25.04.1947
Sameinað þing: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

12. mál, fjárlög 1947

Hermann Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. frsm. fjvn. virtist ganga illa að sanna hv. þm. Barð. í síðustu ræðu sinni stórhuginn, sem hann ræddi um við fyrri umr. fjárl. Ég sé ekki betur en að það standi óhaggað, að niðurskurður fjárl. sé 15%, og ég sé ekki betur, en að sjávarútvegurinn hafi orðið fyrir þessum niðurskurði og líka í sambandi við hafnargerðir. Hann minntist á, að ekki hefði verið stórhugur í þeim till., sem við hefðum flutt, en í öðru orðinu talaði hann um, hve fjarstæðukenndar þær till. hefðu verið, sem fluttar voru af Sósfl. Ég get vel skilið, að þær till., sem þessi maður teldi fjarstæðukenndar, bæru vott um stórhug, en vafi væri um þær, ef þessum þm. þætti þær bera vott um svo mikinn stórhug, að þær væru framkvæmanlegar.

Hv. þm. minntist á það, að ef ég hefði verið duglegur, hefði ég getað komið þeim till. á framfæri við fjvn., sem ég hefði viljað. Þetta eru ósannindi, því að þegar komið var við 2. umr. með boð þessa hv. þm. til mín um að taka til baka till. mínar, svo að n. gæti athugað þær, þá fundu þær ekki náð fyrir augum n., eftir að hún hafði haft þær til athugunar.

Í sambandi við till. mínar um styrk til hafnargerðar í Hafnarfirði spyr hann að því, hvort vitleysur við hafnargerðir hafi hækkað. Ég hef ekki athugað það, en kannske það geti haft áhrif á fjvn., og annars staðar hefur verið tekið tillit til óhappa, sbr. Akureyri. Það stendur óhaggað, að hafnargerð í Hafnarfirði er ekki nauðsynleg fyrir Hafnarfjörð eingöngu, heldur fyrir Suðurnesin öll. Að lokum. gaf þm. í skyn, að fjárl. hefðu verið önnur, ef þm. Barð. hefði ekki haft hönd í bagga með þeim, en með hliðsjón af því, hvernig afgreiðsla þeirra hefur farið úr hendi undir hans stjórn, vil ég vona, að sú gæfa fylgi Alþ. og þjóðinni framvegis, að hann haldi sig í hæfilegri fjarlægð frá afgreiðslu fjárl.