11.11.1947
Efri deild: 17. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Eiríkur Einarsson:

Hv. 1. þm. N-M. lætur nú aftur til sín heyra í þessu máli. Mig rekur minni til þess, að þegar þessi skipti voru gerð, hafi hann einnig andmælt þeim, svo að þetta er skoðun, sem hann býr yfir. En mér finnst hann gera of mikið úr torfærunum hvað það snertir, að ekki sé hægt að skipta þessu milli búnaðarsambandanna. Hans meginröksemd var það, að það væri ekki hægt nema með nýrri skriffinnsku um það, af hvaða búnaðarsvæði varan sé. Þessi málflutningur hv. þm. er líklegastur til þess að vera ísmeygilegur gagnvart þeim dómstóli, sem um þetta mál á að dæma. það er að segja hæstv. Alþ. Ég játa það, að sölumagnið, sem kemur í búðirnar, er annað en það, sem kemur frá hverju sambandssvæði eða sýslufélagi. En það er ákvörðunin heima fyrir, skýrslurnar að heiman, sem segja til um það, hvað selt er. alveg eins og er um þá mjólk, sem flutt er til Mjólkurbús Flóamanna. Hv. þm. talaði eins og hann kæmi frá annarri stjörnu um það, hvað selt er frá hverju svæði. En vettvangur þess er heima fyrir og ekki við söluborðið. Ég játa það, að þetta er kannske erfitt, en það má finna það nokkurn veginn. Ég treysti stjórn Búnaðarfélagsins og hv. 1. þm. N-M. til þess að gera það á réttan hátt. Málfærsla hans er ísmeygileg, en annað ekki. Sölumagnið er finnanlegt, þótt ekki sé hægt að finna það hjá „Silla og Valda“. Það verður ekki hrakið með réttu, þótt hv. þm. reyni að gera þetta að grýluatriði gagnvart till.

Hv. 1. þm. N-M. sagði einnig, að búnaðarþing væri vel til þess fallið að hafa reikningsfærsluna með höndum. Þá er stjórn Búnaðarfélagsins ekki síður til þess fallin, sem alltaf er til staðar, svo að ekki er langt á bjargarbæinn, ef leita þarf leiðréttinga.

Hv. þm. hefur andmælt núverandi lagaákvæðum, og er ekkert um það að segja. Hann er líka á móti minni till., en ég tel þá ágalla hennar, sem hann bendir á, ekki eins mikla og hann vill vera láta. Það verður að finna þetta heima fyrir. En ekki við söluborðið.