11.11.1947
Efri deild: 17. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1693)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég ætla að reyna að standa við það, sem ég sagði áðan, að ég mundi ekki lengja umr. um þetta mál.

Mér kom satt að segja mjög á óvart, er þessi ágæti þm. Árn. kom með þessa brtt. í lok ræðu sinnar. Hann var að tala um, að hann væri friðarins maður, en hann hefði getað haft það orð milli gæsafóta. Það ber ekki vott um gott hjartalag, að þegar tveir aðilar hafa komið sér saman, þá komi hann með brtt., sem gengur í þveröfuga átt. Ef féð á að ganga aftur til búnaðarsambandanna, þá er engin ástæða til að hafa neinn búnaðarmálasjóð. Þá má alveg eins leggja hann niður. Mér sýnist þessi brtt. hv. þm. heldur til skemmda á frv., og eiginlega það eina, sem kemur fram við hana, er að fá sundrung og spilla málum. Ég vonast nú til, að hann taki þessa brtt. aftur. Ég sé, að hann er farinn að berja með pennastönginni í borðið og biðja forseta um orðið, og vona nú, að hann standi hér upp á eftir sem nýr og betri maður.