29.11.1946
Efri deild: 23. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

19. mál, skemmtanaskattur

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Fjhn. hefur athugað þetta mál, og eins og nál. á þskj. 161 ber með sér, þá mælir n. með því, að það verði samþ. óbreytt. Frsm. n., hv. þm. Vestm. (JJós), er hér ekki viðstaddur, og kann að vera, að hann hefði gert frekari grein fyrir málinu, ef hann hefði verið hér, en ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta mörgum orðum. — Frv. er samhljóða l., sem nú gilda, en falla úr gildi um næstu áramót nema þau verði framlengd, og litur fjhn. svo á, að ríkissjóði muni ekki veita af þeim tekjum, sem hér er gert ráð fyrir, einnig á næsta ári. — Annars skal ég segja það frá mínu brjósti, sem ég hef oft sagt hér í hv. d., þegar rætt hefur verið um mál svipuð þessu, sem framlengd hafa verið ár frá ári og eru orðin nokkurn veginn fastur liður í tekjum ríkissjóðs, að mér virðist það hreinn óþarfi að framlengja þess konar l. aðeins um eitt ár í einu, heldur finnst mér, að frekar ætti að ákveða nú, að þennan skatt skuli innheimta, og svo færi með þetta eins og um önnur l., að þau giltu þangað til öðruvísi yrði ákveðið. Ég hef oft áður látið þessa skoðun mína í ljós, en ekkert verið í þetta tekið, hvorki af hæstv. ríkisstj. eða öðrum, og get ég ekki verið að berjast sérstaklega fyrir þessu, en vildi aðeins benda á þetta.