26.03.1947
Efri deild: 100. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (2371)

48. mál, innlend endurtrygging, stríðsslysatrygging skipshafna o. fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv. er nú endursent frá Nd., og þar hafa verið gerðar á því nokkrar breytingar. Sjútvn. hefur athugað þessar breyt. í morgun, og vil ég leyfa mér að gera nokkra grein fyrir afstöðu hennar til þeirra.

Brtt. við 8. gr. eru allar smávægilegar, og getur n, fallizt á þær. Sömuleiðis er með brtt. á 10. gr., hún er aðeins til samræmingar hinum breyt. og því ekkert við hana að athuga. En svo kemur breyt. á 14. gr., sem n. getur alls ekki sætt sig við. Þessi breyt. er, að félagið sé undanþegið öllum sköttum fyrstu þrjú árin. Það var fyrst talað um tvö ár, en síðan breytt í þrjú og samþ. með eins atkv. meiri hluta, en 9 þm. munu hafa verið fjarverandi. Nefndin vill, að þetta verði haft eins og það var upphaflega í frv., eða að orðin „þrjú ár“ falli burt.

Þetta félag var stofnað af útgerðarmönnum með 10% framlagi þeirra sjálfra, 10% framlagi frá Sjóvátryggingarfélagi Íslands, 10% frá Tryggingastofnun ríkisins og 10% frá Brunabótafélagi Íslands. Nú greiddu þessir síðar nefndu aðilar ekkert fé, en lögðu fram ábyrgð. Félagið stóð sig ávallt vel, og fyrirtækið safnaði fé. Árið 1940 var ákveðið með reglugerð, að af fyrstu 105 þúsundunum áttu tryggingartakar ekkert að fá, þegar félagið yrði leyst upp, en að öðru leyti átti varasjóðurinn að skiptast eftir hlutföllum. Þetta sjónarmið var einnig ríkjandi 1941, því að þá var þetta endurnýjað, en síðar breyttist þetta eftir því, sem féð jókst, og þegar frv. er lagt fyrir 1943, er gert ráð fyrir, að 300 þús. kr. gangi til fyrirtækisins vegna fjárhættunnar, en með því var hlutföllunum raskað.

Nú vildi sjútvn. ekki fallast á þetta, því að með þessu þótti réttur þeirra manna, sem greitt höfðu þetta fé, fyrir borð borinn. Frv. var því breytt þannig, að fé þetta yrði lagt í sérstakan sjóð, hvers verkefni var ákveðið í l. Þar var tekið fram, að öll gjöld í þessu sambandi skyldu vera skattfrjáls, enda hefði ekki náðst samkomulag um þetta á öðrum grundvelli. Þessu félagi er ætlað að hafa það verkefni að endurtryggja fyrir flotann og vera um leið ráðandi um endurtryggingargjöld fyrir öll okkar skip og lækka með því verulega iðgjöld vor erlendis. En verði þetta félag skattskylt, eins og nú er gert ráð fyrir í frv., eins og það kemur frá Nd., þá leiðir það af sér, að iðgjöldin verða að hækka, en um leið hækka þau líka á þeim hluta, sem tryggður er erlendis, og getur því falizt í þessu bein gjaldeyriseyðsla. Ég tel þetta innskot Nd. í frv. því algjörlega óviðunandi og mundi heldur kjósa, að frv. félli alveg en að það yrði samþykkt með þeirri breyt. Ég fjölyrði svo ekki um þetta meir, að þessu sinni.