10.03.1947
Neðri deild: 89. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (2355)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Það er alveg út af sérstöku atriði, sem ég kvaddi mér hljóðs, þ. e. ég vildi segja nokkur orð út af þeim ummælum, sem komið hafa fram hér hjá hv. frsm., og fleirum sem talað hafa. Þeir hafa sem sagt borið þessa till. að nokkru saman við skattfrelsi Eimskipafélagsins. Það er ekki rétt að bera þetta tvennt saman, eins og gert hefur verið. Þessir hv. þm. munu ekki hafa munað eftir því, að Eimskipafélagið greiðir til Reykjavíkurbæjar opinber gjöld, og er því ekki algerlega skattfrjálst. Og skattfrelsið — eins og við munum hér flestir — var veitt því félagi með l. fyrst 4. júní 1924, fyrir 22 árum, og þá til 5 ára. Síðan hafa l. um það verið framlengd til tveggja ára í senn. Þegar þau voru framlengd í annað skiptið með l. frá 7. maí 1928, var félaginu gert að skyldu að greiða eigi hærri arð en 4% og jafnframt að úthluta 60 mönnum ókeypis fari milli Íslands og útlanda og til baka aftur. Og um leið voru enn ýmsar kvaðir settar að skilyrði með fullum skilningi og samvinnu, svo sem um auknar viðkomur skipa félagsins á hafnir, sem ekki mundi borga sig fyrir félagið að láta skip sín sigla á. Skattfrelsi Eimskipafélags Íslands er því ekki sambærilegt við það, sem hér hefur verið vitnað til í sambandi við þetta mál, sem fyrir liggur nú til umræðu.

Þá kem ég hér að lokum að því atriði, sem ég verð að taka fram, að hingað til hafa þingflokkarnir verið sammála um það að hafa Eimskipafélag Íslands skattfrjálst til ríkisins, en það greiðir 5% af ágóða sínum til Reykjavíkurbæjar, og hefur það numið síðustu árin allt að 1700 þús. kr. á ári, að ég hygg.

Ég vildi aðeins benda á það, að þetta, sem hér liggur fyrir, er ekki sambærilegt við það skattfrelsi, sem hæstv. Alþ. hefur veitt Eimskipafél. Íslands, því að það félag hefur jafnhliða verið háð ýmsum kvöðum af hendi ríkisins, og hefur ekki siður af félagsins hálfu verið unnið að því í fullri samvinnu við ríkið, að félagið kæmi að sem mestum notum fyrir þjóðarheildina, því að markmið félagsins frá upphafi hefur verið fyrst og fremst það að vinna fyrir alla þegnana og þjóðina í heild.