07.12.1945
Sameinað þing: 13. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

16. mál, fjárlög 1946

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Við fjárlfrv. á ég brtt., sem er ekki búið að prenta og liggur þess vegna ekki hér fyrir. Ég er með tvær þeirra einn og með öðrum með þá þriðju. En úr því að hæstv. forseti óskar eftir, að ég tali fyrir brtt. nú þegar, sé ég ekkert á móti því. Það eru tveir smávegir, sem ég er einn með brtt. um. Önnur þeirra brtt. er um svo kallaðan Brekknaheiðarveg, sem er sá 65. í röðinni á brtt. hv. fjvn. í 42. lið, a. Þar í brtt. n. er lagt til, að til þess vegar verði varið 60 þús. kr. En það hefur undanfarið verið lagt til hans 100 þús. kr. Þetta er alveg sams konar vegur — til þess að tengja saman landsfjórðunga — og Þorskafjarðarheiðarvegur og Siglufjarðarskarðsvegur, sem fjvn. leggur til, að lagðar verði fram 450 þús. kr. til, sem á að tengja saman landshluta og kaupstað, því að Brekknaheiðarvegur á að tengja saman Austur- og Norðurland. Var byrjað á því að leggja 100 þús. kr. í þennan veg. Í fyrra var unnið fyrir 140 þús. kr. í þessum vegi. Og hefði ég viljað vonast til þess, að hv. fjvn. sæi sér fært að láta vinna fyrir þá fjárupphæð í þessum vegi eins og verið hefur, eða 100 þús. kr., þó að ekki sé unnið fyrir meira, í þrjú ár eða þangað til honum verður lokið. — Ég skal geta þess, enda veit hv. fjvn. það, að sá fyrsti vegur, eða a. m. k. einn af þeim fáu vegum, sem vegamálastjóri lagði til, að fengi viðbótarframlag, ef framlag til vega yrði hækkað frá upprunalegu till., það var einmitt þessi vegur. Og þess vegna fer fjvn. beint á móti a. m. k. varatill. vegamálastjóra með því að láta þennan veg ekki fá hærra framlag en þetta, sem hv. fjvn. gerir ráð fyrir í till. sínum. — Þó að ég flytji þessa brtt. nú, þá vil ég gjarnan taka hana aftur til 3. umr. í þeirri von, að hv. fjvn. athugi þetta með hliðsjón af till. vegamálastjóra, þannig að ef hv. fjvn. sér sér fært að leggja til, að meira fé verði varið til vega en í frv. upprunalega er lagt til, þá taki n. tillit til þess, að þessi vegur er fyrsti vegurinn, sem vegamálastjóri lagði til, að hækkuð yrði fjárveiting til.

Þá geri ég till. um það, sem er önnur brtt., sem ég flyt einn, að inn komi nýr liður á eftir 67. lið 42. brtt., undir a-lið í brtt. fjvn. á þskj. 308, sem er Jökulsárhlíðarvegur, sem mun annaðhvort hafa fallið úr í prentun hjá fjvn. eða bara gleymzt. Því að mér var kunnugt um, að það var vilji fjvn. að taka þetta upp, og legg ég til, að 5 þús. kr. verði veittar til þessa vegar. Þar hagar svo til, að Jökulsárhlíðarvegur er kominn út í miðjan hrepp. Og vegamálastjóri lagði til, að unnið væri í þessum vegi í sumar, til þess að koma honum niður á sléttan árbakka. Það var unnið í þessum vegi í fyrra fyrir 10 þús. kr. umfram fjárveitingu, og til að endurgreiða það ætlar fjvn. fé. En nú er enn eftir að malbera vegarspotta frá fullgerða veginum og niður á bakkann, og mun það kosta um 5 eða 6 þús. kr. En þangað til það er gert, er ekkert gagn að veginum, sem kominn er, en þegar búið er að malbera þennan spotta, má fara eftir árbökkum út á sveitarenda, upp undir 30 km. frá þeim stað, þar sem vegurinn endar nú. Það má því segja, að með því að malbera vegarspotta fyrir 5–6 þús. kr. fáist slarkfær 30 km. vegur. Það nær því ekki nokkurri átt annað en veita 5 þús. krónur til þess að ljúka við veginn. Ég veit, að þetta er vegna gleymsku eða mistaka hjá fjvn. Ég tek þessa brtt. til baka til 3. umr. og vona að hv. fjvn. leiðrétti þessi mistök.

3. brtt. mína flyt ég með öðrum þm. og fjallar um framlag til þriggja brúa. Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur vegamálastjóri lagt til, að byggðar yrðu ákveðnar brýr, ef fjvn. sæi sér fært að byggja fleiri brýr en hann taldi upp í aðaltill. sinni. Vildi vegamálastjóri láta bæta 3 brúm við, á Staðará í Steingrímsfirði, Djúpá í Fljótshverfi og Jökulsá í Fljótsdal. Fjárframlög voru áætluð 120 þús., 180 þús. og 250 þús. krónur. Með flutningi þessara brtt. erum við bara að fara inn á línu vegamálastjóra í þessu máli og leggjum til, að þessum brúm skuli bætt við, ef Alþ. sér sér fært að veita meira fé til brúargerða en farið var fram á í fjárlagafrv. Nú er búið að hækka fjárl. það mikið, að auðséð er, að Alþ. telur sér þetta kleift. Og tel ég þá, að þessar brýr eigi að koma næst. Um þessa brtt. sé ég ekki ástæðu til að segja fleira nú við þessa umr., enda mun verða talað fyrir henni af fleirum.

En fyrst ég fór að tala fyrir brtt. mínum og er staðinn upp, þá vil ég um leið segja það, sem ég að vísu hef sagt oft áður, að ég kann afar illa við það, sem fjvn. gerir og alltaf er að færast í vöxt á Alþ. Það er að fela upphæðir í fjárl. Þetta er gert við gistihúsastyrki, ferjustyrki, læknisvitjanastyrki og margt fleira. Ég hef talað um það hér í hæstv. Alþ., að þessu þyrfti að snúa við, og ég kom með till. um það í fyrra. En það mátti ekki heyrast nefnt, það var allt drepið. Það var ætlazt til þess í fyrra, að styrkur skyldi veittur til að gera við kláfferjurnar á Jökulsá á Jökuldal. Ef ég man rétt, voru það 4500 kr. En upphæðin var falin í stærri upphæð, sem hét „til ferjuhalds,“ og vegamálastjóri átti að tilkynna, hvernig hún skyldi skiptast, ekki að vilja Alþ., heldur fjvn. En hvað skeður svo? Það veit bara enginn um þetta, engum sagt frá því. Hreppsn. fékk ekki eitt orð að vita um það, að gera ætti við ferjurnar. Og svo vill það til, að maður dettur út úr einni ferjunni og var guðs mildi að hann skyldi bjargast. Og þá er farið áð tala um í blöðunum, að ferjan sé í slæmu ástandi. En það vissi enginn, að fé hefði verið veitt til að gera við þær. Slysið varð þó til þess, að ferjustyrkurinn var dreginn upp úr skúffu. Þetta hefst upp úr pukrinu, þegar enginn má sjá, hver á að hafa þessa smástyrki. Þetta á svo að vera gert til þess að spara eitthvað við prentun á gögnum þingsins. Það er þá líka svo mikill sparnaðarandinn! En ég kann ekki við þetta, og ég vona, að hv. fjvn. athugi, hvort ekki ætti að færa þetta í lag og láta sjálf fjárlögin sýna, til hvers fjárveitingarnar eru ætlaðar.

Í fyrra var samþ. till. um, að læknisvitjanastyrkur skyldi aðeins veittur til þeirra hreppa, sem hefðu stofnað læknisvitjanasjóði. Ég vil mjög ákveðið biðja hv. fjvn. að athuga þetta mál. Ég viðurkenni það, að læknisvitjanasjóðir eiga og þurfa að koma víðar en nú er, og til þess var þetta ákvæði samþ. hér í fyrra. En það hagar bara sums staðar þannig til, að ekki er hægt að stofna læknisvitjanasjóð, t. d. þar, sem allstór kaupstaður og lítill hreppur eru læknishéruð. Hver heldur, að slíkt læknishérað færi að stofna læknisvitjanasjóð? Ég hef hér í huga ákveðið svæði, þar sem er Seyðisfjarðarkaupstaður og Loðmundarfjarðarhreppur. Fólkið í Loðmundarfjarðarhreppi verður að sækja lækni á báti eða yfir fjallgarð, og kostar það mikið. Þessi hreppur hafði 200 kr. í læknisvitjanastyrk á ári, eða um ¼ kostnaðar, ef leitað var læknis. Nú getur enginn fengið styrk nema að stofna læknisvitjanasjóð. En haldið þið, að Seyðisfjarðarkaupstaður fari að stofna sjóð með þessum hreppi? Það er útilokað. Ef þetta skilyrði stendur áfram, hindrar það, að slíkir hreppar geti fengið styrk, þótt þeir þurfi þess með. Ég vona, að hv. fjvn. taki þetta til athugunar.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna það, að mér hrýs hugur við því, eins og ástandið er nú, þá skuli í fjárl. vera veitt jafnmikið og raun ber vitni um til alls konar opinberra bygginga, svo sem skólahúsa, sjúkrahúsa o. s. frv. Maður getur búizt við, að meiri hlutinn eða jafnvel mikill meiri hluti af því byggingarefni, sem flyzt til landsins, fari í þær byggingar á sama tíma sem maður horfir hvarvetna á vöntun á íbúðarhúsum handa fólkinu til að búa í. Þótt ég játi, að mikið sé varið í og sjálfsagt sé að byggja stórt og veglegt hús yfir þjóðminjasafn okkar, skóla o. s. frv., þá finnst mér, að ennþá meiri þörf sé á því, að krakkarnir geti komizt inn heima á nóttunni, en ekki einungis þá stund, sem þeir eru í skólanum. Og fornminjasafn okkar er þó undir þaki, en ekki úti á götunni, eins og heita má, að ýmsir borgarar landsins séu. — Þetta var aðeins almenn athugasemd, sem ég vildi leggja áherzlu á og biðja hæstv. stjórn og fjvn. að athuga. Mér finnst meðan fólk í landinu vantar húsnæði til að geta lifað hinu daglega lífi, þá eigi hið opinbera ekki að taka byggingarefni til að byggja hús, sem að vísu eru öll þörf, en kalla áreiðanlega ekki eins að og hitt að sjá fólkinu fyrir húsnæði.