08.12.1945
Sameinað þing: 14. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

16. mál, fjárlög 1946

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Á fundi í morgun mælti ég örfá orð fyrir brtt., sem ég flyt hér, og af því tilefni hefur formaður fjvn. fundið ástæðu til að víkja orðum til mín, sem ég get ekki látið ómótmælt. Hann hélt því fram, að búið hefði verið að lofa sér vegaframkvæmdum á s.l. sumri í Barðastrandarsýslu, en ég hefði komið í spilið og fengið stj. til þess að verja stórri fúlgu umfram heimild til Snæfellsnessýslu, og jafnframt hefði ég stolið frá honum jarðýtu, til þess að nota við vegaframkvæmdir í Snæfellsnessýslu. Ég skal viðurkenna, að þetta er skemmtileg lygasaga, sem þm. er nú búinn að fá upplýsingar um. En sá galli er á, að þetta er eintómur heilaspuni frá upphafi. Ég hef ekki. haft hugmynd um, að þær fjárveitingar, sem greiddar voru umfram heimild til Snæfellsnessýslu, — eða þessi jarðýta, — hafi haft nokkur áhrif á vegagerð í Barðastrandarsýslu. Ef þm. á sökótt við einhvern, er það við hæstv. samgmrh. eða vegamálastjóra. Um mörg ár hefur verið lögð á það mikil áherzla að fá lokið þessum vegi á Kerlingarskarði. Þótti sýnt, að ef jarðýta fengist á þennan veg í sumar, þá yrði verkinu lokið, þó með því að vinna fram yfir af praktískum ástæðum, og ég býst við, að vegamálastjóri hafi verið sammála um þetta. Ég hef lagt mikla áherzlu á að fá þessari vegagerð lokið sem allra fyrst.

Ég hygg, að hv. þm. Barð. hafi verið talinn mjög duglegur og ófeiminn fyrir sitt kjördæmi, og ég vil þakka honum fyrir það traust, sem hér kemur fram á mér í jarðýtumálinu. að ég sé enn þá duglegri en jafnvel hann gat grunað fyrir mitt kjördæmi. Það er því enginn fótur fyrir þessari sögu. — Úr því að hv. þm. kom inn á þetta, verð ég að minnast frekar á þetta atriði. Svo er mál með vexti, að það eru nokkrar sýslur á landinu, þar sem unnið hefur verið nokkuð fram yfir fjárveitingu á þessu ári, og hefur n. tekið upp sérstakan lið í þessu skyni og farið þannig með það, að síðan á að draga sem þessu svarar frá vegafjárveitingunni á næsta ári. Ég skal viðurkenna, að í mörgum tilfellum er rétt að taka tillit til þess af praktískum ástæðum, því að þarna er um stór verkfæri að ræða, sem mundi þykja slæmt að flytja þangað aftur á næsta ári. Það er því ekki nema rétt að taka tillit til þess við úthlutun til sumra kjördæma. En ég veit, að þau kjördæmi verða illa úti á næsta ári í vegamálum, og eins og nú er skipað málum, hljóta flest þessi kjördæmi að verða mjög illa úti, sökum fjármála- og atvinnuörðugleika. Þessu beindi ég til n., en fékk þau svör, að n. mundi ekki breyta afstöðu sinni. Og þá verð ég að benda á það, hvernig n. hefur farið með þessa úthlutun. Það er að vísu örðugleikum bundið að úthluta réttlátlega og mætti manni sýnast það liggja næst að fara sem næst till. vegamálastjóra. En það hefur n. ekki gert, heldur vikið frá því í ýmsu og breytt til stórlegrar hækkunar, langmest í Barðastrandarsýslu. Skal viðurkennt, að mjög er örðugt um samgöngur þar, en ég fæ ekki skilið, að á sama tíma og tekið er framlag til 4 vega í þeirri sýslu, eru teknir út tveir vegir í Snæfellsnessýslu, sem höfðu haft fjárveitingu á síðasta ári. Niðurstaðan verður líka sú hjá hv. þm., að til akvega í hans sýslu þarf hvorki meira né minna en tvöfalda upphæðina frá árinu 1945. Ég vil benda á, hvernig n. hefur leyft sér að hækka till. vegamálastjóra, og ég verð að taka það fram, að mér virðist úthlutun fjvn. bera vott um talsverða ónákvæmni, svo að ekki sé meira sagt, og vildi ég segja það eitt að lokum, að ef hún telur sig til þess kosna að krækja sér í fé fyrir sín kjördæmi, þá hefur form. n. unnið vel sitt hlutverk. En ef hún telur sig kosna til þess að framkvæma þessa úthlutun réttlátlega, er full þörf á að taka niðurstöður hennar til rækilegrar athugunar.