15.03.1948
Neðri deild: 73. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Ingólfur Jónsson:

Með stofnun búnaðarmálasjóðs er lagt til, að 1/2% gjald sé tekið af allri innlendri framleiðslu og lagt í sjóð, sem nefnist búnaðarmálasjóður. Eins og l. eru nú, er gert ráð fyrir, að þetta gjald sé innheimt af Búnaðarbanka Íslands og því úthlutað til búnaðarsambandanna í réttu hlutfalli við framleiðslumagn þeirra. Ég er einn af þeim, sem hafa talið, að þetta fyrirkomulag væri það heppilegasta fyrir bændastéttina og með því að búnaðarsamböndin fengju féð til ráðstöfunar. væri bezt trygging fengið fyrir því, að fénu yrði varið til nauðsynlegra framkvæmda í þágu bændasamtakanna. Með því að aðalfundur búnaðarsambandanna hefur ákvörðunarrétt um það, hvernig fénu er varið, þá er það sú bezta lausn, sem hægt er að fá, til þess að fénu verði varið á sem hagnýtastan hátt. Það er kunnugt, að búnaðarsamböndin hafa ekki haft fé til nauðsynlegra framkvæmda og hafa þess vegna mörg þeirra í síðustu fjárhagsáætlun, fyrir árið 1947, byggt á því að fá fé úr búnaðarmálasjóði til ýmiss konar nauðsynlegra framkvæmda innan sambandanna. Þess vegna hefur nú við síðustu áramót eitt búnaðarsambandið komizt í vandræði vegna þess, að því hefur ekki tekizt að fá neitt úr búnaðarmálasjóði, enda þótt það ætti lögum samkvæmt þar inni fleiri tugi þúsunda. Það var ekki fyrr en í febrúarmánuði, að þessu búnaðarsambandi tókst að fá nokkurt fé úr sjóðnum, 60000 kr., með samþykki hæstv. landbrh. Ég skal segja það til lofs hæstv. landbrh., að hann veitti leyfi til þess, að Búnaðarsamband Suðurlands fengi þetta fé, af því að leikar stóðu þannig, að hann hafði vald til þess að stöðva greiðslu úr sjóðnum, og þess vegna mun hann halda, að hann hafi verið að gera eitthvert sérstakt góðverk. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að hæstv. landbrh. hafi ekkert vald til að fyrirskipa Búnaðarbankanum að greiða ekki úr sjóðnum, vegna þess að lögum samkvæmt ættu búnaðarsamböndin kröfu á því að fá þetta fé. Eina búnaðarsambandið á öllu landinu, sem nokkurt fé hefur fengið, mun vera Búnaðarsamband Suðurlands, 60000 kr., sem greiddar voru í febrúarmánuði s.l., og því er ekki að undra, þó að búnaðarsamböndin séu ekki í dag búin að átta sig á því, hvers virði það er fyrir þau, að l. um búnaðarmálasjóð eru eins og þau raunverulega eru. Mér er kunnugt um, að það hefur verið hafinn töluverður áróður víðs vegar um landið og því dreift út meðal bænda, að það sé vafasamt, að þeir fái nokkurn tíma greiðslu úr sjóðnum, a.m.k. ekki fyrr en l. hafi verið breytt. Það er þess vegna ekkert undarlegt, þó að þau væru í nokkrum vafa, þegar komið var til þeirra fyrir skömmu og leitað eftir umsögn þeirra um það, hvort þau gætu fallizt á að samþ. yrði frv. til l. um búnaðarmálasjóð eins og það liggur nú fyrir. Það er ekkert undarlegt, eftir að ráðamenn sjóðsins og margir forráðamenn búnaðarsamtakanna hafa reynt að telja bændum og stjórnum búnaðarsamtakanna trú um, að ekki yrði greitt fé úr búnaðarmálasjóði fyrr en búið væri að breyta lögunum.

Hér liggja fyrir tvö nál., frá meiri hl. og minni hl. Ég harma það, að í nál. meiri hl. er ekki farið með rétt mál. Ég harma það vegna þess, að hv. frsm. meiri hl. er frá mínu sjónarmiði það vandaður maður, að ég hélt, að það væri óhætt að trúa honum til að fara rétt með. En í nál. meiri hl. er sagt:

N. hafa nú borizt svör frá öllum búnaðarsamböndunum, 14 að tölu, þar sem stjórnir allra sambandanna lýsa yfir fylgi sínu við frv. og mæla með því, að það verði samþ. Tveir stjórnarnefndarmenn, sinn í hvoru sambandi, lýsa þó yfir andstöðu við frv.“

Hér er ekki farið rétt með. Ég hef ekki séð þessar umsagnir allar, en ég hef séð eina. Ég hef séð afrit af svari stjórnar Búnaðarsambands Suðurlands, og það er ekki í samræmi við þetta. Svarið er ákveðið og skýrt, og stjórnin er öll sammála. Í þessu afriti, sem ég sá, segir eitthvað á þá leið, að stjórn Búnaðarsambands Suðurlands geti eftir atvíkum fallizt á samþykkt frv. um búnaðarmálasjóð eins og það nú er, enda verði þeim helming fjárins, sem ekki gengur til hreppabúnaðarsambandanna, skipt eftir framleiðslumagni búnaðarsambandanna.

M.ö.o., það er sett það skilyrði fyrir samþykkt frv. frá hendi stjórnar Búnaðarsambands Suðurlands, að skiptingin á þeim helmingi, sem gengi í hreppabúnaðarsamböndin, verði gerð á sama hátt og nú er í l. Það eru þess vegna 5 stjórnarnefndarmenn í stjórn Búnaðarsambands Suðurlands, sem eru á móti frv. eins og það er nú, og ég harma, að meiri hl. skuli hafa gleymt að geta um það, en segja aðeins, að 2 stjórnarnefndarmenn sinn úr hvoru sambandi, mæli á móti frv. Er það ekki vandlega farið með heimildir, þar sem þetta er stærsta búnaðarsamband á landinu. Og fyrst gleymt er að geta um umsögn stjórnar Búnaðarsambands Suðurlands, þá er ekki ábyggilegt, að umsagnir hinna 13 búnaðarsambandanna, sem hér er talað um, séu heldur réttar, og væri fróðlegt að fá að sjá þessi svör, og væri rétt að birta þau. (JS: Þau eru til sýnis). Einhvers staðar á lestrarsal eða á skrifstofunni, en það verður þá að fletta þar upp og leita að því, ef á að lesa það.

Það er kunnugt, að þetta mál hefur verið mikið hita- og deilumál frá hendi ýmissa manna, og eins og ég sagði áðan, er þetta frv. komið fram sem bræðings- eða sáttatilraun, eins og reyndar hv. frsm. viðurkenndi áðan, en ekki til þess að bæta l. eða bæta undirstöðuna fyrir bændastéttina.

Því verður ekki neitað, að við, sem höfum barizt fyrir því að hafa l. um búnaðarmálasjóð eins og þau eru í dag, höfum unnið mikið á í því að geta snúið ýmsum þm., sem verst hafa látið, í hálfhring, en okkur hefur ekki tekizt enn að snúa þeim nema í hálfhring. Þess vegna er það sem þeir segja: Búnaðarsamböndin skulu fá helming. — Við segjum: Búnaðarsamböndin eiga að fá allt. — Í fyrra, þegar frv. um búnaðarmálasjóð var til umr., sögðu þessir menn: Búnaðarsamböndin eiga ekkert að fá. Búnaðarþing og stéttarsambandið eigi að hafa það allt til eigin ráðstöfunar. — Og raddir voru uppi á síðasta þingi um að verja þessu fé til hótelbyggingar. Þær voru ekki alveg kafnaðar, en voru farnar að lækka vegna þess, að það var sannað, að bændur úti um byggðir landsins vildu ekki láta skattleggja sig til þess að byggja hótel í Rvík. Bændur – og það munn fáir lá þeim það — vildu fyrst leggja áherzlu á að koma upp hjá sér hentugum og góðum íbúðum og góðum peningshúsum, áður en þeir færu að leggja í slíka byggingu. Þess vegna er það, að sú rödd sem farin var að lækka á síðasta þingi og tala í hvíslingum um að nota nokkuð af þessu fé í hótelbyggingu, er nú algerlega þögnuð og þorir ekki að láta á sér bæra. Það verður að viðurkenna, að það er framför.

Um það að vilja nú láta búnaðarsamböndin hafa helming af fénu til eigin ráðstöfunar, en taka hinn helminginn handa Stéttarsambandi bænda, er það að segja, að ég tel þetta nokkurn vinning frá því, sem áður var, þegar taka átti allt af búnaðarsamböndunum og láta þau áfram vera félaus og sem sagt óstarfhæf. En ég tel nú, eins og fyrr, algerlega óþarft að lögfesta gjald af framleiðslu bænda til þess að afhenda stéttarsambandinu. Ég er enn þeirrar skoðunar, að Stéttarsamband bænda geti lifað og starfað fyrir bændastéttina með frjálsum framlögum frá bændunum sjálfum. En margir forustumenn bænda, t.d. þeir, sem stjórna Búnaðarfélagi Íslands, og aðrir, a.m.k. framsóknarmenn, hafa ekki svo mikið álit á bændastéttinni, að þeir telji óhætt að ætla bændunum það mikinn félagsþroska og viðsýni í baráttu fyrir sinum eigin hag, að þeir opni budduna til þess að leggja í sameiginlegan sjóð svo að stéttarsambandið verði starfhæft. Ég segi, að þessir menn hafi ekki það mikið traust á bændastéttinni, vegna þess að þeir hafa leitað aðstoðar Alþ. um innheimtu á þessu gjaldi handa stéttarsambandinu. Það hefur verið á það minnzt hér áður, og það með fullum rökum, að framsóknarmenn hafi oft litið bændastéttina mjög smáum augum. Enginn, sem liti á bændastéttina sem stétt þroskaðra manna, hefði látið sér til hugar koma að bera fram frv. til l. á Alþ. um það að fá 10 kr. í ferðasjóð handa hverjum bónda í landinu. Og ég er dálítið hissa á því, hvað bændur hafa litið tekið þetta óstinnt upp, og ég er hissa á því, að það skuli ár eftir ár vera vegið í sama knérunn í þessum efnum. Það er vegið í sama knérunn, þegar barizt er fyrir því þing eftir þing að fá lögfest stéttargjald, sem byggt er á þeim forsendum, að ekki er hægt að innheimta það með frjálsu móti. Ég er ekki kunnugur bændum um allt land, en þó þekki ég bændur úr öllum landsfjórðungum, og þeir bændur, sem ég þekki, eru ekki með þeim hugsunarhætti, sem ætla mætti, að framsóknarmenn héldu, að þeir hefðu. Þeir bera ekki utan á sér þann smásálarskap og þann mannleysuhátt, sem ætla mætti, að framsóknarmenn teldu þá hafa. Og ég veit, að hér sunnanlands er engin hætta talin á því, að ekki sé hægt að innheimta stéttargjaldið af frjálsum vilja. Form. Búnaðarsambands Suðurlands hefur margsinnis lýst yfir, að hann sé reiðubúinn að innheimta frjáls framlög af öllum meðlimum Búnaðarsambands Suðurlands. Hann hefur margsinnis lýst yfir, að stjórn búnaðarsambandsins, eða meiri hl. hennar, telji engin vandræði að ákveða það á fundi sambandsins, hvað stéttargjaldið ætti að vera hátt, og innheimta það hjá bændunum sjálfum. Maður gæti þess vegna vonað, að allir þm. af Suðurlandi, sem hljóta að þekkja þennan sama hugsunarhátt eins og ég, teldu óþarft að leita til þingsins um aðstoð í þessu efni, en það hefur ekki verið því að heilsa.

Ég minntist á það áðan, að ég teldi rétt að hafa þá skiptingu, að búnaðarsamböndin fái helminginn af þessu fé og innheimtan yrði svipuð og hún er nú í l., enda þótt l. verði að breyta í það horf að láta stéttarsambandið fá helminginn.

Ég skal ekkert segja um það, hver niðurstaðan verður hér á þessu þingi, en ég hef heyrt eftir framsóknarmönnum, að nú væri svo komið, að þeir teldu, að málið væri tryggt og þeir fengju nú loksins sitt fram. Út af fyrir sig er ekki nema gott um það að segja, að stéttarsambandið hafi fé til umráða. En eins og ég sagði áðan, þá tel ég, að hægt væri að tryggja nóg fé til umráða án þess, að lagasetning sé um það gerð.

Um stéttarsambandið hefur verið töluvert rætt, og framsóknarmenn hafa haldið því fram, að við, sem ekki höfum viljað tryggja því fé með l., værum andvígir þessu stéttarsambandi og vildum ekki. að það þrifist. Ég skal ekki vera að orðlengja um það hér eða reyna að afsanna það, enda þótt ég komist ekki hjá að taka það fram, að ég tel vel farið, að stéttarsambandið hefur verið myndað. Ég tel vel farið, að bændur myndi sinn stéttarfélagsskap, eins og verkamenn mynda verkalýðsfélög og Alþýðusamband Íslands. Hitt má svo deila um, hvernig þessu stéttarsambandi er stjórnað og hvort það gefi eins góða raun og ætla mætti. En það er ungt enn þá, og ég tel ekki sanngjarnt að gera þær kröfur til þess enn, að það geti fullnægt öllu því, sem bændur vildu kjósa. É g tel, að það sé klaufaskapur fyrir bændur, ef stéttarsambandið getur ekki orðið þeim að gagni, og er það þá vegna þess, að forustan er ekki eins góð og nauðsynlegt er og eins og hún getur verið, ef hún er valin af frjálsum vilja og með það fyrir augum að láta stéttarsambandið gott af sér leiða fyrr hönd bændastéttarinnar. Hitt getur verið háskalegt og staðið starfseminni fyrir þrifum, ef farið væri að selja forustuna ettir pólitískum leiðum og gæta að því, hvaða pólitískt mark væri á þeim manni, sem til þess væri valinn.

Um það að skipta hinum helmingnum, ef búnaðarsamböndin eiga ekki að fá nema helminginn af fénu, eftir sömu leið og nú er gert, tel ég alveg sjálfsagt. En í frv., eins og það liggur fyrir, þar sem gert er ráð fyrir, að búnaðarþing skipti milli búnaðarsambandanna því fé sjóðsins, er fellur í hlut þeirra, þá finnst mér alveg fáránlegt að vera að tala um það, að búnaðarþing skuli skipta þessu fé. Í fyrsta lagi er það, að búnaðarþing kemur ekki saman nema annað hvert ár, og samkvæmt l. um Búnaðarfélag Íslands er það aðeins annað hvert ár, sem á að taka ákvörðun um það, hvernig skipta eigi fé búnaðarmálasjóðs. Þetta út af fyrir sig er nægilegt til þess, að menn hljóta að vera á móti því að búnaðarþing annist skiptinguna. Ég tel alveg óþarft að efna til deilna á búnaðarþingi í sambandi við þetta mál. En eins og 1. gr. er, þá eru engar reglur um það, hvernig skipta skuli fénu. Búnaðarþing á eftir að koma sér saman um það, og svo er ætlazt til þess, að þeir 25 menn. sem sitja búnaðarþing, eyði dögum og vikum í það að koma sér saman um einhvern grundvöll til að skipta fénu, því að eftir því, sem einn framsóknarmaður sagði, er það ekki félagslegur þroski að fara eftir því, hvað héruðin leggja til af framleiðslu. Það má ómögulega láta héruðin fá sinn hlut aftur, það heitir skortur á félagslegum þroska á máli framsóknarmanna. Þeir ætlast hins vegar til, og þá væntanlega meiri hl. búnaðarþings líka, því að þar eru framsóknarmenn í meiri hluta, — þeir ætlast t.d. til þess, að hérað, sem leggur sjóðnum til 30 þús. kr., fái jafnmikinn hlut og hérað, sem leggur til 100 þús. kr. Þetta getur út af fyrir sig verið jafnaðarmennska, en getur þó hæglega orðið hreinasti ójöfnuður, ef fólksfjöldi á því svæði, sem leggur fram 100 þús. kr., er stórum meiri en á því svæði, sem leggur aðeins fram 30 þús. kr. Ég tel sjálfsagt, ef ekki verður komizt hjá því að samþykkja þetta frv. að einhverju leyti, að þá verði ákvæðin um skiptingu þess fjár, sem ekki gengur til stéttarsambandsins, látin vera í svipuðu formi og nú er, og flyt því brtt. við 1. gr. þess efnis. Eins og frv. nú er, hljóðar þetta þannig: „Búnaðarþing skiptir á milli búnaðarsambandanna því fé sjóðsins, er fellur í hlut þeirra.“ En í brtt. minni er lagt til, að Búnaðarfélag Íslands skipti þessu í réttu hlutfalli við framleiðslumagn héraðanna. Þá eru gefnar ákveðnar línur um það, hvernig fénu skuli skipt, og komið í veg fyrir margs konar ranglæti, sem orðið gæti, ef búnaðarþing eða einhver annar aðili skiptu þessu af handahófi. Og ég tel, að ef 1. gr. verður samþ. að öðru leyti eins og hún er nú, þá verði mörg búnaðarsambönd skattlögð óeðlilega. Það má vera. að einhver tali um eigingirni eða þröngsýni af minni hálfu, þegar ég segi, að Búnaðarsamband Suðurlands leggi fram 120 þús. kr. Ef 1. gr. verður samþ. óbreytt, leggur Búnaðarsamband Suðurlands í fyrsta lagi fram 60 þús. kr. til stéttarsambandsins og í öðru lagi 60 þús. kr., sem búnaðarþing á að skipta, og gæti þá svo farið, að enn yrðu teknar a.m.k. 30 þús. kr. og fluttar í önnur héruð og Búnaðarsamband Suðurlands fengi aðeins um 30 þús. kr. af 120 þús. kr. framlagi. Mér er sama, hvort talað er um þröngsýni og eigingirni. Afstaða mín byggist á því, að ég veit, að bændur á þessu svæði standa ekkert betur fjárhagslega, og það er ekkert nema grobb að segja, að það sé félagslegur þroski að samþykkja þetta frv. Og það er ekkert annað en grobb að segja, að það sé skortur á félagslegum þroska að vilja standa að einhverju leyti með sínum mönnum í þessu máli. Verði 1. gr. samþ. með minni breyt., fær Búnaðarsamband Suðurlands 60 þús. kr. af sínu 120 þús. kr. framlagi endurgreiddar til eigin ráðstöfunar. — Stjórn Búnaðarsambands Suðurlands segir í svari sinu til Alþingis: „Við getum eftir atvikum fallizt á, að frv. verði samþ., enda verði skiptingin á þeim hluta fjárins, sem ekki rennur til stéttarsambandsins, þannig, að héruðin fái endurgreitt í réttu hlutfalli við framleiðslumagn.“ Hv. frsm. gleymdi að geta þess, en mig undrar ekki, þótt stjórnin segi dræmt: „getum eftir atvikum fallizt á“. Það var ekki að ófyrirsynju, að hv. frsm. sagði, að frv. þetta væri sáttatilraun og málamiðlun. Stjórn Búnaðarsambands Suðurlands segist geta fallizt á frv., en með því skilyrði, að hún fái helming fjárframlags síns til ráðstöfunar, en ekki 1/4 eða 1/5, eins og orðið gæti, ef búnaðarþing ætti að skipta því. Mér er vel kunnugt, hvernig bændur á Suðurlandi líta á lögin um búnaðarmálasjóð. Mér er kunnugt, að þeir og bændur víða annars staðar vilja hafa lögin óbreytt, en það hefur verið haldið uppi látlausum pólitískum áróðri gegn l. og allt gert til að koma breyt. á þeim í gegn, áður en þau fengju að sýna sig í framkvæmd. Það óttuðust andstæðingar þeirra, og þess vegna er dregið að innheimta fé sjóðsins og greiða samböndunum þeirra hlut. Og það var aðeins með tangarhaldi á hæstv. landbrh., að ég gat togað út úr honum þær 60 þús. kr., sem Búnaðarsamband Suðurlands átti. Hann, hæstv. landbrh., tók sér það vald að skipa svo fyrir, að búnaðarsamböndunum skyldi ekkert fé greitt, því að bændum var sagt af áróðursmönnunum, að þeir fengju engan pening fyrr en l. væri breytt. Með þessari aðferð er hægt að kalla fram samþykktir, sem eru raunverulega gegn vilja bænda. Og varðandi umsagnir búnaðarsambandanna í nál. á þskj. 439 hef ég sannað, að það er að miklu leyti rangt. Þar er Búnaðarsambandi Suðurlands sleppt, og þar sem stærsta búnaðarsambandsins er ekki getið, er hætt við, að rangt sé farið með fleira.

Ég ber brtt. mína fram til vara, ef dagskrártill. minni hl. n. verður felld, því að ég tel, að hún sé til mikilla bóta, þó að frv. verði samþ. að öðru leyti. Þess vegna ber ég hana fram í trausti þess, að a.m.k. sú leiðrétting fáist, ef útilokað er að fella frv. algerlega. Og ég mun greiða atkv. með dagskrártill., því að ég veit, að lögin eru bezt eins og þau eru nú. Og meiri hl. n. hefur raunar viðurkennt það með því að snúast í hálfhring inn á okkar mál með því að segja. að frv. sé flutt sem málamiðlun og sáttatilraun, en það er líka flutt í þeim tilgangi að gera þeim, sem biðu ósigur áður, léttara um vik og láta skömm þeirra ekki verða eins augljósa. Það hefur verið bent á, hvað fyrir ýmsum bændaleiðtogum vakti, þegar fyrst var talað um stofnun búnaðarmálasjóðs, og hvað þeir töldu nauðsynlegast að gera við féð. Það eru ekki mörg ár síðan, ég held það hafi verið árið 1945, að ýmsir forustumenn bænda töluðu hátt um það, að nota ætti féð til að byggja fyrir hótel hér í Rvík. En það hefur farið svo með þann málstað eins og málstað þeirra, sem nú vilja breyta l., að þeir hafa fallið á eigin bragði. Þeir eru nú hættir að tala um hótelbygginguna, og eins og þeir eru nú hættir því og bændur hafa fært þeim heim sanninn um, að það væri rangt að verja fé þeirra til hótelbyggingar, meðan þeir sjálfir bjuggu við ófullkomin húsakynni, þá hafa þeir sömu menn, sem héldu fram hótelbyggingunni, fallið fyrir rökum okkar í búnaðarmálasjóðsmálinu, um leið og þeir snúast nú í hálfhring og stanza á miðri leið, til þess að þeir verði ekki eins berir að því að hafa haldið fram röngum málstað.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta öllu meira að svo stöddu. Vera má, að hv. frsm. eða aðrir talsmenn þessa frv. hafi svo eitthvað frekar fram að bera og gefi tilefni til lengri umr. En talandi vottur um hinn slæma málstað þeirra og kjarkleysi er það, að þeir hafa nú flestir kosið að vera ekki við umr., en hafa farið inn í ráðherraherbergið og lokað að sér. Hv. frsm. sýnir þó þann manndóm að vera við umr., og verð ég að segja, að hann tekur hinum langt fram.

Ég mun greiða dagskrártill. minni hl. atkv., en verði hún felld, ber ég fram brtt. mína, sem ég hef lýst, því að hún lagfærir mjög það ranglæti, sem með þessu frv. á að fremja gegn bændastétt landsins.