27.11.1945
Efri deild: 38. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (5077)

102. mál, iðnskóli í sveitum

Flm. (Herman Jónasson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki þreyta hv. þd. En það eru þó örfá atriði í ræðu hæstv. ráðh., sem ég vil svara, ef hann hefur tíma til að hlusta á. — Það er þá fyrst þetta : Vitanlega er ég ekki að hæla því, að menn fáist við húsabyggingar, sem ekki kunna til þess. Ég benti einmitt á það, að nú er ástandið þannig, að sjálflærðir menn fást við húsabyggingar í sveitum landsins, og þess vegna væri stór bót í því, frá því sem nú er, að fá þennan skóla, sem ég álít, að geti útskrifað nemendur, sem kunni fullkomlega það, sem menn læra hjá meisturum, með því fyrirkomulagi á því námi, sem nú er. Og ég spyr hæstv. ráðh.: Hvernig heldur hann, að t. d. bónda norður í Vatnsdal mundi ganga að byggja undir fagmennskufyrirkomulaginu, ef l., sem tryggja fagmönnum einkarétt til húsbygginga, giltu þar? Fyrst þyrfti sá bóndi trésmið til þess að slá upp fyrir veggjum, síðan sækja fagmann til að steypa, þar næst pípulagningarmann, þar næst fjórða fagmanninn til þess að mála, þar næst fimmta fagmanninn til þess að leggja dúkana á gólfin, þar næst sjötta manninn til þess að leggja rafleiðslur í húsið. Hvernig haldið þið, að bóndi í sveit eins og Vatnsdal gæti byggt upp á þessar spýtur? Enginn, bara enginn. Í kaupstöðum, þar sem hægt er að sækja fagmenn kannske í næstu hús, veldur það oft stórkostlegum töfum að þurfa að sækja svo marga fagmenn til húsabygginganna, vegna þess að það má t. d. ekki hreyfa ofn eða neitt þess háttar án þess að sækja til þess pípulagningarmann. Og það er staðreynd, sem við verðum að horfast í augu við, að það er ekki hægt að byggja í sveitum með þessu fyrirkomulagi. Ef ætti að innleiða fagmennskuna þar alveg eins og hún er í kaupstöðunum, þá verður ekki byggt neitt hús í sveitum landsins með þeim efnum, sem bóndi getur lagt til sem slíkur. Ferðakostnaður fagmanna mundi t. d. verða svo mikill. Þess vegna er það, að skóli eins og þessi, þar sem menn lærðu að reisa hús til fulls, er einasta leiðin til þess, að hægt sé yfirleitt að byggja hús í sveitum og kauptúnum. Það er kannske þörf á að gera meiri kröfur til þessara manna en í frv. er gert ráð fyrir, en það verða að vera sömu menn, sem vinna allt verkið á hverjum stað. Með öðru móti verður ekki hægt að byggja á þessum stöðum. Og þetta veit ég, að hæstv. ráðh. skilur manna bezt (Samgmrh.: Þetta skil ég ekki). Ef þeir, sem búa í sveit, sæktu smiði með bifreiðum langa vegu, þá yrði það of dýrt fyrir þá að nota marga fagmenn við byggingu sinna húsa upp á það að borga þeim fullt kaup m. a. á meðan þeir eru á leiðinni. Og ég vil segja, að hæstv. ráðh. þekkir þá lítið, hvað það kostar að byggja í sveit, ef hann ekki fellst á mál mitt um þetta og það er ekki hægt að koma honum í skilning um það. Nú er þetta þannig, að þegar einn fagmaður fer héðan út í sveit eða kauptún til að vinna að byggingum, þá er honum leyfilegt að vinna við verkið það, sem hann treystir sér til, vegna þess að iðnlöggjöfin nær ekki út yfir þessi svæði.

Viðvíkjandi sænsku skólunum hef ég þær upplýsingar mínar frá því, þegar skóli í Svíþjóð var settur á laggirnar. Þá var deila um það milli iðnmeistara og forráðamanna þess skóla að gera þann skóla að fagskóla. Þessi skóli í Svíþjóð var tveggja ára skóli. Og þeir, sem numið höfðu á þessum forskóla, voru á fagskóla útskrifaðir eftir stuttan tíma við nám þar og viðurkenndir sem fagmenn. Það var sótt eftir að fá þennan skóla í Svíþjóð viðurkenndan sem fagskóla. En það var ekki samþykkt, af því að það þótti ekki fært að leggja út í deilur við fagmenn um það mál.

Ég lasta ekki sérfræði í þessum efnum, en bendi aðeins á þessar reglur, sem gilda fyrir kaupstaði í fagmennsku, og ég fullyrði það, að þær geta ekki gilt fyrir sveitir og smærri kauptún, nema með því, að það stöðvi framkvæmdir í byggingum þar meira eða minna. Ég hæli því ekki, að illa sé byggt. En á því á að ráða bót með þessu frv., að það verði illa byggt í sveitum og kauptúnum landsins. — En í þessu sambandi ætla ég líka að minna á það, að námið er ekki alls kostar miðað við stærð húsanna. En það veit hæstv. ráðh., að um hús eins og verið er að byggja hér nálægt Austurstræti er það vandasamt atriði að reikna út burðarmagn húsanna, þar sem um svo stór hús er að ræða. Og það er ekki vandalaus útreikningur á því að ganga frá undirstöðu húsa. (Samgmrh.: Það gerir enginn smiður). Og þó að stærð húsanna sé ekki alls kostar mælikvarði í þessum efnum, þá er ekki óeðlilegt, að mörkin séu einhvers staðar sett viðkomandi stærðinni á húsunum, og því má breyta í frv., ef rétt þykir vera.

Ég ætla að lokum að segja þetta: Ég er alls ekki að lasta fagmennsku, heldur ber ég fulla virðingu fyrir sérþekkingu og hef aldrei verið letjandi þess, að menn stundi sem bezt nám í þeirri grein, sem eir ætla að stunda atvinnu í að námi loknu. Og ég þykist hafa átt svolítinn þátt, sérstaklega sem ráðh., í að stuðla að því, því að ég legg ákaflega mikið upp úr sérþekkingu þessara manna. En þegar talað er um fúsk í byggingum í sveit, sem á verulega að bæta úr, þá segi ég þetta: Ég hef komið í þrjú ný hús í kaupstað í rigningum, þar sem lekið hefur inn um annan hvern glugga, — fagmennskan er ekki komin lengra en þetta í kaupstöðunum. Í fjórða húsið, byggt í kaupstað af fagmanni, kom ég nýlega, og það lekur. Og þegar átti að fara að leggja pakketið í fína salnum í barnaskólanum ekki alls fyrir löngu, þá kom í ljós, að hann var hornskakkur, það kom fram á pakketinu. Þetta nefni ég til að minnast á dæmi, sem borið hafa fyrir síðustu dagana. Það eru vissulega mistök á byggingum líka í sveitum, og þess vegna er það einmitt, sem þarf að fá svona skóla. Hann er eina lausnin á þessu máli, af þeim ástæðum, að með þeim reglum, sem nú gilda í kaupstöðunum um byggingar viðkomandi fagmennsku, þannig að hver fagmaður má ekki koma nálægt öðru en sínu eina verki, verður aldrei hægt að byggja í sveitunum. —- Þetta frv., sem hæstv. ráðh. ætlar að bera fram, er sjálfsagt til bóta og rýmkun á þeirri iðnlöggjöf, sem í gildi er. Og við skulum halda okkur við að láta hana gilda þar, sem hún hefur gilt hingað til, í kaupstöðunum. Þeir, sem í sveitunum vilja fá fagmenn úr kaupstöðum, geta gert það. En til þess að byggingar verði framkvæmanlegar í sveitum, þurfa að geta og mega vinna þar menn að þeim, sem geta unnið öll verkin, sami maðurinn, til þess að þær framkvæmdir verði framkvæmanlegar.