10.04.1946
Neðri deild: 106. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

144. mál, Austurvegur

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Það voru aðeins örfá orð út af því, sem hv. 10. landsk. sagði, en hann var að gera mér upp hvatir ýmsar í sambandi við þetta mál og sagði eitthvað á þá leið, að ekki væru allir ánægðir með, að frv. þetta hefði komið fram, og væri ég einn af þeim. Ekki veit ég, hvaðan honum kemur slíkt, og fær hann sjálfsagt upplýsingar um það hjá sessunaut sínum, sem hann notar tímann til að tala við. En hann hefur ekki um það neina hugmynd né heldur nokkurt leyfi þessi hv. þm. að segja, að ég sé í þeirra hópi, sem hafi ímugust á málinu. Ég hef lýst yfir því, að ég væri því mjög fylgjandi að leggja góðan veg milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, og ég hef aldrei haldið því fram, að Krýsuvíkurvegurinn ætti að verða neitt í þessa átt. Hinu hef ég aftur á móti haldið fram, að Krýsuvíkurvegurinn yrði miklu öruggari vetrarleið hvað flutninga snertir, sökum þess hvað hann verður miklu snjóléttari. Og ef þessi hv. þm. lifir, að þessir vegir verði báðir fullgerðir, sem ég vona, að hann geri, fær hann að sjá, að þessi spá mín reynist rétt.

Þá skal ég aðeins segja það, að það er ekki þýðingarlaust, hvort ákveðnar líkur eru fyrir því, að hægt sé að framkvæma málið á 8 árum, en ég efast um, að það sé hægt á 6 árum. Og hvers vegna þá að setja endilega svo þröngan stakk fyrir málinu, að það sé tvísýnt, hvort hægt sé að framkvæma það á þeim tíma? Ég geri ekki ráð fyrir því, þó að það komi 8 ár í staðinn fyrir 6 ár, að það verði til að seinka málinu, heldur verði unnið jafnt að því, hvor talan sem sett er, að það verði hægt að haga framkvæmdum í samræmi við lagasetninguna, það tel ég mikinn kost. Ég ætlast ekki til, þó að málið þurfi að fara milli d., að það þurfi að verða til þess að tefja það, og ég hef lýst því yfir, að ég er því hlynntur, að fullkominn bílvegur verði gerður hina stytztu og beztu leið austur, og vona, að frv. nái þannig fram að ganga. En eins og hv. 1. þm. Árn. tók fram, er ég ófús til þess að fara þá leið, sem frv. gerir ráð fyrir um lántökurnar, og ég mun vinna að því, að það verði reynt að afla fjár til þessarar vegarlagningar á einhvern annan hátt, sem tryggi það, að að málinu verði unnið að sem mestu leyti án þess að taka til þess lánsfé og án þess að það þurfi að tefja framkvæmdir, sem sagt, að lánsheimildin verði því aðeins notuð, að aðrar leiðir til fjáröflunar reynist ófærar.

Það var enginn að ráðast á Krýsuvíkurveginn, en það lá í mínum orðum, að ég vildi óska eftir því, að áður en mörgum árum væri varið til þessarar vegarlagningar, þá væri reynt að tryggja flutninga milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur.