17.01.1947
Neðri deild: 55. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1917 í B-deild Alþingistíðinda. (3506)

127. mál, afgreiðslustöðvar fyrir áætlunarbifreiðar

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég vildi aðeins þakka samgmn. fyrir að taka að sér flutning þessa frv. Þetta mál er ekki nýtt að því leyti, að mönnum var orðið ljóst, að hér þurfti úr að bæta. Einhver staður þurfti að vera fyrir hendi handa sérleyfisbifreiðum. En stöðvarnar hafa verið óeðlilega margar og dreifðar um bæinn. Til úrbóta í því efni er því frv. flutt. Víðast hvar erlendis, þar sem áætlunarbifreiðar annast fólksflutninga, eru þær afgreiddar frá einni stöð, og er enn ríkari ástæða til þess hér, þar sem við höfum engar járnbrautir. Það hefur farið fram athugun á, hvernig framkvæmd þessa máls yrði hagað hér í Reykjavík, og skal ég upplýsa, að góð samvinna hefur tekizt milli bæjaryfirvaldanna, skipulagsnefndar og póststjórnarinnar, og mun bæjarstjórn gefa kost á góðri lóð undir stöðina. Sé ég svo ekki ástæðu til að ræða þetta öllu nánar. Aðalatriðið er, að ríkið reisi umrædda stöð og sjái um rekstur hennar. Þörfina fyrir framgangi þessa máls held ég allir sjái og viðurkenni. Endurtek ég svo að lokum þakkir mínar til samgmn.