21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

12. mál, fjárlög 1947

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Á þskj. 560 flyt ég nokkrar brtt. við fjárlagafrv., flestar varðandi veitingu til vega á Snæfellsnesi. Svo er mál með vexti, að í fyrra voru veittar 350 þúsund kr. til vega í Snæfellsness- og Hnappadalssýslum. Ein veitingin, til Skógarstrandarvegar, var að vísu bæði til Snæfellsness- og Dalasýslu. Nú er þessi veiting 90 þús. kr. lægri, en í fyrra. Sé ég ekki, að það sé réttmætt, og vildi, að n. tæki það til athugunar. Ég vil benda á, að í fjárl. 1946 er veitingin á tveim stöðum, undir lI. A og II. B, en nú er hún töluvert lægri, en þar er ákveðið. Sá vegurinn, sem ég legg aðaláherzluna á, er Útnesvegur. Ég legg til, að til hans verði veittar 100 þús. kr., en í fyrra voru það 90 þús. Vegur þessi var fyrir alllöngu tekinn í þjóðvegatölu. Hann liggur út fyrir jökul og veitir m.a. bílvegasamband við Hellissand. Þessi vegur hefur þá kosti fram yfir aðra vegi, sem um er að ræða, veginn yfir Kerlingarskarð og Fróðárheiði, að hann liggur ekki um heiðar og er því snjóléttari. Á síðasta ári var hann kominn út að Arnarstapa og bílfært er út að Hellnum, þegar bezt er. Eftir till. frá vegamálastjóra áttu 90 þús. að nægja til, að vegurinn kæmist út að Hellnum, en nægði ekki þegar til kom, en því hefur verið lýst yfir, að vegurinn ætti að komast þangað, og eru það, ja, ég vil ekki segja brigðmæli, ef nú verður kippt að sér hendinni með hann. en a.m.k. mikil vonbrigði fyrir þorpið. Ég tel alveg sjálfsagt að halda þessum vegi áfram, enda er að því tvímælalaust hagnaður fyrir alla hlutaðeigendur. Nú er mikið rætt um landshöfn á Rifi, og er þá nauðsyn á að fá akfæran veg þangað, og er þessi lausn á þeim málum tvímælalaust bezt. Ég vil því mælast til þess, að hv. fjvn. taki þetta til alvarlegrar athugunar.

Til Eyrarsveitarvegar legg ég til, að veittar verði 50 þús. Það er að rísa upp allmikill kaupstaður og mikil þörf á vegarbótum. Þá eru 25 þús. til Helgafellssveitarvegar, en það er vegurinn, sem liggur til Eyrarsveitar.

Ég vil taka það fram, að þeir vegir, sem enn eru ekki komnir í þjóðvegatölu, eru á frv. um þjóðvegi, sem komið er til 3. umr. í Ed. og vænta má, að verði samþ.

Á sama þskj. flyt ég till. nr. XLII. ásamt hv. 7. þm. Reykv., um styrk til byggingar fávitahælis. Það voru sett l. um fávitahæli árið 1936, og segir svo í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. sér um, jafnóðum og fé er veitt til þess á fjárlögum. að stofnuð séu“ — svo kemur upptalning á þeim stofnunum, sem um er að ræða. Nú eru liðin 11 ár, frá því l. þessi voru samþ., og eru þau ekki enn komin til framkvæmda. Öllum er ljóst, að svo búið má ekki standa, og þarf þetta úrbóta. Hefur það m.a. komið í ljós, þar sem einn hv. þm. hefur flutt frv. um, að lögskipað sé að hefjast handa. Ég tel nú ekki þörf nýrrar lagasetningar um þetta, nægilegt ef veitt er fé á fjárl. til starfseminnar. Ég vænti þess, að Alþ. sjái sóma sinn í því að standa ekki á móti þessari till.

Ég hef þá gert grein fyrir þeim brtt., sem ég á, og skal ekki orðlengja þetta frekar.