18.12.1946
Neðri deild: 40. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í C-deild Alþingistíðinda. (4216)

117. mál, opinberar byggingar bæjar- og sveitarfélaga

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á því, að hér er ekki að ræða um að vísa máli til n., heldur um það að taka mál af n., sem stundum er gert, ef hv. þm. þykir líta út fyrir, að viðkomandi n. beri sig ekki að því að afgreiða það á réttan hátt og sómasamlegan. En þetta mál er menntmn. búin að hafa í sínum vörzlum síðan 1. eða 2. nóvember. Þá var þetta mál lagt fyrir n. fyrst, og á tveimur til þremur fundum n. hefur málið verið rætt.

Þá vildi ég segja það viðvíkjandi ræðu hv. 5. landsk., sem síðast talaði — því að hann sagði, að þetta mál ætti öllum venjum og reglum samkv. að vera í fjhn., af því að það fjallar um ríkisábyrgðir — ég vil benda þessum hv. þm. og öðrum á það, að samkv. öllum venjum fjallar heilbr.- og félmn. um byggingarmál í þessu landi. Eigi að síður þykir rétt, að menntmn. hv. Ed. fjalli um byggingarmál prestssetra, af því að það er venja, að sú hv. n. fjalli um kirkjumál. Alveg eins er talið rétt og sjálfsagt, að menntmn. þessarar hv. d. fjalli um frv. um byggingu kirkna, af því að sú n. er vön að fjalla um kirkjumál.

Varðandi það, að hér sé um að ræða lagafyrirmæli um stórkostlega fjárhagslega aðstoð af hendi ríkisins, þá er það rétt. En ég bendi á, að frv. að gífurlega stórum lagabálki hefur menntmn. verið falið að athuga og afgreiða frá sér, sem er skólalöggjöfin. Sú löggjöf er í mörgum liðum, sem allir hafa í sér fólgnar heimildir fyrir útgjöld af hálfu ríkisins.

Það liggur þess vegna fyrir, hvort hv. þd. vill sýna menntmn. vantraust viðkomandi þessu máli, sem hér liggur fyrir, með því að taka það úr höndum n. Ég álít, að menntmn. verðskuldi ekki það vantraust, þó að nokkur dráttur hafi orðið á því, að málið hafi komið frá n. og verið lagt fyrir hv. þd.