28.04.1947
Sameinað þing: 48. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

12. mál, fjárlög 1947

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Þá er eldhúsið byrjað að þessu sinni. Þeir, sem hafa tekið að sér að vinna eldhússtörfin, eru fulltrúar hins svokallaða Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins. Þessi flokkur er algerlega á valdi kommúnista, og er stefna flokksins og ákvarðanir með öllu mörkuð af þeim. Fæstir af raunverulegum foringjum þessa flokks munu heldur neita því, að þeir séu kommúnistar, heldur þvert á móti telja sér það til gildis. Það er því ekki út í bláinn, þegar ég nefni flokkinn því nafni, og mun ég gera það í þessari ræðu minni eins og oft áður, enda þótt mér sé vel ljóst, að margir kjósendur hans eru víðs fjarri því að vera kommúnistar, þótt þeir hafi til þessa kosið flokkinn í þeirri trú, að hann væri ekki kommúnistískur, þótt sú sé óvefengjanlega raunin á.

Það er venja á eldhúsdegi að líta yfir farinn veg og taka aðallega til athugunar gerðir þeirrar stjórnar, sem setið hefur að völdum, frá því síðasta eldhúsdegi lauk. Sú stjórn, sem nú situr, hefur aðeins verið við völd tæpa þrjá mánuði, en meginhluta tímabilsins frá síðasta eldhúsdegi sat hér stjórn, sem kommúnistar áttu fulltrúa í, einmitt tvo af helztu forystumönnum sínum. Ég tel því ástæðu til að víkja nokkuð að störfum þessara kommúnista, meðan þeir sátu í ríkisstj. — ekki sízt vegna þess, að flokkur þeirra hefur fundið sérstaka köllun hjá sér til þess að ráðast að núverandi ríkisstj., og mætti af því ætla, að þátttaka kommúnista í fyrrv. ríkisstj. hefði verið með þeim hætti, að örðugt mundi að koma þar að gagnrýni. En svo mun þó sízt reynast.

Hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, sat sem atvmrh. í fyrrv. ríkisstj. um tveggja ára skeið. Honum var meðal annars trúað fyrir tveimur stórum ríkisfyrirtækjum: Síldarverksmiðjum ríkisins og Landssmiðjunni. Hvernig skildi hann við þessar stofnanir, þegar hann fór úr ríkisstj.? Hann tók að sér framkvæmd og æðstu yfirstjórn á stórkostlegri aukningu Síldarverksmiðja ríkisins. Fyrir síðustu alþingiskosningar lýsti hann yfir því, að þessi aukning verksmiðjanna mundi koma til fullra nota á síldarvertíðinni 1946. En svo varð alls ekki. Ennþá er því miður mikil óvissa ríkjandi um það, hvort viðauki sá hinn mikli og nauðsynlegi, sem gerður hefur verið á síldarverksmiðjunum, muni koma að fullu gagni á vertíðinni 1947. Skýtur því mjög skökku við þá skrumyfirlýsingu, sem hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, lét atvmrn. gefa út fyrir alþingiskosningar, að sjálfsögðu í þeim tilgangi að hafa áhrif á kosningaúrslitin. En þessi seina framkvæmd, sem orðið hefur á aukningu verksmiðjanna. kynni að stafa af því, að þess hefði verið sérstaklega gætt að vinna verkið á sem allra ódýrastan hátt, munu menn ef til vill ímynda sér. En það var nú síður en svo. Kostnaður við aukningu verksmiðjanna var 1944 áætlaður 20 millj. kr., en mun reynast 43 millj., eða meira en helmingi hærra en ráðgert var 1944, og má þó búast við, að ekki séu enn öll kurl komin til grafar. En fyrir utan þessa gífurlegu hækkun á kostnaði við aukningu síldarverksmiðjanna hefur það því miður komið í ljós, að verkið hefur einnig að sumu leyti verið unnið þannig, að til hreinna vandræða hefur komið. Minnisstætt er öllum, þegar þakið hrundi á hinni miklu mjölgeymslu á Siglufirði — datt niður undan tiltölulega litlum snjóþunga. Og nýjustu fregnir herma, að ekki muni vera komnar í ljós allar þær skemmdir, sem útlit er fyrir á verksmiðjunum, en þær munu að sjálfsögðu torvelda það, að verksmiðjurnar verði starfræktar jafn snemma og þörf er á, auk þess sem það hefur í för með sér stórkostlega aukinn kostnað við bygginguna. Allt þetta átti sér stað undir yfirstjórn Áka Jakobssonar, hv. þm. Siglf.. er hann var atvmrh., og allt þetta mun leggja drjúgan skatt og mjög tilfinnanlegan á sjómenn og útgerðarmenn og jafnvel nú í sumar hafa áhrif til lækkunar á bræðslusíldarverðið. Og ríkið, sem er eigandi verksmiðjanna, verður fyrir þungum búsifjum fyrir sakir þessarar óstjórnar. En þyngst verður byrðin á sjómönnunum og útvegsmönnunum, einmitt þeim mönnum, sem þessi fyrrv. hv. ráðh. átti að gæta hagsmuna fyrir. Stjórn Landssambands íslenzkra útvegsmanna mun og hafa krafizt rannsóknar á þessari óstjórn.

Svo er það Landssmiðjan. Þegar hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, lét af störfum sem ráðh., skilaði hann landssmiðjunni af sér á þann veg, að skuldheimtumenn ætluðu að ganga að fyrirtækinu vegna stórskulda, sem hlaðlzt höfðu upp, og var það eitt af fyrstu verkum núverandi stjórnar að útvega landssmiðjunni á aðra millj. kr. að láni til þess að losna við, að gengið yrði að stofnuninni. Og í nánu sambandi við landssmiðjuna standa birgðirnar af skipaeikinni, sem keypt var undir forsjá þáv. atvmrh. fyrir rúmlega tvær millj. kr. Eikin var keypt mjög háu verði og reyndist ekki góð. Mikill hluti þessarar eikar liggur nú og er óráðstafaður, og má ekki sjá fyrir, eins og sakir standa, hve mikið tjón muni hljótast af þessum kaupum.

Hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, hefur sannarlega ekki verið hin græna eik fyrrv. ríkisstj., þrátt fyrir eikarbraskið.

Þessi hv. þm. sást lítt fyrir um útgjöld ríkissjóðs, meðan hann var ráðh. Sem dæmi um það má nefna, að tvo sendimenn gerði hann til útlanda í stjórnartíð sinni án samráðs við aðra ráðh. í stjórninni, og mun nú þurfa að greiða þeim 100 þús. kr. fyrir ferðir þeirra, þótt allmiklar líkur bendi til þess, að árangurinn hafi orðið sáralítill. Um það virðist ekki hafa verið hugsað. Og sjálfur ferðaðist þessi hv. þm. allmikið norður í kjördæmi sitt árið 1946 — enda fóru þá alþingiskosningar í hönd —, og fékk ríkissjóður nokkuð á því ferðalagi að kenna, því að ferðafé hans það ár varð 12 þús. kr., og ógreiddur er þó ennþá 5 þús. kr. reikningur, sem hann hefur krafizt greiðslu á vegna ferðakostnaðar til Norðurlands og þá væntanlega til Siglufjarðar.

Þessi forustumaður íslenzkra kommúnista hefur orðið landinu dýr þau tvö ár, sem hann var ráðh., og munu fáir harma brottför hans úr ríkisstj.

Ekki má ég alveg ganga fram hjá hinum höfuðleiðtoga kommúnista, er sæti átti í fyrrv. ríkisstj., hv. landsk. þm., Brynjólfi Bjarnasyni. Sérstaklega vil ég vekja athygli á embætta- og stöðuveitingum hans sem menntmrh. Hann átti kost á að skipa skólanefndarformenn í landinu í sinni ráðherratíð, og gaumgæfilega var nú leitað, hvort ekki fyndist í hverju skólahéraði einhver réttlátur, sem trúandi væri til þess af kommúnista hálfu að gegna formennsku í skólanefndinni í stað þeirra, sem áður höfðu vammlaust gegnt þeim störfum. Svo langt var gengið í breytingum á skipun skólanefndarformanna, að hæstv. samgmrh., Emil Jónsson, var sviptur formannsstarfi í skólanefnd Flensborgarskólans, sem hann hafði gegnt með mesta trausti og alúð síðan 1939, en í stað hans valinn maður úr hópi hafnfirzkra kommúnista.

Minnisstætt er og mörgum, hvernig fram var komið gagnvart Eyþóri Þórðarsyni, ágætum barnakennara á Austurlandi — en hann mun hafa goldið þess, að hann var hvort tveggja í senn, öruggur Alþýðuflokksmaður og góður stjórnandi. Hann hafði verið um mörg ár kennari við barnaskólann í Neskaupstað og nokkur síðustu árin settur skólastjóri þar. En svo gekk þáv. menntmrh., Brynjólfur Bjarnason, frá því máli, að hann svipti Eyþór Þórðarson hvoru tveggja, skólastjórastöðunni og sinni gömlu kennarastöðu við skólann, — hafði hann þó leyst störf sín af hendi með mestu prýði, bæði sem kennari og skólastjóri. Má heita vel að verið hjá fyrrv. menntmrh. í þessu efni, og ekki hægt annað um hann að segja, en að hann hafi trúlega látið þá eina sitja fyrir stöðum, sem voru hans flokksmenn eða treyst var til að vera þægir og viðvikaliprir. En því dreg ég þetta fram nú, að kommúnistar veitast hart að núverandi ríkisstj. fyrir það, að hún gangi fram hjá kommúnistum við störf, þótt það sé með öllu rangt. Hafa þeir meðal annars af hálfu núverandi stjórnar verið valdir til trúnaðarstarfa í sendinefndum á erlendum vettvangi, bæði í London og Moskvu.

Þessi dæmi af mörgum um ávirðingar fyrrv. ráðh. kommúnista hef ég nefnt hér vegna þess, að þeir ganga nú fram fyrir skjöldu í ásökunum sínum á aðra. En sannleikurinn mun sá, að sjaldan hafa menn setið í ríkisstj. öllu berskjaldaðri fyrir gagnrýni, en þessir tveir forystumenn kommúnista, og mun ef til vill í umr. verða nánar vikið að því af öðrum, en ég hef aðeins drepið á nokkur dæmi, sem eru sérstaklega táknræn fyrir starfsemi þessara manna, er álíta sig öðrum betur fallna til ásakana og gagnrýni á hendur núverandi stjórn.

Þegar ég sleppi nú þessum eldhússtörfum á fyrrv. ráðh. kommúnista, eldhússtörfum, sem unnt væri að hafa miklu ýtarlegri, mun ég víkja nokkuð að stjórnarkreppunni, áður en núverandi stjórn var mynduð.

Rétt fyrir síðustu alþingiskosningar létu kommúnistar það boð út ganga, að þeir væru fúsir til þátttöku í stjórn áfram með fulltrúum sömu flokka og áður. Gátu allir skilið, af hverju slík yfirlýsing kom fram fyrir kosningarnar, en að sjálfsögðu var þess enginn kostur að ræða þetta tilboð, fyrr en eftir kosningar, þar sem forystumenn flokkanna voru þá dreifðir um landið vegna kosningabaráttunnar. En að kosningum loknum varð nokkurt hlé á venjulegum pólitískum störfum, enda var þá hásumar og menn fjarverandi úr bænum. Þegar leið á sumarið fór fyrrv. hæstv. forsrh., Ólafur Thors, af eðlilegum ástæðum að hefja máls á því, að ríkisstj. þyrfti að ræða sín á milli um útvegun fjár til nýsköpunarinnar, áframhald hennar og um útvegun fjár til ríkisbúskaparins yfirleitt o.s.frv. En eftir því sem upplýst er og ómótmælt af hálfu kommúnista, svöruðu fulltrúar þeirra þáverandi forsrh., Ólafi Thors, því, að þeir vildu ekki um slík mál ræða — ekkert ræða um nýsköpunina, fjárútvegun til hennar eða fjárútvegun til almennra útgjalda ríkissjóðs — og var ástæðan sú, að þeim var ríkast í huga, hvernig samningar yrðu á milli Íslendinga og Bandaríkjamanna í sambandi við flugvöllinn í Keflavík. Varð því ekkert af ráðagerðum um þessi mál, og áttu kommúnistar á því fulla sök og sýndu með því, að þeir mátu meira það, sem þeir vissulega töldu hagsmuni erlends ríkis í utanríkismálum, heldur en nýsköpun íslenzkra atvinnuvega.

Svo kom flugvallarsamningurinn til umr. og atkvgr. á Alþ. í byrjun októbermánaðar s.l. Þegar hann hafði verið samþykktur, báðust fulltrúar kommúnista í ríkisstj. þegar lausnar, og það varð til þess, að stjórnin öll baðst lausnar. Hófst nú hin mikla stjórnarkreppa, sem stóð samtals í fjóra mánuði.

Ég hef ekki tíma til þess, þótt fróðlegt væri, að rekja þátt kommúnista til hlítar í stjórnarmyndunartilraununum, er þá voru á döfinni. Þó þykir mér rétt að skýra frá því hér, að með samkomulagi innan Kommúnistafl. skiptist hann í tvo hópa. Vildu fulltrúar frá öðrum hópnum af mikilli ákefð semja um endurreisn fyrri stjórnar, en fulltrúar hins hópsins mynda nýja stjórn undir forustu Framsfl. Allt fór þetta fram með góðu samkomulagi innan Kommúnistafl., að því er vitað varð, og sýnir það glögglega starfsaðferðir þær, sem flokkurinn temur sér.

Nú skyldu menn halda, að í stjórnarmyndunartilraununum hefðu komið fram skeleggar og ákveðnar kröfur af hálfu íslenzkra kommúnista um ýmis hagsmunamál alþýðunnar í landinu. En sú varð lítt raun á. Aðaláhugi þeirra var að ná trúnaðarstöðum fyrir flokksmenn sína og yfirráðum yfir þýðingarmiklum málum í þjóðfélaginu.

Því hefur ómótmælt verið haldið fram opinberlega, að kommúnistar hafi í sambandi við umræður um endurreisn fyrrv. stjórnar krafizt þess að fá í sendiherrastöðuna í Moskvu mann úr sínum hópi, einn bankastjóra í landsbankanum og aðalmann eða formann — sem átti að vera Einar Olgeirsson — í fjárhagsráði því, sem ráðgert var að stofna. Sú stofnun skyldi einnig hafa með höndum stjórn á seðlabanka, sem talað var um að setja á laggirnar.

Þetta virtust þá vera aðalkröfurnar, aðaláhugamálin, sem kommúnistar lögðu áherzlu á og miklu ollu um það, að ekki tókst að ná saman endunum um myndun ríkisstj., en ýmis vandamál atvinnu- og fjármálalífsins létu kommúnistar sig litlu skipta.

Þegar ég, að beiðni forseta Íslands, tókst á hendur að gera tilraun til stjórnarmyndunar, sneri ég mér til Kommúnistafl. eins og annarra flokka. Eftir eins sólarhrings frest sendi hann mér skriflegt, mjög ákveðið svar, að flokkurinn mundi ekkert vilja við mig semja um stjórnarmyndun. Skárust þeir því úr leik þegar í upphafi, þótt ekki muni allir hafa verið á eitt sáttir um þetta í flokknum. en hitt munu menn þar hafa verið að mestu leyti sammála um, að reyna af fremsta megni að hindra, að mér tækist stjórnarmyndun.

Ég hef fulla vissu fyrir því, að kommúnistar reiknuðu með því, að mér mundi mistakast stjórnarmyndunin. En þegar á leið og sýnt þótti, að eigi mundi útilokað, að stjórnarmyndun tækist, munu kommúnistar hafa farið að láta berast til Sjálfstfl., að þeir mundu skilyrðislítið eða skilyrðislaust vilja ganga til samstarfs um stjórn við sömu flokka og áður höfðu stjórnað. Var þetta að nokkru í samræmi við aðferðir þeirra við stjórnarmyndunina 1944. En þessu boði þeirra var ekki tekið, og mun það ekki sízt hafa stafað af þeirri reynslu, sem fengin var af samstarfi við kommúnista í ríkisstj., einnig af kröfum þeirra um vissar stöður og aðstöðu í þjóðfélaginu. Kommúnistar reyndu á allan hátt að hindra myndun þeirrar stjórnar, er nú situr. Þeir reyndu að sá sæði tortryggni. óánægju og sundurlyndis innan raða þeirra flokka, er að stjórninni standa, en án árangurs. Formaður þeirra, Einar Olgeirsson, gekk oft á fund forseta Íslands, eftir að ég hafði verið þar, að því er ætla má til þess að reyna að hafa áhrif á, að forseti fæli mér ekki lengur tilraunir til stjórnarmyndunar. Sýnir það vel, að ekki var skirrzt við að grípa til óvenjulegra og ósæmilegra ráða til þess að hindra stjórnarmyndunina. Og á ræðu Brynjólfs Bjarnasonar hér á undan má marka, hve mikið kommúnistar telja liggja við, að ég sé ekki forsrh. Hinar hatrömu og móðursjúku árásir kommúnista á mig tel ég óbrigðula sönnun þess, að þeir skoði mig þann andstæðing, er leggja þurfi að velli, og tel ég mér það mjög til gildis.

En þrátt fyrir allar aðgerðir kommúnista í því efni að torvelda mér stjórnarmyndun varð nú samt sú niðurstaða, að stjórnarsamstarf tókst, svo sem kunnugt er.

Þótt stefna núverandi ríkisstj. sé um flest lík stefnu þeirrar stjórnar, sem kommúnistar höfðu látið í veðri vaka, að þeir mundu geta tekið þátt í, þá lýstu þeir yfir því, þegar er núverandi stjórn kom fram fyrir Alþ., að þeir væru henni algerlega andvígir og mundu allt gera, sem í þeirra valdi stæði, til þess að steypa henni af stóli. Það hafa þeir trúlega efnt, þótt segja megi með sanni, að stjórnarandstaða þeirra, bæði hér í eldhúsinu og áður hafi verið á þann veg, að hugsandi menn og greinagóðir hljóta að sjá, að þeir bera fram ásakanir, sem eru algerlega út í bláinn og úr lausu lofti gripnar.

Það lætur að líkum, að þegar mynduð er samsteypustjórn þriggja flokka með ólíkar skoðanir og stefnumið, þá beri stefna hennar ekki merki sérsjónarmiða eins flokks, heldur samkomulags og miðlunar. En þrátt fyrir það hika ég ekki við að segja, að stefnuskrá núverandi stjórnar sé eftir aðstæðum á þann veg, sem bezt hentar landi og lýð, og að það, sem af er, hafi stjórnin af öllum mætti reynt að framkvæma stefnu sína. En tími sá, sem hún hefur starfað, er svo skammur, að auðvitað hefur ekki tekizt að koma því í framkvæmd, sem stjórnin hyggst að beita sér fyrir. Sumpart eru málefni þessi á leiðinni hér á Alþ. og sumpart í undirbúningi.

En ríkisstj. er staðráðin í því að framfylgja yfirlýstri stefnu sinni svo sem framast er unnt. Stjórnin hefur þegar lagt fyrir Alþ. frv. til l. um fjárhagsráð o.fl., í samræmi við samninginn um stjórnarstefnuna. Enn fremur frv. til l. um sölu íslenzkra landbúnaðarafurða, frv. til l. um innkaupastofnun ríkisins, frv. að breyttri flugvallalöggjöf og allmörg fleiri mál — öll í samræmi við þau fyrirheit, er gefin voru við stjórnarmyndunina. Áður en langt um líður, mun fram verða lagt frv. til l. um eignakönnun.

En það lætur að líkum, að stjórninni hafi ekki unnizt tími til að leggja fram frv. um öll þau mál, er hún hefur á stefnuskrá sinni. Segja má, að í rauninni hafi hafizt nýtt þing 5. febrúar s.l., eftir að annað þing, lítt starfhæft, hafði setið í fjóra mánuði. En þar að auki má á það benda, að sú stjórn, sem tók við völdum í febrúarmánuði s.l., hafði að sjálfsögðu ekki átt þess kost að undirbúa og hafa tilbúin í fullkomnu formi málefni þau, er hún vildi leggja fyrir Alþ. Mörg eru þó þegar fram komin í frumvarpsformi. önnur eru væntanleg, svo sem ég þegar hef tekið fram.

Þessar eldhúsumr. standa í sambandi við afgr. fjárl. Eitt af því, sem ríkisstj. hefur lýst yfir í stefnuskrá sinni, er það, að afgreiða a.m.k. rekstrarhallalaus fjárl. En til þess að svo mætti fara, var öldungis auðsætt, að afla þurfti nýrra tekna. Í fjárlagafrv. því, sem upphaflega var lagt fyrir þingið, var ekki reiknað með hækkun vísitölunnar til fulls og eigi voru heldur ætlaðir í frv. peningar til niðurgreiðslu á dýrtíðinni. Ríkisstj. hafði ákveðið að halda vísitölunni í 310 stigum og greiða niður nauðsynjavörur almennings með ríkisfé til bráðabirgða, meðan ekki ynnist tóm til að snúast öðruvísi við vandanum. Hefur ríkisstj. framfylgt þessari áætlun sinni og haldið vísitölunni í 310 stigum. En til þess að geta það og greiða niður um einhvern óákveðinn tíma hækkað vöruverð, þarf auknar tekjur í ríkissjóð. Það er og auðsætt, að öll hin mjög svo nytsömu lög, sem sett voru í tíð fyrrv. ríkisstj., t.d. almannatryggingalögin, launalögin og fræðslulöggjöfin — allt kostar þetta stóraukin útgjöld úr ríkissjóði. Til alls þessa og til þess að afgreiða rekstrarhallalaus fjárlög þurfti mjög aukið fjármagn. Hefur stjórnin nú komið því til leiðar, að sett hafa verið tekjuöflunarlög, sem duga eiga til þess að afgreiða fjárl. án rekstrarhalla, ef þess er samtímis gætt að halda útgjöldunum í skynsamlegu hófi, án þess þó að draga úr verklegum framkvæmdum eða framkvæmd nytsamrar lagasetningar frá tíð fyrrverandi stjórnar.

Kommúnistar hafa gert sitt til þess að auka útgjöld á yfirstandandi Alþ. og sýnt í því efni algert ábyrgðarleysi. Hafa þeir flutt brtt. til hækkaðra útgjalda, svo að nemur 20–30 millj. kr., en hins vegar barizt gegn öllum lækkunum. Táknrænt dæmi um þessar aðfarir gerðist við 3. umr. fjárl. Verið var að greiða atkv. um eina till. með nafnakalli, er einn af aðalforingjum kommúnista, einmitt sá, er fegurst og prúðmannlegast talaði hér næst á undan, kom inn í þingsalinn, og var nafn hans þá kallað upp. Vissi hann þá ekki gerla„ hvaða till. var á ferðinni, en innti eftir því einu, hvort hún væri til hækkunar, og er svarað var játandi, greiddi hann hiklaust atkv. með henni.

En þegar átti að fara að afla tekna til þess að standa straum af auknum útgjöldum, hafa kommúnistar snúizt öndverðir gegn því og reynt með öllu móti að hindra framgang slíkrar löggjafar.

Kommúnistar hafa gert hark mikið að ríkisstj. og hafa í hinum mestu hótunum við hana út af tekjuöflunarleiðum þeim, sem farnar voru. Í þessu sambandi hafa þeir beitt hinum mestu blekkingum og reynt að telja mönnum trú um, að launamönnum sé ætlað að bera þungan hlut í þessu sambandi — eða allt að 9% launalækkun. Þetta er að sjálfsögðu hin mesta blekking, og sjá menn það strax, þar sem reglur vísitöluútreikningsins haldast óbreyttar og allar þær sömu vörur og áður orkuðu á vísitöluna gera það nú og á sama hátt. Sést af þessu, að launþegar fá þá hækkun, sem verða kann á öllum þeim vörum, er inn í vísitöluna ganga, annaðhvort með hækkuðu kaupi eða þá með því, að ríkissjóður borgar niður vöruhækkun þá, sem verða kann.

Kommúnistar kalla nú vísitölureikninginn „vísitölu eymdarinnar“. En þau rúm tvö ár, er þeir áttu fulltrúa í ríkisstj., stóðu þeir að þeirri einu breytingu á vísitöluútreikningnum, að mjög hátt smjörverð fram yfir frekar takmarkað magn til neyzlu almennings var ekki látið orka á vísitöluna og ekki heldur visst ártíðaverð á íslenzkum landbúnaðarafurðum. Með þessari einu breytingu á vísitöluútreikningnum, sem kommúnistar studdu að, á meðan þeir voru í ríkisstj., var það gert að draga úr hlunnindum vísitölunnar fyrir launþega. Hafa kommúnistar það eitt gert að auka eymd vísitölunnar, ef kenna á hana við eymd, eins og þeir vilja nú vera láta. Ekki veit ég, hvort kalla á þessa menn trúða eða falsara eða hvort tveggja, en þau orð notaði Brynjólfur Bjarnason í ræðu sinni á sinn venjulega smekklega hátt.

Þá er og þess að geta varðandi tollalöggjöfina. nýju, að mikið af þeim vörum, sem tollahækkunin leggst á, eru til ýmissa verklegra framkvæmda og ekki beinlínis viðkomandi launastéttum landsins. Annars mun hæstv. fjármrh. í sinni ræðu gera nánari grein fyrir þessum málum og á óvefengjanlegan hátt sýna fram á, að frásagnir og útreikningur kommúnista um stórminnkandi kaupmátt launanna vegna tolla þessara eru hin argasta fjarstæða.

Þá hafa kommúnistar haldið því fram og sótt ríkisstj. til saka um, að hún hefur gert samkomulag við fjvn. og stuðningsflokka sína um það að skera niður nokkrar verklegar framkvæmdir um 15% frá því, sem áætlað var áður. Hafa kommúnistar haldið því fram, að með þessu væri verið að skapa atvinnuleysi og kreppu á Íslandi. En allt er þetta rangt og út í hött. Þrátt fyrir þessa 15% lækkun á fyrirhuguðum verklegum framkvæmdum í fjárl. eru fjárhæðir til þeirra á árinu 1947 16 millj. kr. hærri en á árinu 1946 — einmitt þeim fjárl., sem kommúnistar stóðu að. Ég vil aðeins benda á þetta atriði, en það mun koma skýrar í ljós hér í umr. á eftir.

Kommúnistar hafa haldið því fram í stjórnarandstöðunni, að útlitið um afurðasölumálin erlendis hafi verið svo gott, að engin ástæða væri til að óttast neitt í því sambandi. En fyrst og fremst þarf að hafa það í huga, að Alþ. hefur ábyrgzt mun hækkað verð frá því, sem áður var á ýmsum íslenzkum sjávarafurðum. Til þess að það verð fáist greitt fyrir sjávarafurðirnar án stórkostlegs framlags úr ríkissjóði, þurfa þessar vörur að seljast fyrir stórlega hækkað verð á erlendum markaði, miðað við s.l. ár.

Samningar um sölu íslenzkra afurða á erlendum markaði eru ekki enn gerðir, en þó er það vist, að ýmsir erfiðleikar eru á því, að verðlag, a.m.k. á sumum sjávarafurðum, verði í samræmi við það, sem ábyrgzt hefur verið af ríkissjóði. ríkisstj. hefur gert allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að ná sem hagkvæmustum samningum og notið til þess aðstoðar dugandi sendinefnda, er sízt hafa legið á liði sínu. Það er því alveg út í bláinn að saka stjórnina í því sambandi, þótt hinar björtustu vonir, er byggðar voru á veikum forsendum, kunni að bregðast í sambandi við afurðasölusamningana.

Er það sízt til heilla að ala á tálvonum í þessu efni né reyna að telja mönnum trú uni, að íslenzkar sjávarafurðir yfirleitt séu auðseljanlegar á erlendum markaði fyrir geipiverð, þegar útlitið er sannarlega mjög tvísýnt og aðrar þjóðir hafa aðstöðu til þess að selja sams konar vöru miklu vægara verði vegna lægri framleiðslukostnaðar. Er það vissulega alvarlegt umhugsunarefni, á hvern veg verði haldið uppi atvinnurekstri og áframhaldandi góðum lífskjörum almennings. Duga þar engin stór orð, upphrópanir, blekkinga- og bægslagangur, eins og kommúnista er siður, heldur markviss, skynsamleg og víðsýn barátta, miðuð við alþjóðarhag.

Í sambandi við afurðasölumálin hafa kommúnistar reynt að læða því inn hjá mönnum leynt og ljóst, að ekki hafi verið gert það, sem unnt var í þessum efnum, og að valda muni hér nokkru um andstaða stjórnarinnar gegn því að selja Rússum íslenzkar vörur, og að einstakir menn og flokkar, þar á meðal og ekki sízt ég og Alþfl., hafi gert allt, sem unnt var, til að spilla fyrir sölunni til Rússa. Þetta er allt hreinn uppspuni. Þótt Íslendingar séu ekki hrifnir af stjórnarfari Rússa og telji það ekki til eftirbreytni fyrir sig, þá eru þeir jafnákveðnir í því að eiga fjárhagsleg skipti við Sovétlýðveldin, eftir því sem efni standa til af beggja hálfu.

Hitt er svo annað mál, að viðskiptasamningar við Rússa hafa gengið mjög þunglega og örðugt reynzt að fá þar nægilega hátt verð fyrir afurðir okkar — þeir alls ekki viljað kaupa sumar þeirra, og sumar þær vörur, sem við höfum æskt eftir að kaupa frá Rússlandi, ýmist verið nokkuð erfitt að fá eða verðlag þeirra óhagstætt. En samt vonum við í lengstu lög og að því er keppt að koma á verzlunarsamningum við Rússa, er hægt væri að una við.

Þótt kommúnistar hafi fyrr og síðar ráðizt að mér og ríkisstj. fyrir flugvallarsamninginn við Bandaríkin og nú siðast út af sölu á svonefndum Hvalfjarðareignum, þá mun ég ekki víkja að því sérstaklega, því að hæstv. utanrrh. mun, eftir því sem ástæða þykir til, minnast á það mál, — en kommúnistar hafa, eins og svo oft áður, algerlega skotið yfir markið og orðið sér til skammar fyrir aðdróttanir sínar og ásakanir, sem hægt hefur verið að sýna fram á með óyggjandi rökum, að voru hreinustu blekkingar.

Það er að sjálfsögðu ekki nema gott um það að segja fyrir ríkisstj. að hafa andstöðu, en andstaðan þarf að vera rökstudd og á þann veg, bæði að efni og formi, að sæmi siðuðum mönnum, sem við stjórnmál fást á löggjafarþingi og í blaðamennsku. Sú hefur ekki orðið raunin á um stjórnarandstöðu kommúnista. svo sem bezt sést á því, er fram hefur komið í umr. þeirra, m.a. hér í kvöld. ríkisstj. þarf ekki að óttast slíka andstöðu, en dottið getur manni í hug hið fræga atvik úr fornsögunni, þegar hönd seildist út á skálavegginn eftir ör og umsátursmenn skildu svo, að „ekki mundi út leitað til fanga, ef gnótt væri inni fyrir“. Og má álita af árásarefnum kommúnista, að þeir séu í nokkrum vandræðum — ella mundu þeir ekki beita eintómum blekkingum, svo sem um niðurskurð verklegra framkvæmda, stórkostlega rýrnun á tekjum launamanna, sölu eigna í Hvalfirði o.fl. þess háttar, ef nóg væru sakarefni.

Fyrirlitning kommúnista almennt á meðferð mála á þjóðþingum er ekki í samræmi við hagsmuni alþýðunnar, en hún er í fullu samræmi við tilgang og starfsemi kommúnista í þingstörfum þeirra. Þeir fylgja trúlega kennisetningunni, sem fyrir nokkrum árum var samþykkt á þingi Alþjóðasambands kommúnista á þessa leið:

„Kommúnistar fara ekki á þing til þess að framkvæma venjuleg þingstörf, heldur til þess að hjálpa fjöldanum að sprengja ríkisbáknið og sjálft þingið. Sérhver kommúnistískur þingmaður verður að gera sér það ljóst, að hann er ekki löggjafi til þess að ná samkomulagi við aðra löggjafa, heldur áróðursmaður flokksins, sem sendur er inn í herbúðir óvinanna til þess að framkvæma þar flokksákvarðanir. Þm. kommúnista eru ekki ábyrgir gagnvart kjósendum, heldur gagnvart löglegum eða ólöglegum flokki sínum.“

Svo mörg eru þau orð kennisetningarinnar. Það er ekki fráleitt, að reynt sé að fylgja henni á Alþingi Íslendinga.

Íslenzka þjóðin hefur búið við góðæri að undanförnu. Þau hafa verið ágætlega notuð að mörgu leyti til þess að draga í þjóðarbúið, afla nýrra framleiðslutækja og koma á löggjöf, er eykur félagslegt öryggi og skapar skilyrði til meiri og betri menntunar fyrir almenning í landinu. Það er ástæða til að gleðjast yfir því, að svo hefur getað orðið, en um leið er rétt að gera sér ljóst, að þeir uppgripatímar, sem verið hafa undanfarin ár, geta breytzt og hafa þegar breytzt til muna. Framleiðslukostnaður á Íslandi er orðinn ákaflega hár og lítið má út af bera með sama áframhaldi, ef unnt á að vera að halda í horfinu og sækja fram á leið. Það verður að gera sér ljóst, að verðlag á erlendum markaði fyrir afurðir okkar getur nú orðið lægra, en áður og að þær þjóðir, sem keppa við okkur, hafa betri aðstöðu en við til þess að selja ódýrt. Hinn áður uppsafnaði, mikli erlendi gjaldeyrir er nú á þrotum, en verulegum hluta hans hefur verið varið til kaupa á nýjum og fullkomnum framleiðslutækjum. En hér eftir er vissulega rétt að reikna með því, að sparlega og skynsamlega þurfi að halda á erlendum gjaldeyri og nota til hins ýtrasta framleiðslumöguleika á þeim vörum, sem unnt er að selja á erlendum markaði, og afla á þann veg nauðsynlegs gjaldeyris. Það er þess vegna óhjákvæmilegt að gera sér grein fyrir því, að gera verður ráðstafanir til þess að tryggja framtíð íslenzks atvinnurekstrar og sjá á þann veg um, að næg og örugg atvinna haldist í landinu.

Núverandi ríkisstj. hefur lýst yfir því, að það sé stefna hennar að vinna að því af alefli að stöðva hækkun dýrtíðar og framleiðslukostnaðar og athuga möguleika á lækkun hennar. Í því skyni mun stjórnin leita til samtaka launastéttanna og samtaka framleiðenda til sjávar og sveita til þess að gera ráðstafanir gegn frekari vexti dýrtíðarinnar og um leið til lækkunar.

Ríkisstj. gerir sér það fullkomlega ljóst, að tryggar varanlegar og nauðsynlegar ráðstafanir í þessu skyni verða því aðeins framkvæmdar, að stéttir þjóðfélagsins skilji og meti hina brýnu þörf aðgerðanna. Ekkert gerðardómsævintýri eins og 1942 getur þar ráðið bót á, og engin minnihlutahótun né ofbeldi má heldur hindra það, sem gera þarf. Fólkið í landinu þarf að sjá og þreifa á því, að ekki má fljóta sofandi að feigðarósi. Það verður að gera sér fulla grein fyrir hættunum, sem fram undan eru, og mæta þeim með öflugu og samstilltu átaki. En það má heldur ekki mikla um of fyrir sér vandkvæðin og af þeirri ástæðu annaðhvort gefast upp eða grípa til óyfirvegaðra fljótfærnisúrræða, er gera mundu síðari villuna argari hinni fyrri.

Íslendingar eru nú að fá stóraukin, nýtízku framleiðslutæki, fleiri og fullkomnari verksmiðjur og yfirleitt aukinn vélakost, allt saman til þess að geta betur aflað framleiðsluvara og gert þær seljanlegri og verðmætari á erlendum mörkuðum. Vér eigum afburða duglega sjómannastétt, sem er þess albúin að afla fanga úr djúpi hafsins. Samtímis því, sem vélanotkunin færist í vöxt og aðbúð og öryggi verkalýðsins batnar, verður einnig að leggja ríka áherzlu á það, að vinnuafköstin í landinu verði bætt og aukin, samtímis því sem verkamönnum er tryggð nægileg og vel borguð atvinna. Þetta á allt, ef vel er á haldið, að tryggja það, að unnt verði að halda í horfinu og sækja fram á við. En til þess þarf skilning og samstarf fólksins í landinu. Þeir, sem hafa úr of miklu að moða, verða að sætta sig við það, að gróði þeirra verði skertur, einkum við vörudreifinguna og önnur störf, sem fjarskyld eru framleiðslunni. Það er, ef vel er skoðað og horft fram í tímann, þeirra eigin hagur, að gerðar séu nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja atvinnurekstur og framleiðslustörf. Og launastéttirnar sjálfar verða einnig að gera sér það vel ljóst, að það eru viss og ákveðin takmörk fyrir launagreiðslum, og það, sem er mest um vert fyrir þær sjálfar og alla, er að tryggja næga atvinnu og halda þjóðarbúskapnum á traustum og öruggum grundvelli.

Ríkisstj. væntir þessa skilnings stéttanna og treystir á, að hægt sé með skynsamlegu og réttlátu samkomulagi að gera þær ráðstafanir, að dýrtíð og verðbólga sligi ekki íslenzkan atvinnurekstur og geri hann ósamkeppnisfæran og skapi á þann veg atvinnuleysi og glundroða í þjóðfélaginu. En þá hjálpa allra sízt óvægni og ofbeldi ofstækismannanna, er hugsa um það eitt að ná sér niðri á pólitískum andstæðingum og jafnvel skapa fullkominn glundroða og vandkvæði í því þjóðfélagsformi, er þeir vilja leggja í rústir með það fyrir augum að koma á einræði eins flokks og afnema á þann hátt það pólitíska frelsi, er meginhluti Íslendinga umfram allt vill varðveita.

Að gefnu tilefni og í sambandi við framtíðar- og frambúðarúrlausnir til að hindra og draga úr verðbólgunni þykir rétt að benda á, að þeir menn, sem nú hvetja til pólitískra verkfalla og ævintýra, eru sannarlega ekki að vinna fyrir alþýðu og launamenn í landinu. En ég fyrir mitt leyti treysti svo á dómgreind og skilning íslenzkrar alþýðu og veit, að hún lætur ekki tæla sig af ábyrgðarlausum mönnum út í glæfraleg ævintýri, sem vel gætu haft í för með sér stórkostlegt tjón fyrir hana og alla þjóðarheildina. Íslenzka þjóðin verður að sýna skilning og þegnskap og mæta vandræðum þeim, er að kunna að steðja, með þeim réttlátustu úrræðum, sem unnt er að finna, og reyna á þann hátt að vernda og viðhalda nægri og vellaunaðri vinnu í landinu.

Þetta er vilji og stefna núverandi ríkisstj., og hún heitir á fulltingi allra landsmanna, aðstoð þeirra og samvinnu til þess að framkvæma þá stefnu sína.