18.12.1945
Sameinað þing: 19. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

16. mál, fjárlög 1946

Páll Hermannsson:

Herra forseti. Ég er meðflm. að þrem brtt., sem hafa verið prentaðar, og auk þess að einni skriflegri brtt., sem forseti hefur þegar lýst. Ég mun ekki ræða verulega nema eina þessara till., sem ég er 1. flm. að. Þó vil ég minnast á brtt. XI á þskj. 362, sem ég er meðflm. að. Þar er farið fram á fjárframlög til þriggja brúa. Ég held, að ég hafi svo oft lýst þörfinni á brú á Jökulsá í Fljótsdal, að það þýði ekkert að rifja það upp hér einu sinni enn. Ég veit, að það stafar ekki af ókunnugleik, að fé hefur ekki verið veitt til brúargerðarinnar, heldur stafar það af því, að hv. alþm. hefur ekki fundizt, að röðin væri komin að þessari brú. En mér virðist röðin vera sannarlega komin, þó að um það megi deila, því að þörfin er víða. Jafnvel þótt ég geri varla ráð fyrir, að fjárveiting þessi verði samþ., þótti mér rétt að taka þátt í flutningi þessarar till. til að halda enn málinu vakandi. Finnst mér eðlilegt, að slík framlög til mannvirkja eigi erfitt uppdráttar nema að hafa fyrst verið samþ. í fjvn.

Ég er enn fremur meðflm. að brtt. XXXIV. á þskj. 362, en 1. flm. hefur nú þegar mælt fyrir henni betur en ég gæti gert. Vona ég, að sú till. nái samþykki. Mér hefur skilizt svo, að Sigurjón Ólafsson myndhöggvari mundi eiga skilið, að hæstv. Alþ. sýndi honum sóma.

En það, sem veldur því sérstaklega, að ég kvaddi mér hljóðs, er brtt. XXII á þskj. 366, er hljóðar svo: „að greiða úr ríkissjóði halla þann, er verða kann á rekstri húsmæðraskólanna árið 1945.“ Ég býst ekki við, að þetta verði ákaflega stór útgjaldaliður, en vil samt gera grein fyrir því, hvers vegna till. þessi er fram komin.

Húsmæðraskólarnir styðjast við l. frá 1938, en í þeim er lagður sæmilega traustur grundvöllur að starfsemi þeirra, eftir því sem þá átti við. Ég ætla, að eftir þeim fjárframlögum, sem skólarnir nutu þá, hafi vel verið séð fyrir fjárhag þeirra skóla, sem skuldlausir voru. Að vísu hafa þeir þurft eitthvert framlag að heiman, en ekki mikið. Nú er svo tekið fram í l. skólanna, að þeim er bannað að leggja gjöld á skólanemendur sína. Fjárframlög, sem l. þessi ætla húsmæðraskólunum, eru sem hér greinir: Á sérhvern nemanda í skóla, sem telur 15 nemendur eða færri, ber ríkissjóði að greiða 450 kr., en á hvern nemanda, sem er umfram 15, 400 kr. Þetta gerir í stofngjald til 30 nemenda skóla kr. 12750,00. Síðan verðbólgan kom, hefur verið greidd vísitöluviðbót, og mér reiknast svo til, að samkv. meðalvísitölu í ár sé framlag til 30 kvenna skóla um 36000 kr. Enn fremur ber ríkinu að greiða sérstök gjöld vegna námskeiða. Eins og ég hef þegar tekið fram, var með l. 1938 allvel séð fyrir rekstrarfé handa skólum þessum. Nú er hið lögboðna gjald algerlega ófullnægjandi, og þrátt fyrir það að ríkissj. taki á sig hækkun, sem stafar af setningu launalaganna. Orsök þess, að gjaldið er nú ófullnægjandi, er sú, að verðhækkunin nemur yfirleitt meiru en vísitöluhækkunin. Með vísitöluhækkuninni fást nú kr. 2.85 í staðinn fyrir kr. 1.00 1938, en munurinn verður miklu meiri, er út í sjálft lífið kemur og farið er að kaupa fyrir peningana.

Ég er sérstaklega vel kunnugur einum húsmæðraskóla, sem sé á Hallormsstað. Ég skal játa, að rekstrarhalli þar hefur ekki verið ógurlegur, en hann eykst samfara hækkun dýrtíðarinnar. Allt, sem snertir viðhald og umbætur skólans, hefur hækkað mjög verulega. T. d. var rekstrarhalli á Hallormsstað árið 1944 4000 kr., en árið 1945 verður rekstrarhallinn miklu meiri. Þetta er líka auðskilið, því að ríkið leggur fram 36000 kr., en á því ári var varið til viðhalds hátt á 14. þús. kr. og var þó ekki nóg. Það sama ár voru lagðar 10000 kr. til upphitunar og ljósa. Hreinar tekjur frá ríkinu voru það ár 40000 kr., og er þar meðtalið fé, sem lagt var til námskeiða. Aðrar tekjur úr héraði námu þá á seytjánda þús. kr. Ég verð að telja, að hér sé ekki nema um tvær leiðir að velja. Önnur leiðin er sú, að skólarnir haldi áfram að starfa og stórauka skuldir, en hin leiðin er sú að fara bónarveg til ríkisstj. Við flm. höfum tekið þá leiðina að leita til hæstv. Alþ.

Ég geri ráð fyrir, að húsmæðraskólarnir séu nú á vegamótum. Nú liggja fyrir Alþ. frv. um ýmiss konar skólahald, þar á meðal húsmæðraskóla. Ég veit ekki, hversu frv. þessum miðar, en ef þau verða að l., er lagður á ný grundvöllur að starfsemi húsmæðraskólanna, enda er grundvöllurinn frá 1938 orðinn algerlega úreltur. Eins er hitt, að búið er að gera till. um það að bera blak af þessum skólum að því er snertir launahækkunina vegna launalaganna. En hins vegar á það eftir að sýna sig, hvernig þær ráðstafanir koma út, þegar að því kemur að gera þetta upp. Ég verð því að telja, og við flm., að það, sem bráðast liggi á nú, sé að gera skólum þessum kleift að gera reikninga sína upp fyrir yfirstandandi ár, en síðar muni af þinginu á annan hátt séð fyrir framtíðinni þeim viðkomandi, en ef það verði ekki, þá verði leitað til hæstv. Alþ. á ný. Ég er ekki í vafa um það, að nægilegur vilji er fyrir því á hæstv. Alþ., að húsmæðraskólarnir starfi áfram. Það er nægilega viðurkennt af hv. þm. flestum eða kannske öllum, að e. t. v. fátt af skólastarfsemi í landinu muni vera gagnlegra en einmitt sú skólastarfsemi, sem undirbýr væntanlegar húsmæður undir sitt húsmóður- og móðurstarf. Þess vegna tel ég víst, að þegar vakin er eftirtekt hæstv. Alþ. á því, að þessir skólar þurfa á aðstoð að halda, þá muni hún verða látin í té. Ég get ekki gizkað á, hve þetta mundi þurfa að vera í stórum stíl. Ég veit fyrst og fremst um hag og ástæður eins skólans, en ég veit fyrir víst, að það hlýtur að vera líkt ástatt fyrir þeim öllum. Þessir skólar eru 6 eða 7 í sveitum. Og þótt ég viti ekki nákvæmlega, hvað framlag þetta þyrfti að vera mikið til skólanna, þá veit ég samt, að það er rétt að samþ. þessa heimild, þó ekki væri til annars en að fyrirbyggja, að ríkisstj. þyrfti að hjálpa skólum þessum í heimildarleysi. Því að ég veit, að þegar að því kemur, að skólar þessir geti ekki starfað án aðstoðar, verður þeim hjálpað, til þess að þeir geti starfað áfram. Það lætur engin ríkisstj. loka húsmæðraskólunum. Mér þætti trúlegt, að útgjöld eftir þessari heimild gætu numið 50 þús. kr. eða kannske nálægt 100 þús. kr. En mér skilst, þó að heimild um þetta verði samþ., þá verði ekki látið samkv. henni annað en það, sem endilega þarf, til þess að skólarnir geti starfað áfram. Og þá virðist ekki vera neitt óvarlega stefnt með því að samþ. þessa heimild. Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þessa brtt. Ég vildi gera þess grein á hæstv. Alþ., hvernig á henni stendur, og ég vildi gera tilraun til þess að gera hæstv. Alþ. grein fyrir því, hvers vegna það er svo, að skólar þessir þurfa á meira fé að halda en þeir eiga rétt á samkv. gildandi l., og stafar það af því, að fjárframlög til þeirra eru lögbundin, en útgjöld þeirra aukast miklu hraðar en vísitöluhækkunin bætir við hinar lögbundnu tekjur skólanna.