28.03.1946
Sameinað þing: 35. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í D-deild Alþingistíðinda. (5316)

208. mál, björgunarskúta Vestfjarða

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta mál á þessu stigi. Efni till. er það, að Alþ. ályktar að heimila ríkisstj. að láta byggja eða kaupa á þessu ári hentugt björgunar- og eftirlitsskip, er annist björgunar- og eftirlitsstörf fyrir Vestfjörðum. Ríkissjóður skal leggja fram nauðsynlegt fé, en Slysavarnafélagsdeildirnar á Vestfjörðum leggja fram a. m. k. 200 þús. kr. á móti framlagi ríkissjóðs.

Þetta mál hefur hlotið langan undirbúning. Heima á Vestfjörðum hefur verið ritað og rætt um það um 20 ára skeið, en það er sökum þess, að rík nauðsyn er, að slíkt skip sé til. Undirbúningurinn hefur einkum verið í því fólginn að safna fé.

Hin mörgu sjávarpláss á Vesturlandi, sem eiga meginþorra ungra manna á sjónum, vita nauðsyn þess, að eftirlit sé haft með flotanum. Þegar að því var komið, að hafizt yrði handa um útvegun skipsins, varð samkomulag um, að ríkið og slysavarnasveitirnar þar vestra keyptu skipið í félagi, en ríkið annaðist síðan rekstur þess. Var samningur þess efnis undirritaður 1. ág. síðastliðið sumar, og skyldi ríkissjóður þá þegar hefjast handa um útvegun skipsins. Nokkru síðar voru keypt 3 skip frá Englandi, sem nota átti til landhelgisgæslu og björgunarstarfa. Var áformað, að Vestfirðingar fengju eitt þessara skipa, en nú hafa þessi skip reynzt ónothæf, og er því tími til kominn að taka þetta mál upp, þar sem áður var frá horfið.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta mál eða nauðsyn þess, að Vestfirðingar fái slíkt skip hið fyrsta. En ég vil vænta þess fastlega, að till. þessi verði nú samþ. og bygging björgunarskútunnar hafin þegar í sumar.