10.03.1947
Neðri deild: 89. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (2351)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Frsm, meiri hl. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Sjútvn. hefur rætt þetta frv. á nokkrum fundum og er sammála um að leggja til, að það verði samþ., og leggur til breyt. á því, sem eru á þskj. nr. 484 og n. er öll sammála um, að undanskyldri brtt. við 14. gr. Þar hafa verið í n. skiptar skoðanir, þannig að hv. þm. Borgf. og hv. þm. Siglf. leggja til, að sú brtt., sem er á þskj. 484 við 14. gr. frv., verði felld, en ákvæði frv. í 14. gr. verði látin halda sér.

Eins og hv. þd. er kunnugt, miðar þetta frv. að því að stofna sérstaka endurtryggingu upp úr stríðsslysatryggingu skipshafna, sem var komið á, á stríðsárunum, og þó þannig, að stríðsslysatryggingar haldi áfram til ársloka 1947. Á stríðsslysatryggingunum sjálfum er sú eina breyt. gerð með frv., að fellt er úr l. ákvæði um, að það sé skylda að kaupa lífeyri fyrir helming af bótafjárhæðinni, enda hafði komið í ljós, að þessi lífeyriskaup fyrir svo lágar upphæðir voru óhagkvæm. Það þykir heppilegra að hafa útborgun á slysabótum heldur en láta gilda það fyrirkomulag, sem var, að hafa þannig lífeyriskaup.

En aðalatriði þessa frv. er sem sagt að ákveða að nota það fé, sem safnazt hefur við stríðsslysatryggingu skipshafna, til þess að stofna innlenda endurtryggingu samkv. nánari ákvæðum í frv.

Ég tel, að þær breyt., sem n. hefur lagt til við frv., muni skýra sig sjálfar. Þær eru mjög óverulegar. Að vísu var n. sammála um það, að sá ágóði, sem hægt væri að borga út samkv. 10. gr. frv., væri of hár, og vill setja hámark þetta í 5%, en ekki 6%, eins og stendur í frv. Þó hefur hv. þm. Siglf. gert aths. við það atriði, og mun hann sjálfsagt gera grein fyrir sinni sérstöðu í því efni.

Það er gert ráð fyrir því í frv., að hægt sé viðkomandi arðútgreiðslu að færa tekjuafgang milli ára, og virðist ekki ástæða til þess að láta hann nema 6% á ári, með tilliti til þess, að t. d. Eimskipafélagi Íslands, sem nýtur skattfrelsis, er ekki leyft að greiða hærri vexti af sínu hlutafé nú en 4% og hefur ekki leyfi til að færa í því efni tekjuafgang á milli ára.

Það, sem aðallega varð ágreiningur um í n., var ákvæðið um skattfrelsi félagsins, sem er í 14. gr. frv. og er ákaflega víðtækt, þar sem svo er til tekið, að félagið sé undanþegið öllum opinberum sköttum og gjöldum, hvort heldur er til ríkis eða bæjarfélags, og enn fremur, að skírteini þess og önnur skjöl séu ekki stimpilskyld. Meiri hl. sjútvn. leit svo á, að þrátt fyrir það að hér væri um að ræða að gera tilraun til þess að draga endurtryggingar inn í landið, þá væri ekki ástæða til að veita félaginu um óákveðinn tíma þessi fríðindi, sem gert er ráð fyrir í frv. í þessu efni, og vildi meiri hl. n. binda skattfrelsið við fyrstu tvö árin. Væri þá á valdi Alþ. að ákveða síðar, hvort það teldi ástæðu til að framlengja þetta skattfrelsi um ákveðinn eða óákveðinn tíma. Meiri hl. n. fannst ekki ástæða til að fara lengra en þetta nú til þess að sjá á þessum tveimur árum, hvernig félaginu gengur að koma undir sig fótum, en Alþ. gæti rýmkað um þessi ákvæði, ef ástæða þætti til. — Minni hl. n. telur rétt að halda ákvæðinu, sem í frv. er, um óákveðið skattfrelsi þessa félags, og gerir hv. þm. Borgf. sjálfsagt grein fyrir sinni skoðun í því máli. — Í raun og veru tel ég ekki, að það sé mjög mikill ágreiningur í n. um þetta mál í heild, því að vissulega getur það ekki talizt verulegur ágreiningur, þó að meiri hl. n. vilji láta binda skattfrelsi félagsins ákveðið við tvö ár, en minni hl. n. vilji láta skattfrelsið vera um ótiltekinn tíma.

Ég tel þess vegna rétt, af því að málið hefur legið lengi hjá sjútvn., að orðlengja ekki frekar um það, því að það er að öllu leyti þægilegast fyrir þá, sem að þessu standa, að málið sé afgr. frá Alþingi sem allra fyrst.