02.03.1946
Sameinað þing: 30. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í D-deild Alþingistíðinda. (5280)

185. mál, útsvör

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ég er ekki eins sannfærður um það og þeir hv. þm., sem hér hafa nú talað um þetta mál, að það sé svo brýn nauðsyn víðtækra breyt. á útsvarsl., þeim sem nú gilda, að ástæða sé til að skipa sérstaka mþn. til þess að taka þetta mál til athugunar. Þessi löggjöf hefur að nafninu til gilt síðan 1926. Þá lét þáv. ríkisstj. framkvæma mjög gagngerða endurskoðun á útsvarslöggjöfinni, sem þá var komin í hið mesta öngþveiti. Þessi athugun, er leiddi til þeirrar löggjafar, er þá var sett, hefur verið ein sú allra bezta, sem víð höfum búið við á því tímabili, sem liðið er síðan. Að vísu fóru fram nokkrar breyt. á útsvarsl. 1936, sem voru ekki mjög fyrirferðarmiklar eða víðtækar, og þá voru þær breyt. felldar inn í meginmál l., þannig að þau voru þá prentuð í einu lagi. Nú virðast mér þær breyt., sem fram hafa komið í hv. Ed. og valdið hafa svo miklum erfiðleikum, að því er virðist, að sú n., sem málið hefur haft til meðferðar, hefur gefizt upp við að taka ákvörðun um það, eins og hv. þm. Barð. lýsti yfir áðan, — engan veginn vera svo erfiðar viðfangs, að ekki sé fullkomlega hægt fyrir hv. Alþ. að ganga frá þessu máli, því að þetta er aðeins um einstök atriði í vissum kafla l., og eins og hv. þm. Barð. lýsti hér, að dómar hafa fallið, sem samrýmast ekki vel anda þessarar löggjafar.

Hv. 2. þm. N.-M. (PZ) minntist hér á það, að ýmsir menn væru hér á landinu, sem hefðu ekkert fast heimilisfang. Það er hins vegar allt önnur löggjöf, sem fjallar um þessi efni, því að allir þegnar þessa lands eiga að hafa fast heimilisfang, og væri því ástæða til að taka þá löggjöf til nýrrar athugunar, svo að betri skipan kæmist á þessi mál. Það er vitanlega einn meginþátturinn í uppbyggingu okkar þjóðfélags, að því sé fylgt fast eftir, að allir þegnar þess eigi fast lögheimili, því að ella geta þeir í skjóli þess skotið sér undan skyldum gagnvart þjóðfélaginu, sem öllum er skylt að rækja. En það er vitanlega ekki vettvangur útsvarslöggjafarinnar að fjalla um slíkt, heldur er sérstök löggjöf um þessi atriði.

Ég vildi aðeins láta þessa skoðun mína koma hér fram við fyrri hluta umr. þessarar þáltill., því að mér finnst útsvarslöggjöfin hafa reynzt vel, þótt ef til vill séu einstök atriði hennar, eins og það, sem hér liggur fyrir, — sem þyrfti að endurskoða, og ætti það ekki að vera ofviða fyrir Alþ. að gera þá breyt.