24.04.1946
Sameinað þing: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í D-deild Alþingistíðinda. (4158)

238. mál, togarakaup bæjar- og hreppsfélaga

Frsm. 2. minni hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef gert minnihlutaálit í þessu máli. Í tilefni af niðurlagi gr. á þskj. 960 frá meiri hl. fjvn., þá mótmæli ég fullyrðingum hv. þm. V.–Húnv., að verð togaranna sé svo hátt. Þetta er sagt út í bláinn af mönnum, sem hafa ekki meira vit á togarakaupum en köttur. Ég mótmæli því, að verðið sé hærra en eðlilegt er.

Ég sný mér beint að málinu og bendi á, að heppilegt sé að gera breyt. á tillgr. eins og sést á þskj. 972. Í fyrsta lagi er lagt til, að 1. málsgr. tillgr. orðist svo: „Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að ábyrgjast lán, sem bæjar- og hreppsfélög kynnu að taka til kaupa á togurum þeim, sem ríkisstjórnin er nú að láta smíða í Bretlandi, ef þau með því óska að koma á hjá sér togaraútgerð.“ Síðan kemur, að ábyrgðin sé bundin eftirfarandi skilyrðum :

„1. að viðkomandi bæjar- eða hreppsfélag þarfnist fjárhagsstuðnings að dómi ríkisstjórnarinnar fram yfir þau lán, sem stofnlánadeildin veitir út á 1. veðrétt í skipunum;

2. að lánsupphæðin fari eigi yfir 10% af kostnaðarverði skipanna, enda sé lánið einnig tryggt með 2. veðrétti í skipunum og uppfærslurétti á eftir stofnlánadeildarláninu;

3. að lánskjörin séu hagkvæm að dómi ríkisstjórnarinnar;

4. að staðurinn sé hentugur fyrir togaraútgerð að dómi ríkisstjórnarinnar;

5. að viðkomandi skip verði gert út af bæjar- eða hreppssjóði, félögum eða einstaklingum, sem njóta gagnábyrgðar bæjar- eða hreppsfélaga;

6. að ríkisstjórninni sé heimilt að setja eftirlit með útgerðinni.“

Ég tel það ekki rétt né viturlegt að ábyrgjast 85% vegna togaraútgerðar á óheppilegum stöðum, og því hefur mér þótt rétt að bæta hér einnig inn í ákvæði um, að skip njóti líkra hlunninda, hvort sem gert er út af einstaklingum eða félögum. Ég sé ekki heldur neitt á móti því, að ríkisstj. hafi eftirlit með útgerðinni; er lánað er 85% af kaupverði. Þetta hefur verið gert gagnvart hafnargerðum og raforkuverum. Því er tekið fram, að stj. sé hagkvæmt að taka lán og henni sé heimilað að lána samkv. tölul. minnihlutaálits á þskj. 972. Ég tel, að með þessum breyt. sé betur séð fyrir hagsmunum ríkissjóðs í þessu máli.

Ég vil loks benda á, að hvorki í þessari till. né aðaltill. kemur fram um lán til skipa, sem seld eru til Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar. Ég sé ekki ástæðu til annars en að hafa aðstöðu til sama réttar í Rvík og Hafnarfirði, en setja mætti skilyrði í þá átt, að önnur hreppsfélög gengju fyrir.