19.12.1946
Neðri deild: 41. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í C-deild Alþingistíðinda. (4228)

117. mál, opinberar byggingar bæjar- og sveitarfélaga

Forseti (BG):

Ég er þakklátur hv. 6. þm. Reykv. fyrir þessa ræðu. Í sinni dólgslegu ræðu, sem hann flutti á þeim fundi, sem hann ræddi um, sagði hann, að ég hefði aldrei mætt á fundum menntmn. Nú hefur hann sjálfur upplýst, að það er langt frá því að vera rétt, og þarf ekki meira um það að ræða. Viðvíkjandi því, sem hv. þm. talaði um, að Alþýðublaðið hefði hafið máls á þessu utan þingsalanna, þessu hneyksli, sem hv. þm. gerði sig sekan um á þessum fundi, skal ég upplýsa, að ég bað ritstjórn Alþýðublaðsins, vegna þeirrar minnkunar, sem þessi hv. þm. hafði gert sér, bað hana beinlínis um að vekja ekki máls á þessu. Ég bað blaðið að hefja ekki máls á þessu, en annars var það ekki Alþýðublaðið, sem byrjaði að skrifa um þetta hneyksli hv. 6. þm. Reykv., heldur Þjóðviljinn sjálfur. Hv. þm. talaði um, að ég hefði haft óþinglegt orðbragð, þegar ég ávítti hann. En hvað hefur ekki hv. 6. þm. Reykv. unnið til sakar, þegar hann veður að forseta með verstu brigzlyrðum og fyllstu ósannindum um fundasókn forseta, sem hv. 6. þm. Reykv. sjálfur hefur afsannað með þeirri skýrslu, sem hann gaf og ég vona, að sé nær sanni um fundasókn mína í menntmn. Ég sagði, eins og satt var, að hv. 6. þm. Reykv. hefði farið með ósannindi, — ósannindi, sem auðsjáanlega voru vísvitandi, því að hann sjálfur er form. menntmn. og hann og ég höfum átt tal um það í n., að þetta frv., sem deilan varð út af, ætti ekki heima í menntmn. Hv. 6. þm. Reykv. sagði sjálfur, að þetta mál ætti ekki heima í þeirri n. — Meira hef ég ekki að segja um málið að svo stöddu.