21.02.1947
Neðri deild: 79. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (3795)

17. mál, þingsköp Alþingis

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins með nokkrum orðum gera grein fyrir þeim fyrirvara, sem ég hef um afstöðu til þessa máls.

Ég er hv. flm. að mestu sammála um það, að eins og nú er búið um þessi mál, sé það of þröngt. En ég gat fallizt á það, að málið yrði rannsakað betur, og því skrifa ég undir þetta nál. og get fallizt á þá rökst. dagskrá, sem n. flytur, að „í því trausti, að ríkisstjórnin láti fara fram fyrir næsta Alþingi nákvæma athugun á ákvæðum þingskapa um útvarp, þykir deildinni ekki ástæða til að samþykkja frv. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“ Það er gert í þeirri trú, að þetta mál verði athugað betur og að rýmra verði um flokkana en verið hefur, svo að það verði ekki hindrað, að menn geti látið í ljós skoðun sína í jafnþýðingarmiklu máli og flugvallarsamningurinn var.

Ég er því sammála flm., að rétt sé að breyta þessum ákvæðum, en rétt að athuga það nokkru nánar.