28.02.1947
Sameinað þing: 33. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (4648)

11. mál, alþjóðaflug

Frsm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Þessi þáltill. hefur legið alllengi hjá allshn., og er það ekki af þeirri ástæðu, að n. hafi verið í neinum vafa um að mæla með samþykkt hennar, heldur mestmegnis vegna þess, að till. þurfti verulegrar athugunar við vegna málfæris. Hefur þýðingin á samningnum nú verið færð nokkuð til betra máls, svo sem sést á þskj. 456.

Í till. er farið fram á, að hv. Alþ. gefi ríkisstj., heimild til að staðfesta tvær alþjóðasamþykktir, þ.e. samþykkt um alþjóðaflugmál og alþjóðasamning um viðkomuréttindi flugfara, en bráðabirgðasamþykkt um þetta var gerð á alþjóðaflugmálaráðstefnunni, sem saman kom í Chicago 1. nóvember 1944. Við undirskrift fulltrúanna á samningnum var hins vegar gert ráð fyrir því, að undirskrift þeirra teldist ekki bindandi, fyrr en ríkisstjórnir viðkomandi ríkja hefðu tilkynnt, að undirskrift fulltrúa þeirra skyldi skoðast sem samþykkt viðkomandi ríkisstj. Í þessum samningum báðum eru mjög merkileg ákvæði um, hvernig alþjóðaflugi skuli fyrir komið, og verður að telja nauðsynlegt, að Íslendingar taki þátt í þeim samtökum, sem hér eru á ferðinni og miða að því að koma föstu skipulagi á flugferðir landa á milli. Gert er ráð fyrir því, að sú stofnun, er annast þessi mál, verði þátttakandi í bandalagi hinna sameinuðu þjóða. Var þetta mál til umr. á nýafstöðnu þingi sameinuðu þjóðanna, og var þetta samþykkt með þeim fyrirvara, að ríki, sem hefðu verið vinveitt Þjóðverjum, meðan á síðustu styrjöld stóð — og reyndar bæði á undan og eftir —, gætu ekki orðið þátttakendur í þessari stofnun.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í hinar einstöku greinar þessara samninga, þar eð þetta er mjög margbrotið mál, en vildi lýsa þeirri skoðun allshn., að hún leggur eindregið til, að þáltill. verði samþ., eins og hún hljóðar á þskj. 456.