18.12.1946
Neðri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (4215)

117. mál, opinberar byggingar bæjar- og sveitarfélaga

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég vildi aðeins láta það álit mitt í ljós, að ég tel rétt og mæli eindregið með till. hæstv. forseta í þessu efni, því að þetta málefni, sem hér liggur fyrir, er ótvírætt þannig, að samkv. eðli sínu og fyrirmælum þingskapa á það að vera í fjhn. Það er um mjög mikla heimild til handa ríkisstj. að ábyrgjast lán fyrir öll bæjar-og sveitarfélög landsins. Og við, sem höfum setið hér svolítið á þingi, vitum það, að slík mál fá svo að segja alltaf athugun og afgreiðslu í fjhn. Þegar um er að ræða ábyrgðir ríkisins til handa einstökum bæjarfélögum, svo sem til bygginga rafstöðva og þess háttar, þá er alltaf venja að láta slík mál fara til athugunar í fjhn. Mál þetta, sem hér liggur fyrir, á samkv. eðli sínu og þingsköpum að vera í fjhn. og hvergi annars staðar. Þó að mönnum hafi skeikað, sem hafa sett þetta mál til flutnings í hv. menntmn., þá hygg ég sjálfsagt fyrir hv. þd. að leiðrétta það og láta málið koma til þeirrar n., sem samkv. eðli málsins og þingsköpum á um það að fjalla.