31.01.1947
Neðri deild: 64. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

147. mál, vegalög

Gísli Sveinsson:

Herra forseti. Það er ekki svo, að ég telji, að neinu sé við að bæta þá ýtarlegu framsögu hv. frsm. samgmn., þm. N-Ísf., því að að efni til tel ég að ekki þurfi meira um þetta mál að ræða á þessu stigi þess af hálfu n. Enda er nú svo, að hv. þm., hverjum um sig, sem hér eiga hlut að máli, eru þessir hnútar næsta kunnir.

En það eru nokkur formsatriði, sem ég að gefnu tilefni vil segja fáein orð um. Má segja, að sumt af því skipti ekki miklu máli. — Á bls. 26 í þessu þskj., á fskj. frá vegamálastjóra, hefur fallið úr ein sýsla, Austur-Skaftafellssýsla, þannig að þar er ekki þess vegar getið, sem sú sýsla hefur fengið upp tekinn, sem er Hofsvegur. En þetta tilheyrir skjalapartinum og verður leiðrétt. Eftir bendingum frá einum hv. þm., sem ég tel réttmætar, hygg ég betur við eigandi, að 2. gr. byrji ekki svo snubbótt sem hér er fram sett, heldur álít ég rétt, að bætt verði þarna framan við orðunum: Þjóðvegir eru þessir: — og komi síðan upptalningin, sem er í 2. gr. frv. Það var svo í öndverðu um vegal., að þessi formúla var við byrjun þessarar upptalningar, og er rétt, að hún haldist, þó að hún hafi fallið niður um hríð. Einnig hefur komið fram aths. um annað atriði, sem er mjög athugandi, að óskað hefur verið eftir, að reynt verði að sjá svo um, að öll staðanöfn verði prentuð sem réttust í vegal., að kostur er, í þessu frv. í 2. gr. viðkomandi heiti veganna og þeirra staðanafna, sem þar koma til. Það hefur orðið vart lítilsháttar villu í þessu efni, þannig að ekki er nákvæmlega rétt greint staðarheiti í 2. gr. frv., og má vera, að fleiri slíkar villur séu þar, því að nm. í samgmn., enda þótt þeir séu héðan og þaðan af landinu, og þó að vegamálastjóri sé allra manna kunnugastur vegastæðum úti um landið, geta vel haft í einhverju ranga stafsetningu ýmissa heita í þessu sambandi. Hver þm. er eðlilega kunnugastur heima hjá sér, og vil ég þess vegna mælast til þess fyrir hönd samgmn., að hv. þm. hver fyrir sig vildu sýna n. þá tilhliðrunarsemi að koma með leiðréttingar, ef þeir sjá, að ekki séu stafsett rétt staðanöfn í frv., því að það ætti að vera sjálfsagt um alla löggjöf, sem sett er, að reynt sé að hafa öll staðanöfn, sem þar koma fyrir, þau réttustu, sem til eru á hver ju svæði, þótt reyndar geti sum heiti verið vafasöm og hafi tvenns konar stafsetningu, forna og nýja, og er þá erfitt að gera upp á milli. En þessar athuganir, sem hv. þm. mundu vilja gera, þyrftu þá að vera komnar til vitundar n. fyrir 2. umr. málsins, því að þá verður að koma fram með þær leiðréttingar, sem við eiga í þessu efni.

Hins vegar vil ég taka undir það með hv. frsm. samgmn., sem var og skoðun samvinnun. samgöngumála í heild, að samvinnun. samgöngumála hefur óskað þess, að hv. þm. tækju sig nú saman og sættu sig að þessu sinni við þá miklu endurbót, sem þessi l. færa, og við þann velvilja, sem ég tel, að samgmn. deildanna hafi sýnt um jöfnuð í þessu efni, og ekki þá sízt vegamálastjóri. Ég vil taka undir það með hv. frsm., að þeirri ósk er eindregið beint til hv. þm., að þeir beri fram sem minnstar brtt. um þetta, þótt hins vegar fyllilega sé viðurkennt, að þeir gætu í ýmsum tilfellum haft ástæðu til þess, því að það hafa allir fulltrúar, og það hefur enginn hv. þm. fengið allt það tekið upp í þetta frv., sem hann mest hefur óskað, að tekið yrði upp í það. Mun svo verða lengi enn, að ekki verði unnt að uppfylla allar óskir í þessum efnum í einu.