaður á þriðju millj. kr. Kostnaður við utanríkismál er kominn í 2 millj. kr. — Kostnaður við stjórn landsins, dómsmál og lögreglustjórn og embættiseftirlit, þ. e. a. s. 8.–11. gr. fjárl., samanlagt er kominn upp í 18,7 millj. kr. samkv. fjárfrv., eða orðinn jafnhár því, sem öll fjárlögin voru fyrir stríð. Þessir kostnaðarliðir eru í gildandi fjárlögum áætlaðir 15 millj. og 300 þús., og er þar miðað við gömlu launalögin og vísitölu 250 stig. Hækkunin nemur 3.4 millj. kr. Svona ört sígur á ógæfuhlið. Það er augljóst, að útgjöld fjárl. af þessu tagi eru þó allt of lágt áætluð, miðað við þá reynslu, sem nú er að fást, og óbreytta stefnu.

Engin fjárveiting er ætluð til þeirra mörgu nefnda og ráða, sem stjórnin hefur komið á laggirnar. Til nýbyggingarráðs er t. d. ekkert fé veitt, enda þótt það hafi komið upp miklu skrifstofubákni og hafi stórfelldan kostnað við ferðalög og nefndasendingu. Til búnaðarráðs er heldur ekkert fé veitt, að því er ég bezt get séð. — Hæstv. ráðherrar héldu um það fjálglegar ræður á síðasta þingi, sumir hverjir, að það yrði að fækka nefndum og minnka kostnaðinn. Blöð stj. tóku undir þetta. En hverjar hafa svo efndirnar orðið? Mér telst svo til, að ríkisstj. hafi ekki skipað færri en 30 nefndir á þeim stutta tíma, sem hún hefur setið að völdum, en lagt niður aðeins örfáar. Í þessum nefndum munu vera samtals eitthvað aðeins innan við 200 manns, fyrir utan allt starfslið. Er þetta áreiðanlega met í nefndaskipunum. Er nú líka svo komið, að ríkisstj. virðist í seinni tíð halda nefndaskipunum leyndum, og er það alveg nýtt í stjórnarsögu landsins, eins og reyndar ýmislegt fleira. Má því vel vera, að mun fleiri nefndir hafi verið skipaðar, þótt ekki sé upplýst orðið enn.

Á síðasta þingi var samþ. þál., þar sem skorað var á ríkisstj. að draga verulega úr rekstrarútgjöldum ríkisins og gera starfskerfið einfaldara og óbrotnara. Árangurinn af þessari þál. sést á þessu fjárfrv. Rekstrarútgjöldin hafa aldrei verið meiri en ráðgert er í frv., og þó eru þau í raun réttri miklu hærri en þar er látíð koma fram. — Auk þess, sem þegar hefur verið nefnt, vantar á, að talin séu í frv. ýmis þau gjöld, sem fyrirsjáanleg eru. Fjárframlög til dýrtíðarráðstafana eru í fjárlfrv. sett mörgum millj. kr. lægri en þau hljóta að verða á heilu ári, miðað við þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstjórn hefur þegar gert. — Enginn eyrir er ætlaður til þess að greiða útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir eða á aðrar greiðslur til þess að bæta það gífurlega tjón, sem ráðstafanir ríkisstj. í afurðasölumálunum hafa nú þegar valdið bændastétt landsins.

Niðurstöður þeirra athugana, sem ég hef gert á gjaldahlið fjárlfrv., eru þá þessar:

1. Framlögin til þýðingarmestu verklegu framkvæmdanna og til þess að halda uppi samgöngum eru lækkuð.

2. Ekkert fé er ætlað í frv. til stuðnings „nýsköpun“ atvinnuveganna eða nýrra framfaramála yfirleitt, sem efst eru á baugi með þjóðinni. Fyrir slíkar fjárveitingar er ekkert rúm í fjárlögum ríkisins, eins og nú er komið.

3. Rekstrarútgjöldin hafa hækkað gífurlega og eru þó áætluð lægri í frv. en nokkrar líkur eru til, að þau verði í framkvæmd að óbreyttri stefnu.

4. Í frv. vantar beinlínis ýmsa fyrirsjáanlega útgjaldaliði.

Þrátt fyrir þetta nemur gjaldahlið frv. samtals 130 millj. kr. Tekjurnar eru áætlaðar samtals 117 millj. kr., og er það rúmlega 6 millj. kr. hærra en þær eru áætlaðar í núgildandi fjárlögum. Er þá gert ráð fyrir að halda öllum sköttum og tollum og skattaaukum frá því í fyrra, þar á meðal tekjuskattsviðaukanum, nema veltuskattinum og 2% útflutningsgjaldi af togarafiski. — Greiðsluhalli er áætlaður 13 millj. kr., og er þá gert ráð fyrir, að á næsta ári verði gripið til þess úrræðis að taka ríkislán í hallann, þótt tekjurnar fari mikið á annað hundrað millj. kr. — En geta menn gert sér í hugarlund, hvernig fjárlfrv. liti út, ef í það væru sett öll fyrirsjáanleg og óumflýjanleg útgjöld, að óbreyttri stefnu, og allar þær fjárveitingar til framfaramála, sem þar þyrftu og ættu að vera, miðað við þann framfarahug, sem nú ríkir með þjóðinni, og þá nauðsyn, sem fyrir hendi er? Geta menn gert sér í hugarlund, hvernig ríkisreikningurinn mundi síðan líta út, ef þetta væri gert, verðbólgan látin leika lausum hala, Íslendingar yrðu að lifa á framleiðslu sinni og útflutningsvara eingöngu eins og verður á næstunni og verðlag fisks tæki að leita jafnvægis við annað verðlag, þegar framboð matvæla eykst?

Í þessu sambandi verða ekki tölur nefndar, en hafi menn ekki séð það áður, þá ættu menn að sjá það nú, hvert stefnt er og hversu mikið er að treysta á forustu þeirra, sem hafa leitt út í það fen, sem við nú erum staddir í. En hvað átti þá að gera? Það átti að gera það, sem hæstv. fjmrh. þóttist ætla að gera, þegar hann sagði í lok síðasta þings (með leyfi hæstv. forseta, tekið orðrétt úr blaði ráðh., Morgunbl.):

„Ég undirstrika enn, að breyta verður um stefnu í fjármálum. Mér er það ljóst, að á því, hvernig tekst að breyta um stefnu í þessum málum, veltur mjög, hvort núv. ríkisstj. tekst að ná því marki, sem hún stefnir að. Ég tel óhugsandi að halda áfram á sömu braut og farin hefur verið hingað til.“

Þetta sagði hæstv. fjmrh. þá. En hvað gerir hann nú? Hefur hann breytt um stefnu? Nei, öðru nær, hann hefur lagt fram fjárlfrv., sem byggt er á sömu helstefnunni í fjárhags- og dýrtíðarmálum og fylgt var við stjórnarmyndunina og allt s. l. ár. Hæstv. fjmrh. hefði hins vegar átt að gera sér grein fyrir því, að hann átti, eins og nú var komið, ekki að leggja fram þetta fjárlfrv., heldur lausnarbeiðni sína.

Það er ömurlegur vitnisburður um vanþroska þingræðisins á Íslandi, að menn skuli hafa fyrir framan sig í senn þessa yfirlýsingu hæstv. ráðh., sem ég las upp áðan, sem gefin var fyrir nokkrum mánuðum, og fjárlfrv. það, sem sami hæstv. ráðh. hefur lagt fram nú. Með hverjum mánuði, sem líður, verða vandamálin erfiðari viðfangs. Það er óbætanlegt tjón, að ekki var breytt um stefnu á s. l. hausti, eins og Framsfl. vildi láta gera. Þörfin fyrir algera stefnubreytingu er enn þá brýnni nú en þá.

Það, sem nú þarf að gera, er blátt áfram það, sem svo oft hefur verið bent á áður og gerðar tillögur um: Það þarf að ráðast gegn verðbólgunni með niðurfærslu allra þeirra liða, sem áhrif hafa á verðmyndun í landinu, svo sem kaupgjalds, afurðaverðs, verzlunarkostnaðar, flutningsgjalda og byggingarkostnaðar. Auka kaupmátt peninganna, jafnframt því sem greiðslur eru lækkaðar í krónutölu. Lækka framleiðslukostnað, ríkisútgjöld og heimilisútgjöld. — Áður en þetta er framkvæmt eða um leið verður að leiðrétta það, sem gert hefur verið til þess að raska jafnvægi innbyrðis, og tryggja þannig, að menn taki jafnan þátt í þessum ráðstöfunum. Jafnframt þarf að fara fram allsherjar eignauppgjör í landinu og leggja þannig trausta undirstöðu að hinni nýju skipan í fjármálum.

Misréttið í skattamálum og fjárhagsmálum er orðið óþolandi meinsemd í þjóðlífinu, og það verður ekki þolað, að gerðar séu nauðsynlegar ráðstafanir til þess að minnka verðbólguna og til viðreisnar, nema jafnframt verði jafnaðar þær misfellur, sem orðið hafa um framlög til almennra þarfa. Verðbólgu- og stríðsgróðinn verður að mynda þann stofnsjóð, sem þarf að koma upp á vegum ríkisins til þess að styðja framfarirnar. Þessar framkvæmdir eru nauðsynlegar til þess að forðast kreppu og kyrrstöðu og til þess að skapa grundvöll að framförum og þróttmiklu athafnalífi.

Ég geri mér engar vonir um, að hæstvirt núv. ríkisstj. standi fyrir stefnubreytingu í þessu efni. Öðru nær. Gerir nokkur sér lengur vonir um slíkt? Ég held ekki. Hæstv. ríkisstj. hefur hvorki vilja né þrótt til þess að rífa sig upp úr því feni, sem hún stakk sér í þegar í öndverðu. Mér sýnist það meira að segja vera alveg fullkominn ásetningur hæstv. stj. að halda völdunum, gefast ekki upp né játa til hlítar, hvernig komið er, fyrr en allt fjármagn er uppétið, sem hönd verður á fest. Það verður að koma til kasta þjóðarinnar sjálfrar að veita viðnám verðbólgu- og skuldastefnu hæstv. ríkisstj. og koma í veg fyrir, að hér verði búin til stórfelld kreppa í atvinnu- og fjármálum. Þjóðin fær tækifæri til þess á næsta vori. Vonandi verður það ekki svo seint, að ekki verði bjargað. Þjóðin fær þá tækifæri til þess að sýna, hvort hún vill heldur framhald þeirra vinnubragða, sem nú tíðkast, eða úrræði þeirra, sem gegn þeim hafa barizt og jafnframt lagt fram tillögur um aðra stefnu í fjárhags- og atvinnumálunum. Nægilega margir verða að sýna það í verki í næstu alþingiskosningum, að menn láta ekki bjóða sér það ráðleysi, sem nær allir viðurkenna nú orðið, að einkenni það, sem gert er í þýðingarmestu vandamálunum. Þeir, sem fyrir misrétti hafa orðið, verða að sýna það í verki, að þeir sætta sig ekki við það, að þeirra réttur sé að vettugi virtur. Það er engin ástæða til þess að vera sérstaklega svartsýnn, þótt miklu hafi verið spillt, ef landsmenn láta í ljós óánægju sína, ekki bara með því að finna að, heldur með því að minnka fylgi þeirra og fella þá frá því að fara með umboð sín, sem fyrir þessu standa. En menn verða að gera sér grein fyrir því, að ef þeir þola óréttinn, brigðmælgina og ráðleysið án þess að láta það varða fylgistapi og fylgisaukningu annarra og vinna að því, að áhrif þeirra nái inn í þingsalina, þá er gagnrýni og óánægja ekki nóg. Menn venjast á að meta hana að engu, ef hún er ekki sýnd í verki.