07.03.1946
Efri deild: 79. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

5. mál, verðlagning landbúnaðarafurða o.fl. (heildarlög)

Frsm. 2. minni hl. (Páll Hermannsson) :

Ég ætla að byrja á því að svara spurningu, sem hv. 3. landsk. beindi til mín. Hann sagði : „Heldur þm., að bændur hefðu getað selt allt sitt kjöt innanlands, ef ekki hefði verið greidd uppbót úr ríkissjóði?“ — Ég skal svara þessari spurningu. Ég geri ráð fyrir, að nákvæmlega jafnmikið hefði selzt. Ég ætla, að neytendur hefðu ekki tapað á að kaupa kjötið fullu verði. Hv. 3. landsk. tók í sama streng og landbrh., að ríkisvaldið ætti að hafa hönd í bagga með verðlaginu, meðan niðurgreiðslan væri í höndum ríkissjóðs. Ég sé ekki, að það sé neinn sérstakur greiði við bændur.

Mér þótti vænt um, að hv. 3. landsk. viðurkenndi, að ráðh. hefði verðlagningarvaldið í sínum höndum. Hv. 3. landsk. vildi fetta fingur út í það orðalag mitt, að bændum væri með þessu settur fjárhaldsmaður. Ég verð nú að segja það, að ég hef oft heyrt ógætilegar að orði komizt. Ég vil segja það, að verðlagsvald yfir vöru bænda er vald, sem ræður yfir fjárráðum þeirra að miklu leyti. Þetta frv. leggur verðlagsvaldið í hendur ráðh. Ég hef lýst yfir því, að ég get ekki fallizt á, að ríkisvaldið ráði yfir verðlagningu á vörum bænda, vegna þess að ég álít, að það sé ekki greiði við bændur eða gert fyrir þá. Mér er kunnugt um, hvernig háttað er verðlagningunni, og ég verð að telja, að bændur með samtökum sínum gætu haft meira með þetta að gera og haft meiri áhrif. Mætti hugsa sér að koma á 5 manna nefnd, þar sem 2 væru valdir af hálfu bænda, 2 af hálfu neytenda og svo 1 stjórnskipaður. Ef þá 2 og 2 greinir á, þá sker úr fulltrúi ríkisstj. Reyndin hefur nú verið sú, að í slíkum nefndum hafa menn komið sér saman og ekki hafi þurft að halda á úrskurði þess eina stjórnskipaða.

Hæstv. ráðh. sagði, að aðrar stéttir þjóðfélagsins mundu fagna því, ef þeim væri veittur sami réttur, og ef þeir byggju við sömu kjör og bændur á þessu sviði. Nú, eftir því sem hv. 3. landsk. sagði, þá er sá réttur í því fólginn, að ráðh. ræður yfir fjárhag bænda. Ég tel það vafasamt, að aðrar stéttir kærðu sig um slíkt, að pólitískur ráðh. réði kjörum þeirra. — Hv. þm. Barð. hélt því fram, að nál. mitt væri fáránlegt, og las hann það upp hér, en hann fann víst aldrei þetta fáránlega. Hann hélt því fram, að einn flokkur hér á Alþingi ynni hatursfullt starf til niðurrifs á öllum sviðum þjóðfélagsins. Ég get skilið, að það sé erfitt hlutskipti fyrir þennan þm. að vera með og vinna með svona mönnum. Og enn erfiðara hlýtur það að vera fyrir hv. þm., ef það eru einmitt þessir menn, sem hann vill hafa samvinnu við um að leysa mikilvægt starf í þágu þjóðfélagsins, en ég treysti mér til að gera, ef óskað er eftir.