26.04.1946
Efri deild: 114. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 2039 í B-deild Alþingistíðinda. (2866)

104. mál, atvinna við siglingar

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason) :

Ég hef ekki neinar aths. að gera við ræðu hv. þm. Barð., form. sjútvn., hann skýrði alveg rétt frá afstöðu n. En ég vil taka það fram fyrir mína hönd og meiri hl. sjútvn., að þó að brtt. sú, sem kveður svo á, að ríkisstj. sé heimilt að veita undanþágu, verði felld, þá er það engan veginn svo að skilja, að við lítum ekki þannig á, að ríkisstj. standi alveg í sama rétti með undanþáguveitingar eins og hingað til. Því að forsendurnar fyrir því, að þessar brtt. voru ekki fluttar fyrr, eru þær, eins og hv. þm. Barð. tók fram, að meiri hl. n. vildi ekki setja málið í hættu vegna breyt.

Eftir því sem hv. þm. Barð. segir frá, dregur Vigfús Einarsson skrifstofustjóri það mjög í efa, að l. verði framkvæmanleg eins og frv. liggur nú fyrir, en ég dreg í efa, að það álit skrifstofustjórans sé rétt. Ég skal að vísu játa, að sumar gr. frv. eru þannig, að þær geta vel orkað tvímælis. En það, sem fyrir mér er aðalatriðið — og ég tel ekki neinn vafa um, að er hægt að framkvæma eftir frv., þó að brtt. verði felldar niður, — það er réttindahækkun fyrir vélstjóra á mótorskipum úr 150 hö. í 250 hö., og það hefur verið fyrir mér alla tíð aðalatriðið í þessu máli, og upphaflega var málið flutt vegna þeirra breyt. Ég tek því undir það með hv. þm. Barð., að mér dettur ekki í hug að hafa málþóf um þetta mál, enda hefur verið hin bezta samvinna í n. um málið, þó að ágreiningur væri um niðurstöðu.