11.12.1945
Sameinað þing: 16. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

16. mál, fjárlög 1946

Einar Olgeirsson:

Hv. 2. þm. S.-M. var að vegsama stjórn sína árin fyrir stríðið fyrir, að þá hefði verið lagður grundvöllurinn að velmegun stríðsáranna. Við skulum athuga, hvernig sá grundvöllur var. Framsókn skapaði atvinnuleysi, þá voru þúsundir atvinnuleysingja. Hvað sagði Framsókn við þá? Farið þið upp í sveit og ráðið ykkur þar matvinnunga. Á þeim tíma héldu bændur áfram að flosna upp og flytja til Rvíkur. Einhverjir reyndu að bæta ástandið með því að flytja skip inn. Framsókn bannaði það og sektaði þá fyrir að flytja skip inn. Og þegar við sósíalistar bárum fram till. um, að ríkið styrkti útgerðarmenn til að kaupa stóra báta, hvað gerði Framsókn þá? Þeir kolfelldu till. Þannig var snúizt við málum útgerðarinnar, höfuðatvinnuvegar landsmanna.

En atvinnuleysið var ekki það eina. Þá var líka lagður grundvöllur að húsnæðisleysi, í fyrsta lagi með því að hindra innflutning á byggingarefni og í öðru lagi með því að loka veðdeild Landsbankans. Hv. þm. V.-Húnv. skrifaði þá í Tímann og krafðist þess, að bændur hindruðu vöxt Rvíkur. m. a. með því að hindra innflutning á byggingarefni og að menn fengju fé til að byggja. Byggingarverkamenn gengu atvinnulausir, og enginn fékk fé eða efni til að byggja yfir sig. Þetta gerði blessuð Framsókn, sem hv. 2. þm. S.-M. var að hæla. Þannig var sá grundvöllur, sem Framsókn lagði að velmeguninni.

Svo kemur annað atriði. Hann var að hæla sér af þátttökunni í ríkisstj. 1942–1944. Einn maður úr miðstjórn flokksins var þá landbrh., utanrrh. o. fl. Framsókn fylgdi þá dyggilega hverju kaupmannafrv. og þvingunarl., sem sú stj. bar fram. Framsókn hafði þá alveg sama úrræðaleysið og það, sem einkenndi þá stj. En svo þegar stj., er búin að sitja í eitt ár, þá reyndi hann að hlaupa frá ábyrgð á þeirri stj. Og svo þegar hann fer að ræða það, sem hefur verið gert, þá segir hann, að framfarirnar hafi átt sér stað þrátt fyrir stj. Hann segir, að togararnir hafi verið keyptir af því, að Vilhjálmur Þór hafi rekið menn til að drífa í þessu, og sama hafi verið að segja um vélbátana, og síldarverksmiðjurnar byggðu sig víst líka sjálfar fyrir norðan. Mér finnst það vera hlægilegt, sem stjórnarandstaðan finnur sér til, þegar hún leggst svo lágt að koma með annað eins og þetta.

Og svo fer hann að tala um öngþveitið, þetta hræðilega öngþveiti, sem nú blasi við, og nú sé stöðvun yfirvofandi. Það er nú ekki nýtt, að stöðvun sé yfirvofandi. Það var talað um það í fyrra, að verðlækkun væri yfirvofandi, það var jafnvel verið að tala um það meðan samninganefndin var úti í Bretlandi. En það er ekki hægt að hugga þessa menn með, að hin margþráða verðlækkun sé komin eða sé að koma, því að það síldarlýsi verður borgað 12% hærra nú en í fyrra og full ástæða til að ætla, að það fáist hærra verð en þetta. Ég býst því ekki við, að þessar vonir Framsóknar rætist frekar en hrakspárnar í fyrra.

Þá talaði hann um hinar ægilegu skuldaaukningar útgerðarmanna, þeir væru bundnir á skuldaklafa. Hvað er það, sem hér er verið að gera? Það er verið að kaupa þau stórvirkustu atvinnutæki, sem hingað hafa verið keypt, og til þess á að verja 150–200 millj. kr. á tveimur árum. Hv. þm. ætlast kannske til þess, að nokkur bæjarfélög og útgerðarmenn snari út öllum þessum peningum? Hverjir eru það, sem eiga eiga þessi tæki samkvæmt þessum hugsunarhætti? Eru það bara nokkrir auðugustu mennirnir, sem eiga að sitja uppi með þau? Auðvitað eru það þeir, sem helzt geta keypt án þess að hleypa sér í skuldir. Er þá ekki nær að fara þá leið að gera mönnum kleift að fá þannig löguð lán með lágum vöxtum, að þeir geti lagt í svona hluti? Hver yrði afleiðingin af pólitík hv. 2. þm. S.-M., ef ekki á að gera öðrum kleift að eignast togara en þeim, sem geta snarað út andvirði þeirra? Eiga allir landsmenn að bjargast við trillur eða árabáta? Hvers konar fjármálapólitík er þetta? Og þetta er maður, sem hefur verið fjármála- og viðskiptamálaráðherra í 8 ár, og samt sér hann ekki, að þetta er ekki heilbrigður hugsunarháttur fyrir þjóðina.

Hv. þm. hefur víst fundizt hv. þm. Str. ganga of langt í gær, því að hann sagði, að ekki væri fyrir dyrum nein árás á laun verkamanna. Nei, komið þið til mín, ég er ekki að ráðast á ykkur. En það sýndi sig samt í gær, að í Framsókn er gerðardómur eina úrræðið. Nei, það þýðir ekkert fyrir hv. þm. S. M. að reyna að bæta nú í kvöld fyrir skyssur, sem hv. þm. Str. gerði í gærkvöld.

Hann segir, að stjórn Landsbankans sé kosin lýðræðislega. Þar er ég honum ekki alveg sammála, því að eins og kosningafyrirkomulagið er, tekur það sex ár að breyta landsbankanefndinni allri og 4 ár að breyta bankaráðinu eftir á. Lýðræðisleg breyting kemur því ekki á ráðið fyrr en eftir 10 ár, og það kalla ég ekki lýðræði, hvorki austrænt né vestrænt, sérstaklega ekki íslenzkt. Framsókn hefur tvisvar sinnum breytt 1. bankans til þess að tryggja sér völdin þar, tryggja sér hann sem vígi. Framsfl. hefur aldrei horft í að breyta l. bankans til að koma sínu fram. Hann hefur ekki skirrzt við að breyta l. til þess að koma fjmrh. út úr bankastj., og síðan hann breytti l. síðast, hefur þessum l. ekki verið breytt. Þess vegna hefur bankinn verið sjálfstæð stofnun, svo að vald hans er eins mikið og stj. Ríkisstj. getur sett bankastjórana frá, en ekki bankaráðið. Það er spegilmynd af lýðræðinu, þegar Jónas Guðmundsson, sem er kosinn fyrir 4 eða 6 árum, kýs nú bankastjóra þvert á móti vilja flokksins. Ég álít, að þessu eigi að breyta, til þess að það geti verið í samræmi við lýðræðið, svo að það geti ekki verið tvær stj. samtímis, ein ábyrg stj., sem fólkið fylkir sér um, og svo bankastj. með sjálfskipað umboðsvald. Það geta ekki tvær stj. ráðið í einu, önnur djarfhuga, en hin bölsýn og afturhaldssöm. Þjóðin vill hafa sína sterku stj., sem hefur bjargað henni frá glötun, þá stefnu, sem fólkið fylkir sér um. Framsókn hefur verið sérréttindastétt í landinu og hefur reynt að tryggja sér þau sérréttindi m. a. með því að hafa völdin í Landsbankanum. En nú hefur þjóðin sameinazt um stórt átak, sameinazt um að byggja upp atvinnuvegina að nýju á fáum árum. Það átak er svo stórt, að það þolir samanburð við hvaða átak sem er hjá öðrum þjóðum, og það er mikil gæfa fyrir þjóðina að eiga þá menn, sem hafa tekið að sér að mynda ríkisstj. og stjórna þessum miklu framförum. Þjóðin fær ekki fullþakkað þeim mönnum, sem skipa ríkisstj. og stjórna nýsköpuninni, sem á að tryggja afkomu þjóðarinnar, atvinnusjálfstæði hennar í framtíðinni. Og það eru sjómenn og verkamenn, sem fyrst og fremst hafa staðið á bak við ríkisstj. og unnið að nýsköpuninni öðrum fremur. Það er því eðlilegt, að þessar stéttir fái að ráða í Landsbankanum til jafns við aðra. Framsókn verður að skilja það, að hún er ekki sjálfkjörin til að ráða þar einu og öllu og halda áfram sérréttindum sínum.

Þjóðin hefur nú heyrt til Framsóknar í eldhúsinu og árásir hennar á þá athafnasömu stj., sem nú fer með völdin. En þjóðin lætur ekki blekkjast. Hún veit, hvers virði allt þetta mikla starf er, og hún mun einhuga standa saman um hæstv. ríkisstj., sem mun bera mál hennar fram til sigurs.