27.04.1946
Sameinað þing: 42. fundur, 64. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í D-deild Alþingistíðinda. (5326)

208. mál, björgunarskúta Vestfjarða

Frsm. meiri hl. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 707 ber með sér, var fjvn. ekki á einu máli um afgreiðslu þessarar þáltill. Meiri hl., 6 nm., leggja til, að hún verði samþ., en einn nm., hv. þm. Barð., greiddi atkv. gegn henni, og tveir þm., hv. þm. Borgf. og 9. landsk., greiddu ekki atkv.

Ég hef í raun og veru ekki neitt sérstakt að segja fyrir hönd þeirra nm., sem leggja til, að þáltill. verði samþ. eins og hún liggur fyrir. Um málið var allmikið rætt í n., og þeir, sem fylgja þessari þáltill., eru þeirrar skoðunar, að mikil þörf sé á því, að þessi skúta fyrir Vestfirði verði byggð.

Það er nú svo, að gæzlustarf hér við land er nú orðið þannig, að það þarf ekki síður að gæta íslenzkra veiðiskipa en að verja landhelgi, og á ríkið nú sama sem 3 skip til þeirra starfa, þó að eitt sé að nafninu til leiguskip, sem er Sæbjörg. Einu skipinu er ætlað að gæta Faxaflóa, öðru að vera við Vestmannaeyjar og hinu þriðja er ætlað að vera við Austfirði til þess að gæta fiskiskipanna íslenzku. Þessi skip eru fyrir öllu Norðurlandi um síldveiðitímann. Aftur hafa gæzluskip við Vestfirði gengið misjafnlega, því að skipin hafa líka verið höfð til flutninga, og samrýmist það illa að hafa sama skipið við flutning og gæzlustörf, því að yfir vertíðina verða þessi skip í raun og veru að fylgja bátunum á fiskimiðin, annars er gæzla þeirra ekki örugg. Ef skipin væru fjögur, mundi það strax verða viðráðanlegra að gæta fiskiflotans íslenzka, ef skipin gætu þannig skipt landinu á milli sín.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en meiri hl. n. leggur til, að þáltill. verði samþ. eins og hún liggur fyrir.