05.03.1947
Efri deild: 85. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

67. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson) :

Herra forseti. Í frv. þessu er lagt til, að gerðar verði breyt. á ákvæðum þingskapa. Allshn. hefur athugað frv., og leggur hún einróma til, að það verði samþ. með lítils háttar breyt.

Eins og kunnugt er, eru gildandi fyrirmæli um fsp. að finna í 31. gr. þingskapa. Þau ákvæði eru dálítið stirð og þung í framkvæmd, og má segja, að þau hafi reynzt þannig, að fsp. hafi ekki komið að slíkum notum sem tök hefðu verið á, ef fyrirmælin hefðu verið meira sniðin við hæfi. — Í þessu frv. er lagt til, að ef alþm. telja sig þurfa að fá upplýsingar hjá ríkisstj. um eitt eða annað, geti þeir borið fram um það fsp., en þeim eigi ekki að fylgja nein grg. Skrifstofa Alþingis á að safna þessum fsp. saman og láta prenta þær, og viku eftir að fyrirspurnarlistanum hefur verið útbýtt, á að taka þær fyrir. Er gert ráð fyrir, að ráðh. geti þá gefizt tækifæri til að svara þeim, eftir því sem þeir sjá ástæðu til. N. lítur svo á, að óheppilegt sé að láta ráðh. hér í sjálfsvald sett, hvort hann svarar eða ekki, og leggur því til þá breyt., að ráðh. sé lögð sú skylda á herðar að svara fsp. Má og vera, að sumar fsp. séu með þeim hætti, að erfitt sé að svara þeim og jafnvel, að hann geti það ekki af ýmsum ástæðum eða megi ekki gefa fullnægjandi upplýsingar um það, sem um er spurt, þegar fsp. er á dagskrá. En það yrðu að teljast fullnægjandi svör við fsp., ef ráðh. gæfi upplýsingar, sem leiddu slíkt í ljós.

Það er álit n., að það sé til mikilla bóta að gera þessa breyt. á þingsköpum. Fyrirspurnarformið er oft sú einasta leið, sem þm. hafa til þess að fá upplýsingar um mál, sem þeir telja sig verða að fá upplýsingar um. Þeir eiga oft ekki annan aðgang að þeirri stjórnardeild, sem með viðkomandi mál fer, og er þá líka rétt, að slík mál séu rædd í þinginu og gefnar um þau opinberar upplýsingar.

Þetta form, sem lagt er til, að tekið verði upp, er tekið eftir enskri fyrirmynd, sem hefur yfirleitt gefizt vel.

Það kom fram ábending um það, þegar þetta mál var til athugunar í allshn., að svo bezt kæmi þessi breyt. á l. að gagni fyrir þá, sem vildu bera fram fsp. til ráðh. utan dagskrár, að þær yrðu prentaðar og birtar ásamt umr., sem fram færu um þær, hið allra fyrsta, þannig að menn þyrftu ekki að bíða jafnlengi eftir þeirri birtingu og menn þurfa nú að bíða eftir birtingu Alþingistíðinda. Var það athugað í n., hvort ástæða væri til að taka upp ákvæði um þetta í sjálfa breytinguna, en eftir að hafa borið mig saman við skrifstofustjóra Alþingis um þetta mál, komst ég að raun um, að forsetar Alþ. hefðu það í hendi sinni að gefa út sérstaka deild Alþingistíðinda, þ. e. E-deild þeirra, þar sem birtar væru fsp. og umr. um þær. Gætu forsetarnir, ef þeir vildu, hraðað þeirri prentun meir en prentun annarra deilda Alþingistíðinda, og veit ég, að ég mæli þar fyrir munn flestra eða allra hv. þm., þegar ég beini þeim tilmælum til hæstv. forseta — og að hann komi þeim tilmælum til hinna forsetanna —, að ef þessi lagabreyt. verður samþ., vinni þeir að því, þegar til framkvæmdanna kæmi, að fsp. og umr. um þær verði prentaðar sem allra fyrst og útbýtt sem þskj. meðal þm., meðan þing stendur yfir.

Að lokum vil ég leyfa mér að ítreka þá ósk allshn., að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem ég hef þegar gert grein fyrir.