20.05.1947
Efri deild: 138. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (3029)

151. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram þessa skriflegu brtt. í því trausti, að hún finni náð fyrir augum hv. d. Við fyrri meðferð málsins hér í d. var öll n. sammála um þessa gr., að einum undanskildum, og ýmsar aðrar brtt. Ég er óbreyttrar skoðunar um flestar þær brtt., sem sjútvn. lagði til, en Nd. breytti verulega fyrir atbeina meiri hl. sjútvn. þeirrar d., og verð ég að segja það, að brtt. Nd. eru lítt skiljanlegar, því að ég hygg, að flestar brtt. þessarar d. hafi verið til bóta, en ekki til óþurftar.

Þessi brtt. mín er sérstaks eðlis, en því bar ég ekki fram fleiri, að ég bjóst ekki við, að þær yrðu samþ. Við 2. umr. voru færð sterk rök fyrir þessari brtt. af hv. frsm. n., og skal ég ekki endurtaka þau, en bæta nokkru við. Samkvæmt alþjóðareglum skal greiða öllum, sem verða fyrir því láni að bjarga úr sjávarháska, eftir verðmæti þess, sem bjargað er. Þetta er aldagamalt löggjafaratriði í löggjöf þjóðanna, og hjá okkur er það komið inn með siglingal. 1914, og þau l. gilda enn í dag fyrir okkar skip, ef þau bjarga erlendum skipum eða innlendum, nema þeim, sem tryggð eru hjá samábyrgðinni. Þessi breyt., sem gerð var 1942, snerti aðallega skip, sem ríkið rekur eða leigir, strandferðaskip, varðskip og flóabáta, og gerir þeim skylt að bjarga fyrir lítil björgunarlaun, en beinn kostnaður er greiddur. Þó að þau leggi sig í mikla hættu, fá þau engin björgunarlaun, hversu mikið verðmæti, sem það er, sem þau bjarga. Með þessu ákvæði frá 1942 var breytt ákvæðum frá 1935, sem við ýmsir þm. stóðum að, og voru um önnur skipti á björgunarlaununum en ákveðið var 1914. Það kom fram í rökum frsm., hv. þm. Barð., við 2. umr., að þetta ákvæði hefur verkað neikvætt, og fyrst og fremst neikvætt fyrir samábyrgðina. Ég átti von á grg. um þetta frá forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, Pálma Loftssyni, en hann hefur sína reynslu varðandi sín skip. Þessi skýrsla er ekki komin, en hann segir, að svo mjög sé leitað eftir aðstoð, t. d. hér í Faxaflóa, að einn bátur anni ekki nærri því öllum þeim beiðnum, sem honum berast frá fiskibátum, sem varpa öllum sínum áhyggjum upp á þennan eina bát. Ég hygg, að þótt þessu ákvæði væri breytt í samræmi við siglingal., sé ekki verið að skapa óeðlilegan kostnað, því að það er vitanlegt, að ef ekki gengur saman, þá gengur málið til sjódóms, og er mér kunnugt um það af margra ára reynslu, að í sjódómi eru björgunarlaun yfirleitt reiknuð lágt, svo að ekki er mikil hætta á, að gengið sé á hlut vátryggingarfélaganna, og þegar málið hefur farið til hæstaréttar, hefur hann venjulegast lækkað launin frá því, sem sjódómur ákvað. Ég held því, að ótti form. félagsins sé ástæðulaus.

Aðalrök hv. þm. Barð. fyrir því að samþykkja frv. nú óbreytt, eru þau, að hann óttast, að málið dagi uppi, ef gerðar verði breyt. á frv. nú. Já, ég verð nú að segja um minn ágæta samstarfsmann, að öðru vísi mér áður brá. Honum hefur hingað til ekki klígjað við að gera þær breyt., sem hann hefur talið réttmætar, og ekki talið málin í hættu af þeim sökum. Þetta er því alger undantekning. En ég trúi því ekki, þar sem ég tel, að við höfum hér rétt mál að flytja, að Nd. tefli málinu í hættu af þeim sökum. Ef form. sjútvn. Nd. vill málið áfram, tefur hann það ekki með frekari breyt. Ég vænti því, að hv. d. fallist á þessa brtt. mína og rök þau, sem ég hef fært fram fyrir henni.