03.02.1947
Efri deild: 63. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (3980)

28. mál, iðnfræðsla

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. — Það væri nú að bera í bakkafullan lækinn að ræða frekar einstakar till. málsins, en ég skal geta þess til viðbótar því, sem hv. frsm. n. sagði, að málið var þrautrætt innan n. Sá ágreiningur, sem þar var, kemur bezt fram í brtt., sem fyrir liggja. Hins vegar er ég þakklátur hv. frsm. n., að hann hefur lýst sig málinu fylgjandi, þótt till. hans hljóti ef til vill ekki samþykki hv. d. Hv. 1. þm. N-M. vill hins vegar, eins og hér hefur komið fram, láta málið daga uppi með sinni rökstuddu dagskrá.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þær brtt., sem n. hefur orðið sammála um. Þær hafa verið skýrðar af hv. frsm., og ég held, að það sé rétt hjá honum, að það sé skoðun okkar allra nm., að þær séu til bóta á frv., og ég hef orðið þess var, a.m.k. frá öllum aðilum, sem þetta mál snertir, að þeir telja einnig þessar breyt. vera lagfæringar til bóta. Hins vegar eru þær breyt., sem fram hafa komið og ágreiningur hefur haldizt um innan n., þess eðlis, að það mundi mjög breyta frv., ef þær yrðu samþ. En áður en ég vík að þeim, skal ég fara örfáum orðum um till. á þskj. 350, umfram það, sem hæstv. samgmrh. minntist á þá till. Ég hafði hugsað mér að bera fram líka brtt., þótt ég ræddi það að vísu ekki innan n., en ég hafði gert ráð fyrir, að d. mundi skera úr því, hvernig iðnfræðsluráð yrði skipað. En ef þessi till., sem fram er komin, verður samþ., er þýðingarlaust fyrir mig að koma með brtt., en ef hún hins vegar verður felld, kemur hún til greina, og því taldi ég rétt að láta hana koma fram nú við 2. umr. En það eru sömu rök sem hæstv. samgmrh. benti á, sem ég færi fyrir þessari till. Iðnnemar eru það fjölmennir, að ekki virðist óréttlátt, að þeir hafi þarna fulltrúa til þess að fjalla um þau mál, sem fyrst og fremst snerta iðnnema. Þeir yrðu í minni hluta, en mundu hafa ýmsar réttarkröfur að flytja þarna og gættu hagsmuna umbjóðenda sinna. Og nú er það svo, að þeir hafa fengið samband, sem nær um landið allt, og er því þessi aðili samnefnari fyrir alla iðnnema í landinu. — En úr því að ég er að tala um þessa gr. frv., þá vil ég og geta þess, að ég mundi telja miklu óheppilegra, að Alþ. kjósi slíka n. Það gæti oltið á atvikum, hvernig sú n. yrði skipuð af hæstv. Alþ. Þar mundi koma meira persónulegt reiptog til greina en þarna mundi eiga sér stað, ef um stéttina sjálfa er að ræða. Ég skal geta þess, að ég hef kynnt mér þetta hjá einni nágrannaþjóð okkar, Dönum. Þeir eru miklu eldri um meðferð þessara mála. Þeirra iðn hefur staðið um tugi ára og mjög stór, en sú skipun er þar efnislega nákvæmlega sú sama og hér er stungið upp á, að atvinnurekendur eigi þarna 6 fulltrúa, launþegar 6 og þrettándi maðurinn tilnefndur af viðkomandi ráðh. Ég býst við, að þeir, sem unnu að því að semja þetta frv., hafi m.a. haft í huga þá reynslu, sem fengizt hefur af þessari aðferð, og hafi því tekið hana upp, og má vel vera, að svo sé víðar á Norðurlöndum í þessum efnum. Ég hef ekki kynnt mér það. En ég hef nýlega fengið iðnaðarlöggjöf Danmerkur og kynnt mér einmitt þessi ákvæði. Þessi reynsla bendir einmitt á það, að þessi háttur sé betri en að láta löggjafarsamkomu ráða þar um, enda er það svo á Norðurlöndum, að iðnaðarstéttir og einnig vinnustéttir eiga þar sína fulltrúa. Það er meginkjarninn á Norðurlöndum, þegar vinnustéttirnar eru annars vegar. Ég hygg því, að það mundi verða meiri samvinna innan slíkra mála, ef sá háttur er á hafður, sem frv. gerir ráð fyrir og ótvírætt bendir til, að fullt samkomulag sé um innan þeirrar n., sem stendur að frv., en í henni áttu sæti bæði fulltrúar frá atvinnurekendum og launþegum. — Ég mun því greiða atkv. með þessari gr. frv., eins og hún er, en á móti brtt., sem flutt er á þskj. 312, er breytir sérstaklega fyrirkomulaginu um kosningu í iðnfræðsluráð. Um aðrar till. á þskj. 312 hefur hæstv. ráðh. fært rök fyrir, hvort hann er með þeim eða móti, en ég fyrir mitt leyti er ekki fylgjandi brtt. við 18. gr. Þetta er að vísu ekki stórvægileg breyt., en hún þrengir kost iðnnemanna. Þar eru vinnustundirnar, sem nemandi má ekki vera frá vinnu, færðar upp í 1800 á ári um námstímann, en í frv. er reiknað með 6 mánuðum, sem er miklu lægri tala, og vil ég halda við þá till., sem gefur þeim meiri réttindi en í þessari brtt. felst.

Ég er algerlega á móti 3. brtt. á þskj. 312, sem fjallar um það, að nemanda beri ekki kaup, meðan hann er frá verki vegna vinnustöðvunar. Mér finnst ekki ástæða til að flytja slíka till. og ætla að knýja hana fram hér á Alþ., þar sem atvinnurekendur eru í raun og veru allir sammála um, hvaða háttur skuli á vera í þessum efnum. Þeir eru sammála um að greiða þeim kaup, þegar svo stendur á, gegn því, að þeir megi láta nemana vinna þau verk, sem þeir telja nauðsynleg, þótt þeir taki ekki þátt í framleiðslustörfum á meðan. Iðnnemarnir hafa engan rétt til að ákveða, hvort verkfall skellur á eða ekki, eins og l. eru nú, og er því engin ástæða til að svipta þá kaupi, meðan á slíkri deilu stendur. Hygg ég, að þetta séu einu rökin fyrir því, að nemarnir eigi að vera utan við slíkar deilur og eins og þeir kæmu þar hvergi nærri. — Þá kem ég að b-lið sömu brtt. á þskj. 312, um, að 2. mgr. 22. gr. orðist svo sem þar er fram tekið. Í frv. er setningin orðuð þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Nú stendur vinnudeila svo lengi, að telja má, að nemandi missi verulega í verklegu námi hennar vegna, og getur þá iðnfræðsluráð ákveðið að framlengja námssamninginn um hæfilegan tíma.“ Þarna er það lagt undir iðnfræðsluráð, hvenær samningi skuli slitið af þessum ástæðum, en samkvæmt brtt. er því slegið föstu — að vísu að dómi iðnfræðsluráðs —, að námssamningnum skuli slitið án frekari fyrirvara. Ég tel þetta ekki til bóta og er því mótfallinn þessari brtt.

Um þær brtt., sem hér hafa verið lagðar fram af hv. 1. þm. N–M. (PZ), get ég verið fáorður. Þær ganga feti lengra í sumum atriðum en n. gat orðið sammála um að ganga. — Vil ég fara nokkrum orðum um fyrri brtt. á þskj. 320 við 4. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að skipaður sé sérstakur erindreki, er aðstoði iðnfræðsluráð í störfum þess. Fljótt á litið virðist þessi till. hafa í sér fólginn ávinning, en nú er gert ráð fyrir, að á hinum ýmsu stöðum séu iðnfulltrúar, sem inni þessi störf af höndum, og það hlýtur að liggja í hlutarins eðli, að ef hér er um að ræða erindreka, þá mundi það vera fastur starfsmaður, sem kostar nokkurt fé, en það, sem honum er fært til gildis, er, að hann eigi að samræma þau störf, sem iðnfulltrúar ættu að hafa með höndum. Ég held nú, að þessi samræming gæti átt sér stað, þótt slíkur erindreki væri ekki fyrir hendi, og þar sem ekki er um marga staði hér á landi að ræða, þar sem verulegur iðnaður er rekinn, þá hygg ég, að fyrst um sinn sé fyllilega séð fyrir samræmingu um störf þessara manna með þeirri skipan, sem frv. gerir ráð fyrir, og líklega væri lagt út í óþarflega mikinn kostnað með skipun fasts starfsmanns í þessum efnum.

Hvað síðari brtt. hv. 1. þm. N-M. snertir, þá er það vitað, að hún hefur mætt mikilli andstöðu hjá iðnaðarmannastéttinni, ekki aðeins hjá iðnsveinum, heldur og hjá atvinnurekendum. Telja þeir, að ef sú regla yrði tekin upp, sem till. þessi fjallar um, þ.e. að heimila mönnum með vissum skilyrðum að ganga undir próf í verklegum efnum í ákveðnum iðngreinum, þótt þeir hafi ekki stundað iðnnám hjá ákveðnum meistara eða iðnfyrirtæki, að slíka heimild yrði mjög hægt að misnota. Mætti flytja langt mál um þetta atriði, en ég mun ekki fara fleiri orðum um það. Verður að skera úr um það með atkv., hvort inn á þessa braut eigi að ganga, en augljóst er, að ef till. verður samþykkt, mundi slíkt þýða gerbyltingu á frv. í þessum efnum og torvelda framgang málsins.

Að lokum vil ég segja það, að þess hefur verið getið af hv. frsm. n., að á síðasta þ. hafi verið samkomulag um þetta mál, og má það vel vera. Þá gaf iðnn. þessarar hv. d. út nál., en nú er það svo, að það eru aðrir menn, sem n. skipa, heldur en þá, og það, sem hefur upplýstst í þessum málum á þessu tímabili, gerir það áreiðanlega að verkum, að sumar af þeim till. n., sem þá voru teknar upp og n. gat orðið sammála um, hafa ekki getað náð samþykki n., eins og hún nú er skipuð. Hygg ég, að frv. sé nú borið fram í fullu samráði bæði við atvinnurekendur og launþega í þessum iðngreinum, og munu hv. dm. skera úr um það með atkv. sínu, hvaða leið skuli farin í þessum efnum. Ég vil aðeins undirstrika það, að afgreiðsla málsins má ekki dragast miklu lengur, og verður það að ná samþykki þess þ., sem nú situr. Hafa verið færð sterk rök að því af hálfu þeirra manna, sem við þessi l. eiga að búa, að þessi löggjöf þurfi að komast á til þess að koma á skipan og leiðréttingum í ýmsum framkvæmdum á þessu sviði og til þess að skapa heilbrigt ástand innan stéttarinnar. Þess vegna held ég, að rétt sé að þakka hv. form. n. Honum er ljós þessi nauðsyn, jafnvel þótt brtt. hans verði felldar.