26.03.1946
Efri deild: 92. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (2484)

144. mál, Austurvegur

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Gleði manna með frv. er enn meiri en fram hefur komið gagnvart flm. Ég vildi fyrir hönd flm. láta nægja hóflegri gleði með því að greiða atkv. með frumvarpinu. Hvað við kemur sérstöku gjaldi þá vil ég benda á, að mér er kunnugt, að víða í löndum, þar sem um styttri vegi og betri er að ræða, er oft heimtað sérstakt gjald, og væri það ekkert til fyrirstöðu með þennan veg. Meðal stórþjóða hefur verið farið svo að. Sé gjaldinu stillt í hóf, setja menn ekki fyrir sig smávægilegt gjald, og það er gróði manna að fara góðan veg og nota hlunnindi þessa vegar. Ekki er hægt að setja slík gjöld fyrr en um það bil, að vegagerðinni er lokið og vegurinn kominn á.

Þm. Barð. blöskraði féð til þessa vegar, þótt hann sé með málinu og greiði atkv. með því, og bið ég afsökunar, ef ég hef verið of hvassyrtur, en mitt sjónarmið kom fram í minni seinni ræðu. Hann skyldi vera með frv. um járnbraut að Selfossi, ef hún næði á Langanes. Slík innskot yrðu frv. áreiðanlega að falli, yrðu til þess eins að eyðileggja það. Hér kemur fram kjördæmasjónarmið, sem er að mörgu leyti eðlilegt.

Ég þakka fyrir hönd flm., að hv. þm. Barð. ætlar að vera með frumvarpinu.