03.02.1947
Efri deild: 63. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (3985)

28. mál, iðnfræðsla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Það var á misskilningi byggt hjá hæstv. ráðh., að mín rökstudda dagskrá væri byggð á því, að þetta frv. væri svo illa undirbúið. Hæstv. ráðh. veit, að árið 1941 var skipuð mþn. í skólamálum, sem átti að samræma alla skóla landsins í eitt kerfi. Hann veit, að þessi frv. hafa verið að smákoma frá n., og m.a. er eitt þeirra nú 2. dagskrármálið hér í hv. deild í dag. Formaður mþn., Ásmundur Guðmundsson, hefur skipað undirnefnd, þá Sigfús Sigurhjartarson og Ingimar Jónsson, til þess að gera tillögur um iðnfræðsluna. Mín dagskrártill. byggðist á því, að rétt væri að bíða, þar til frv. kæmi frá n., þar sem þess er varla langt að bíða, en þeim hefur ekki enn unnizt tími til að ljúka störfum, en munu vera með þá hugmynd að samræma iðnfræðsluna í einn stóran iðnskóla. Og sé ég því enga ástæðu til þess að flýta þessu frv., þar sem iðnnemar hafa nú verkamannskaup víðast hvar og geta sjálfir kostað sig í skóla, og er því aðstaða þeirra alls ekki vond. En ég veit, að það er vilji fyrir því að fella dagskrártill., en breyta l. hér í d., og hef ég því flutt brtt. við frv.

Ég heyrði ekki ræðu hæstv. ráðherra, en ef marka má af reynslunni, hefur hv. 1. landsk. bergmálað það, sem hann sagði. Ég verð að segja það, að ég skil ekki, hvernig þeir finna þeim orðum sínum stað, að próf sé engin trygging fyrir hæfni nemanda. Ja, því þá ekki að fella burtu öll próf? Fyrir liggur líka álit frá Iðnnemasambandi Íslands, þar sem þeir mæla gegn samþ. 2. brtt. minnar, hvers vegna nefna þeir ekki, en líklega er ástæðan sú, að svo erfitt sé að koma prófunum svo fyrir, að þau gefi rétta mynd af leikni nemandans. Mér er ljóst, að þetta er erfitt, og ég hef talað um þetta við meistara, bæði múrarameistara, trésmíðameistara og málarameistara, og töldu þeir allir, að þetta væri hægt, en það væri ekki með því að smíða neitt sveinsstykki. Prófið yrði að standa nokkuð lengi, jafnvel nokkrar vikur, og eftir að ég hafði fengið umsögn þessara manna, sá ég ekki neina ástæðu til að útiloka þá menn, sem eru hæfir til að ganga undir prófið, frá því, enda þekkist það ekki við nokkurn skóla, að menn fái ekki að ganga undir próf, þegar þeir eru hæfir til þess og þeir vilja það, nema við há.skólann. Þar þurfa þeir þó ekki nema að innritast og lesa. Hér eru því ekki til önnur tilfelli, að menn fái ekki að reyna að taka próf án þess að hafa fyrst verið í skóla. Menn geta tekið öll önnur próf, sem vera skal. Þannig þarf auðvitað einnig að vera um þetta próf, og til þess að reyna að búa þannig um, að gegnum þetta próf slyppu ekki aðrir en þeir, sem eru þess verðir, hef ég reynt að setja þær skorður við því, að skussar slyppu í gegn, sem ern í mínum brtt. Það vakti ekki fyrir mér að sleppa gegnum prófið fúskurum, sem útskíta nafn sveina og gætu skaðað þá, sem fengið hafa sveinsbréf, og ég er sannfærður um, að þetta er hægt.

Um fyrri brtt. mína vil ég segja það til viðbótar því, sem ég hef áður sagt, og sem svar til þeirra, sem töluðu á móti, að ég er nú ekki viss um, að þetta þurfi að kosta ríkið neitt verulega meira. Það, sem fyrir mér vakti með iðnerindreka, var það að láta hann skapa festu í framkvæmdum þessara mála. Iðnfræðsluráð er skipað til 4 ára, og eftir önnur 4 ár kemur nýtt ráð, og til þess að fyrirbyggja sífellda breytingu og festuleysi er nauðsynlegt, að til sé fastur maður, sem tengir þetta saman. Ég ætla honum líka að samræma iðnskólana á landinu, en þeir eru nú mjög ólíkir og mikil þörf samræmingar, því að allt annað próf er t.d. hér en í öðrum iðnskólum á landinu. Ég er sannfærður um, að það borgar sig að samþykkja þessa brtt.

Önnur brtt. og þó nokkuð veigamikil er við 4. gr. Eins og það er nú í frv., er heimilt að skipa iðnfulltrúa á eins mörgum stöðum á landinu og iðnfræðsluráði sýnist, en það, sem fyrir mér vakir, er það, að til þessa þurfi heimild frá atvmrh. Þetta er brtt., sem ég legg talsvert upp úr og sem mætti segja mér, að sparaði eigi lítið upp í kaup iðnerindrekans, sem ég legg til, að skipaður verði.

Ég er nokkuð hissa á því, hve allir, sem hér hafa talað, og eins þau bréf, sem komu frá Iðnnemasambandi Íslands og iðnsveinaráði Alþýðusambands Íslands, leggja mikið á móti annarri brtt. hv. þm. Barð., og ég held, að þeir hafi ekki áttað sig á, hvað í henni stendur. Þar stendur: „Nú hefur nemandi verið veikur meira en 6 mánuði samtals á námstímanum,“— en nú ber öllum saman um, að ekki sé vit að hafa sama námstíma í öllum iðngreinum og því miklu réttara að miða við árið heldur en námstímann allan. Þessu hafa þeir ekki áttað sig á, sem talað hafa á móti þessari brtt.

Ég vona, að mönnum sé ljóst, hvað felst í mínum till., og vænti þess, að menn skilji nauðsyn þeirra og að hv. deild samþykki þær báðar.