27.11.1946
Efri deild: 21. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1572 í B-deild Alþingistíðinda. (2339)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Frsm. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Frv. þetta var borið hér fram á síðasta aðalþingi af meiri hl. sjútvn., og eins og getið var um í framsögu, var það eftir ósk Stríðstryggingarfélags íslenzkra skipst hafna. Það félag hafði sent n. skriflega beiðni um að flytja frv., þann 28. okt. s. l. Samrit af því bréfi hafði og verið sent félmrn. N. stóð öll að flutningi frv., og á því stigi málsins komu ekki fram neinar till. um að breyta frv. Vegna þeirra andmæla, sem komu hér fram, tók n. málið aftur til athugunar og óskaði hv. þm. Vestm. eftir því, að frv. yrði sent til umsagnar Landssambands íslenzkra útvegsmanna, félmrn. og til Samtryggingar íslenzkra botnvörpuskipaeigenda. Sama dag barst bréf frá ráðuneytinu, þar sem það óskaði eftir því, að n. tæki að sér flutning frv., eins og það lá fyrir. Þótti því ekki ástæða til að senda frv. til umsagnar ráðuneytisins, og hefur hv. þm. Vestm. látið í ljós við n., að hann láti sér nægja þessa beiðni ráðuneytisins um flutning frv. Sjútvn. hefur borizt umsögn Samtryggingar íslenzkra botnvörpuskipaeigenda, en hins vegar hefur n. ekki borizt umsögn frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Hins vegar hefur einn meðlimur úr stjórn landssambandsins tjáð mér, að Alþ. hafi verið sent bréf um þetta mál frá sambandinu, þótt það hafi ekki komið fram enn, þar sem stjórnin sé samþ. frv., þó með nokkrum breyt., sem ég mun koma að síðar. Ég tel ástæðu til þess að ræða nokkuð hér um umsögn þá, sem n. hefur borizt frá Samtryggingu ísl. botnvörpuskipaeigenda um mál þetta, vegna þess að þar koma fram margvíslegar skýringar á málinu. Enn hefur ekki verið gefið út nál. um málið, og hefur því bréfið ekki verið prentað, en frv. verður væntanlega sent hv. sjútvn. Nd., þannig að hún getur þá birt það með væntanlegu nál. sínu, ef henni sýnist svo. Vil ég því, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp bréf samtryggingarinnar, sem er dags. 16. nóv. s. l.:

„Vér höfum móttekið bréf hv. sjútvn., dags. 12. þ. m., ásamt frv. til l. á þskj. nr. 74, um innlenda endurtryggingu, stríðstryggingu skipshafna o. fl.

Með tilvísun til þeirra atriða, er þér æskið sérstaklega upplýsinga um, leyfum vér oss að svara á þessa leið :

1. Vér erum samþykkir frv. í heild, enda þótt kaflar 2 og 3 séu um efni, sem heima ætti í öðrum l. En samkvæmt frv. falla þessi ákvæði niður í árslok 1947, og er eigi ástæða til þess að fara frekar út í þau hér.

2. Vér mundum telja æskilegt að breyta frv. nokkuð, sbr. 3.

3. Frá því að hugmyndina um stofnun íslenzks endurtryggingarfélags bar fyrst á góma, hefur félag vort verið henni eindregið fylgjandi, og eftir að hinn sterki fjárhagsgrundvöllur var lagður með 6 millj. kr., áhættufé hefur oss orðið það æ betur ljóst, að hér hefur verið stigið eitt af stærri sporunum í fjárhagslegum ráðstöfunum, sem eiga eftir að leiða af sér mikið gott fyrir þjóðina í sparnaði og öryggi.

Félagi voru hefur þegar orðið mikið gagn að endurtryggingum Stríðstryggingafélagsins, sem hafa orðið til þess að styrkja aðstöðu vora gagnvart erlendum endurtryggjendum.

Vér teljum oss leyfilegt að segja, að enda þótt hér séu starfandi nokkur vátryggingarfélög á sviði ýmissa trygginga, er bolmagn þeirra hvers um sig harla lítið í því skyni að taka að sér og bera áhættu. Þetta háir oss á tvennan hátt.

Í fyrsta lagi verður að kaupa erlenda endurtryggingu fyrir mestallt tryggingariðgjaldið, og í öðru lagi er áhættutaka hvers félags um sig of smá til þess að marka stefnu í iðgjaldatöxtum.

Úr þessu getur íslenzk endurtrygging bætt að verulegu leyti.

Í fyrsta lagi með því að draga verulega úr kaupum á endurtryggingum erlendis frá og spara þannig greiðslur vátryggingarfélaganna íslenzku, hvers í sínu lagi, og bæta þannig aðstöðu þeirra allra til þess að marka stefnur í iðgjaldatöxtum, því frumtryggjandi og endurtryggjandi á Íslandi verða ávallt teknir sem einn aðili gagnvart erlendum endurtryggjendum í gagnrýni iðgjaldataxta.

En loks getur endurtryggingarfélagið tekið upp viðskipti við tryggingarfélög erlendis víðs vegar í löndum og hagnazt á því að taka að sér endurtryggingar fyrir þau í vaxandi mæli. Er hér um að ræða möguleika til gjaldeyrisöflunar, sem getur orðið allveruleg, er stundir líða fram.

Vér teljum því, að ekki megi á nokkurn hátt rýra áhættufé endurtryggingarfélagsins né aðstöðu þess samkv. frv. til þess að auka sjóði sína.

Á hinn bóginn viljum vér benda á, að mjög er það æskilegt, að félagið komist sem fyrst í víðtæk tryggingaviðskipti við öll vátryggingarfélög, er hér starfa eða kunna síðar að verða stofnuð, og fái verulega hlutdeild í þeim ábyrgðum öllum, sem félögin þurfa að kaupa endurtryggingu fyrir.

Gæti í því sambandi komið til greina sem eðlilegur stuðningur við endurtryggingarfélagið að setja ákvæði í frv., er heimili vátryggingarfélögum, er hefðu fasta samninga við endurtryggingarfélagið, að leggja fram áhættufé (hafi þau eigi gert það), t. d. allt að 100 þús. kr. hvert innlent félag. Þessi ráðstöfun mundi tengja endurtryggingarfélagið fastari viðskiptaböndum við vátryggingarfélögin í landinu og auka þá einnig áhættufé þess.

Að öðru leyti þykir oss eigi ástæða til þess að gera breytingar á frv.

Virðingarfyllst.

Ásgeir Þorsteinsson (sign.).“

Um sama leyti barst n. einnig bréf frá stjórn

Stríðstryggingarfélags íslenzkra skipshafna, þar sem farið var fram á, að sett yrði ný gr. við frv., um þetta sama atriði, þar sem heimilt væri að taka inn nýja aðila, sem greiði ákveðna upphæð.

Þessi mál voru svo öll rædd í n., og kom hún sér saman um að bera fram brtt. þær, sem birtar eru á þskj. 142 og miða í þá átt að verða við beiðni stríðstryggingarfélagsins annars vegar og Samtryggingar ísl. botnvörpuskipaeigenda hins vegar, eins og ég hef nú lesið upp. — Um brtt. á þskj. 142 er enginn ágreiningur innan n. Hins vegar er nokkur ágreiningur í n. um þær brtt. aðrar á þskj. 143 og 144, er ég mun koma síðar að. Ef átt hefði að verða við því að taka inn nýja aðila og gera breyt. um nýja gr., sem komi á eftir 24. gr., þá er óhjákvæmilegt annað en að gera breyt. við 3. gr. frv., eins og það er nú, þannig að á eftir tölulið 3 komi nýr liður, er orðist svo : „Af öðrum tryggingafélögum, sbr. 5. gr.“, eins og lagt er til á þskj. 142, um, að tekinn verði upp sem breyt. á frv., því að nauðsynlegt væri að ákveða það í l., að þetta nýja fé, sem ætlazt er til, að komi inn, verði einnig áhættufé og bundið sömu skilyrðum og annað áhættufé félaganna. Um þetta varð samkomulag í n. Um þetta atriði var einnig leitað umsagnar stríðstryggingarfélagsins, og hefur það tilkynnt, að það væri samþ. þessari breyt.

Önnur breyt. á þskj. 142 er um það, að heimilt sé að taka inn nýja aðila, sem leggi fram 100 þús. kr., ef þeir óski að eiga viðskipti við félagið, þannig að annaðhvort tryggja þeir hjá félaginu minnst einn tíunda hluta af þeim endurtryggingum sínum, sem samrýmast endurtryggingarstarfsemi félagsins, eða greiða félaginu minnst 100 þús. kr. í iðgjöld árlega, og er í þessari sömu gr. sagt, að þetta fé njóti sömu réttinda og beri sömu skyldur og eldra áhættufé, sbr. þó 11. gr. Það er nauðsynlegt að taka þetta fram vegna þess, að ef þessi brtt. verður samþ., þá mælir 10. gr. frv. svo um, sem yrði þá 11. gr., að allt framlagt áhættufé félagsins, hvaðan sem það er runnið, og skírteinin, sem um það verða gefin, séu undanþegin öllum sköttum og gjöldum til ríkis, bæjar- og sveitarfélaga, en hins vegar er ekki ætlazt til þess, að þetta fé njóti þeirra fríðinda, að það verði undanþegið skatti, þótt það sé greitt inn sem áhættufé til endurtryggingarinnar.

3. brtt. er við núverandi 8. gr. frv., sem væntanlega verður 9. gr., og fjallar hún um stjórn félagsins. Það þarf að sjálfsögðu að breyta ákvæðunum um stjórn félagsins eftir að nýir félagar verða teknir inn. Um þetta urðu nokkrar deilur í n., en að lokum náðist fullt samkomulag að orða gr. eins og kemur fram á þskj. 142. Allir aðilar voru sammála um það, að tryggja bæri, að ríkisstj. og Tryggingarstofnun ríkisins hefðu alltaf meiri hl. í stjórn félagsins. Ég sjálfur hefði frekar kosið, að þetta hefði verið þannig, að ríkisstj. hefði tilnefnt tvo menn, Tryggingarstofnun ríkisins einn mann og allir aðrir aðilar tvo, en um þetta varð ekki samkomulag og sérstaklega vegna þess, að eins og nú er ákveðið í l., þá kýs Sjóvátryggingarfélag Íslands h/f og tryggingarstofnunin sameiginlega einn mann. Þessu er þá breytt þannig nú, að Tryggingarstofnun ríkisins, Sjóvátryggingarfélagið og þeir nýir aðilar, sem kunna að koma inn sem tryggingarfélög, velja einn mann sameiginlega, en farist tilnefning af þeirra hálfu fyrir vegna ágreinings hefur ríkisstj. tilnefningarréttinn. Þá er og önnur breyting gerð varðandi stjórn félagsins, sem sé að fimm menn skuli vera til vara og þeir þá skipaðir á sama hátt.

4. brtt. n. er við 10. gr., sem væntanlega verður 11. gr., að á eftir 1. mgr. komi nýr málsliður, er orðist svo: „Þetta ákvæði gildir þó ekki um fé, sem greitt er inn samkv. ákvæðum 5. gr., nema viðkomandi aðilar hafi skattfrelsi samkvæmt öðrum lögum.“ Eins og ég minntist á áðan, er ekki ætlazt til, að hinir nýju aðilar, sem leggi fram fé, njóti sama skattfrelsis og hinir, sem fyrr hafa greitt.

Við 20. gr. frv., sem verður 21. gr., hefur einnig orðið samkomulag um að bera fram brtt., eins og 5. brtt. á þskj. 142 greinir. Brtt. um það atriði, er þar greinir, er sumpart komin frá mér, en sumpart eftir ósk Landssambands íslenzkra útvegsmanna, sem lagði mikla áherzlu á, að hún næði fram að ganga. Þessi brtt. fer fram á það að lækka verulega þau iðgjöld, sem nú eru greidd til þessara trygginga, en þau eru samkv. frv., eins og það er nú, 4 kr. á viku fyrir 5 rúmlesta fiskiskip og stærri, en 2 kr. á viku fyrir smærri fleytur, en það, sem á vantar á fullt iðgjald, greiðir ríkissjóður. Það er upplýst af reikningum landssambandsins fyrir árið 1945, að það hafi haft 900 þús. kr. ágóða, en töluverður hluti af því fé skiptist í endurtryggingarsjóð og bónussjóð. Frá mínu sjónarmiði er ekki hægt að raska þessu. Hins vegar er það líka upplýst, að félagið mun á þessu ári hafa um 700 þús. kr. tekjur, en af því á svo að greiða arð og annan kostnað, svo að gera má ráð fyrir, að 400 þús. krónur verði lagðar í tryggingarsjóð og bónussjóð. Ég vil því, að iðgjöldin verði nú lækkuð niður í kr. 1,50 á viku fyrir stærri fiskiskip og niður í 75 aura fyrir smábáta, en hrökkvi það iðgjald eigi fyrir áhættunni, skal því fé, sem greiða ber í endurtryggingarsjóð og bónussjóð af rekstri ársins 1946, varið til að mæta áhættunni, en annars greiði ríkissjóður það, sem þá vantar á til að mæta áhættunni, og kveður brtt. n. við 20. gr. frv., sem verður 21. gr., svo á. Öllum er kunnugt um það, að útgerðarmenn þurfa nú að berjast í bökkum til þess að hafa nægilegt til síns atvinnurekstrar, og mér finnst því ekki nema sanngjarnt, að ríkissjóður taki á sig þessa áhættu á þessu ári, sem mér finnst nú raunar sáralítil, þegar gert er ráð fyrir því, að endurtryggingarsjóður og bónussjóður verði til að taka á sig fyrstu áhættuna, og eins þegar litið er á það, að á sínum tíma komu allar þessar 6 millj. kr. frá útvegsmönnum, en ríkissjóður hefur aldrei lagt fram einn einasta eyri til þessara mála, þótt hann hafi að vísu tekið á sig áhættu um að ábyrgjast ákveðið fé á sínum tíma, en fékk þá jafnframt 540 þús. kr. greiddar út í reiðu fé fyrir þessa áhættu. ,

6. brtt. n. á þskj. 142 er við 29. gr. frv., sem verður 30 gr., þannig að aftan við gr. bætist: „Þó taka ákvæði 21. gr. ekki gildi fyrr en 1, jan. 1947. Nauðsynlegt er að gera þessa breyt. á frv., ef það fær skjóta afgreiðslu, en verði það hins vegar ekki afgreitt fyrr en eftir áramót, þá þarf kannske að breyta þessu ákvæði eða fella burtu.

Þá er hér brtt. á þskj. 143, við 20. gr. frv., sem væntanlega verður 21. gr., um, að 2. málsliður hennar falli niður. Þessi brtt. er frá mér og hv. þm. Vestm. Um þetta atriði varð ekki samkomulag í n., og vill meiri hl. n. halda þessari gr., eins og kemur fram á þskj. 144, og munu þeir, sem að henni standa, gera grein fyrir því, en ég mun hins vegar ræða nokkuð um þetta, áður en ég lýk máli mínu. 2. málsgr. 20. gr. frv. mælir svo um, að hlunninda samkv. þeirri gr. njóti aðeins skip innan við 80 rúmlestir brúttó, enda hafi þau ekki siglt til útlanda á almanaksárinu. Ég vil, að þau hlunnindi, sem þar um ræðir og ég hef áður á minnzt, nái til allra fiskiskipa, en þannig verður það, ef brtt. á þskj. 143 verður samþ.

Iðgjöldin voru kr. 2,64 á viku og lækka því niður í 1,50 á viku. Ég tel þetta rétt, þar sem nú er engin áhætta á móts við það, sem var fyrir 1946. Hvað snertir útgjöld ríkissjóðs, vil ég benda á, að hann hefur það fé til afnota, sem hann fær í vexti.

Um 20. gr. 2. mgr. er það að segja, að ég legg til, að hún verði felld, og flyt ég ásamt hv. þm. Vestm., Jóhanni Jósefssyni, brtt. um það, en meirihluti n. vill ekki fella hana, en leggur til, að í stað 80 smálestir komi 100 smálestir, og er það vegna nýju bátanna og þá fyrst og fremst Svíþjóðar-bátanna.

Ég vænti þess svo fastlega, að hv. d. samþykki brtt. á þskj. 143, en mun greiða brtt. á þskj. 144. atkv., ef hin brtt. á þskj. 143 verður felld.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta á þessu stigi málsins eða ræða frekar þann ágreining, sem var í n. um þessa grein.