11.03.1946
Efri deild: 81. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í B-deild Alþingistíðinda. (2340)

144. mál, Austurvegur

Gísli Jónsson:

Umr. var frestað vegna fjarveru ráðh., en nú er hæstv. samgmrh. kominn. Ég óska, að hæstv. fjmrh. verði viðstaddur og látinn vita um það, hann er í næsta herbergi. Ég er hér með ákveðna fyrirspurn til hans, og tekur ekki langan tíma að fá hana afgreidda. Við umr. um fjárl. fyrir 1946 hafði hæstv. fjmrh. mælzt til, að eigi yrðu nema 5 millj. kr. alls veittar til allra vega á landinu. En framlag þetta var hækkað upp í 7 millj. Hæstv. ráðh. sagði, að varhugavert væri að fara svo geyst í verklegum framkvæmdum. Hann hefur hvað eftir annað varað við því að leggja of mikið í sérstakar framkvæmdir nú, þar eð hætta sé á, að slíkar framkvæmdir dragi úr öðrum. Hefur og komið fram, að ekki sé rétt að einskorða sig við einar framkvæmdir. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort hann ætlar að láta vinna fyrir 6 millj. kr. til loka þess verks, er hér um ræðir, og nota þar hluta af lánsheimildinni.

Ég beini annarri fyrirspurn til hæstv. samgmrh. Hér er gengið í þá átt að taka ákveðinn veg út úr vegakerfinu. Að vísu er ætlazt til þess, að fé sé tekið að láni til þessa verks. En þess er ekki getið hér, hvort þetta skuli hafa áhrif á önnur framlög.

Mér skilst, ef þetta frv. verður að l., að þá fari svo einnig um aðra vegi í landinu. Hér er um nýjung að ræða, þar sem ráðgert er að setja sérstök lög um einn veg, taka hann út úr vegalögunum. Ef frv. verður samþ., þá er viðbúið, að haldið verði áfram á þessari braut og gefið fordæmi um aðra vegi, þar sem gera þarf stór átök. Ég vildi þá spyrja hæstv. samgmrh., hvort hann er þessu samþykkur. — Hvort tveggja það, er nú hefur verið nefnt, hefur áhrif á gengi þessa frv. En annars er meiri nauðsyn en að svo sé. Á grundvelli þess óska ég að fá skýr og ákveðin svör.