19.03.1948
Efri deild: 82. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, hefur tekið nokkrum breyt. í hv. Nd., en ég hef ekki séð ástæðu til þess að kalla n. saman til fundar um málið. Hins vegar hef ég átt tal við einstaka nm., og hafa þeir lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt. En ég vil taka fram, áður en gengið er til atkv. um frv., að þær tvær aðalbreyt., sem gerðar eru á frv., eru þær, að í stað þess að búnaðarþing skipti því fé, sem sjóðnum er ætlað, á milli búnaðarsambandanna, skal Búnaðarfélag Íslands skipta því, og Búnaðarfélag Íslands eða forsvari þess er stjórn Búnaðarfélagsins og búnaðarþing. Ég tel ekki óeðlilegt, að Búnaðarfélag Íslands hafi hér hönd í bagga með skiptingu fjárins ásamt búnaðarþingi, og þess vegna tel ég, að þessi breyting hafi engan skaða í för með sér. Einnig er sú breyt. rétt, að fénu skuli skipt á milli héraða með hliðsjón af áætluðu framleiðslumagni þeirra, og er þessi breyting gerð með tilliti til samþykktar búnaðarþings, eins og áður hefur verið regla, þá er skipt hefur verið styrk milli sambandanna, að þá hefur verið tekið tillit til framleiðslu sambandanna.

Þeir menn úr landbn., sem ég hef átt tal við, leggja eindregið til, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég vildi taka það fram, að þessi er skilningur minn á málinu, og ég tel hann réttan og veit, að aðrir dm., þeir er samþykkja frv., eru sammála því.