14.04.1947
Neðri deild: 114. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (3883)

49. mál, almannatryggingar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ekki get ég borið lof á hv. heilbr.- og félmn. fyrir till. hennar í sambandi við þetta frv. mitt. N. fékk þetta mál í nóvember s.l. ár. Hún skilaði svo nál. þann 27. marz í ár, en þótt málið hafi legið svona langan tíma hjá n., hefur henni ekki enzt sá tími til þess að átta sig á því. Að vísu kom 1. þm. Rang. auga á nauðsynina á því að breyta l. um almannatryggingar, m.a. þeim ákvæðum, sem þetta frv. mitt fjallar um. Ekki færir n. nein rök fyrir þessu, enda mun það tæplega hægt, því að rökin fyrir því munu vera vandfundin. N. segir, að ekki sé fengin reynsla af l. Ég held ekki, að það þurfi neina reynslu af því, sem er skráð í l. Það þarf enga reynslu til að sjá það, að það eru stórir hópar manna í landinu, sem ekki njóta þeirra hlunninda, sem I. veita öðrum, og þetta fer ekkert eftir því, hvernig efnahagslegar ástæður manna eru, heldur eftir allt öðru. Til þess að njóta fullra hlunninda l. um sjúkrabætur og slysabætur þurfa menn að hafa einhvern húsbónda yfir sér. Ef menn starfa húsbóndalaust, hvort heldur er á sjó eða landi, fá þeir engar skaðabætur, nema þeir hafi keypt þau réttindi fyrir sérstakt, hátt gjald, sem allir aðrir, sem hafa húsbónda yfir sér, eru lausir við að greiða. Það þarf enga reynslu til að sjá þetta. Réttur manna er misjafn, og alveg sama er um gjöldin, sem lögð eru á menn samkvæmt þessum l. Sum af þessum gjöldum eru þannig lögð á, að það er ekki viðunandi. Samkv. 113. gr. verða allir, sem hafa menn í vinnu, að borga sérstakt gjald, sem skal varið til að borga slysa- og sjúkratryggingar. Ég tel fjarstæðu að skattleggja eingöngu þá, sem hafa menn í vinnu, án þess að líta á, hvernig efnahagur þeirra og ástæður eru að öðru leyti. En þó tekur gjaldið samkv. 112. gr. út yfir, því að það er sérstakur refsiskattur fyrir að taka menn í vinnu. Samkv. þeirri gr. verður maður, sem gerir út bát hér á vertíðinni, að borga á tíunda hundrað kr., ef hann hefur 10–12 menn í vinnu, og ef hann gerir út bát á síldveiðar, verður hann að borga á sjöunda hundrað kr. Áhættugjaldið samkv. 113. gr. nemur hærri upphæð. Bóndi, sem hefur heima fjögur börn yfir 16 ára aldur, sem vinna við búið, verður að borga samkv. þessari gr. á 13. hundrað kr. á ári, vegna þess að hann hefur haldið börnunum heima á heimilinu. Þau verða náttúrlega að borga persónugjöld. Þetta er aukaskattur, sem þarf að borga, vegna þess að börnin eru heima, en menn, sem vinna hjá öðrum, eru lausir við þessi aukagjöld. Þeir þurfa aðeins að borga persónugjöldin samkv. 107. gr., en ekki aukaskatt. Það er m.ö.o. svo, að mönnum er refsað samkv. þessum l. fyrir að taka menn í vinnu. Þeir verða að borga drjúga sekt fyrir þetta athæfi, og svo kemst heilbr.- og félmn. að þeirri niðurstöðu, að það vanti reynslu, til þess að það megi hrófla við þessum lagaákvæðum. Það þarf enga reynslu til þess að sjá það, sem hver maður hlýtur að sjá, að réttur manna og einnig skyldur samkv. þessum l. er gífurlega misjafn. Það er lagður drjúgur skattur á vissa hópa manna, skattur, sem aðrir eru lausir við. Það ranglæti, sem samþ. var, var Alþ. til vansæmdar, og Alþ. mun hljóta því meira ámæli sem þetta viðgengst lengur.

Ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. gegn þessari svokölluðu rökst. dagskrá n., og verður fróðlegt að sjá, hvort fleiri líta svo á, að það þurfi frekari reynslu, áður en hróflað verður við þessum l.