22.03.1948
Efri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1846)

79. mál, kaupréttur á jörðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það hefur aldrei verið nein launung á því, hverjir fluttu þessa brtt., svo að hér er ekki um neinn launkrakka að ræða, eins og hv. þm. Dal. komst svo smekklega að orði.

Þessi brtt., sem komst inn í frv. í hv. Nd., en því miður féll með jöfnum atkv. hér í hv. d., fjallar um það, að hreppsn. eigi rétt á að fá keyptar jarðir, sem falla til útarfa við erfðir, á því verði, sem þær eru útlagðar erfingjum til arfs. Og sýslumönnum ber skylda til þess vegna erfðafjárskattsins að sjá um, að bú, sem falla til skipta, séu metin á réttu verði, en ríkissjóður ekki snuðaður með því að meta þær undir sannvirði. Sé þessa gætt, og það vona ég, að bæði sýslumaður Dalasýslu og aðrir sýslumenn geri, getur ekki verið um það að ræða, að erfingjar verði snuðaðir með því að láta hreppinn fá jörðina, ef hann óskar, með því verði, sem hún er lögð erfingjunum.

Einmitt núna liggur fyrir eitt slíkt dæmi í Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem sýslumaðurinn þar hefur með höndum. Er hér um að ræða jörð, sem metin er á 80 þús. kr. við skiptin, en þó ekki nema milli 10 og 20 þús. að fasteignamati. En þar sem þetta er eina jörðin, sem hægt er að byggja hafnarmannvirki á og hreppsn. vill því kaupa og er brýn nauðsyn á að fá, þá nota erfingjarnir, sem eru útarfar, sér tækifærið og vilja nú selja jörðina á miklu hærra verði heldur en hún er metin á við skiptin. Er þetta greinilegt dæmi um það, hver fjarstæða það er að láta útarfa hafa sjálfsvald í þessum efnum, þegar hreppnum, eins og í þessu tilfelli, er af þjóðfélagsástæðum brýn nauðsyn á að fá keypt landið.

Ég vænti þess vegna, að hv. d. sjái sér fært að samþykk.ja frv. eins og það kom frá hv. Nd. og samþykkja ekki brtt. hv. þm. Dal. og hv. 2. þm. Árn. Vænti ég þess, að frv. fáist afgr. á þessu þ. Ég tel, að með því fáist mjög mikil réttarbót, og álít, að sá krógi, sem hv. þm. Dal. hefur hér skapað, því að þetta frv. er hans tilbúnaður, sé yfirleitt góður og því betri sem okkur heppnast að hreinsa fæðingarblettina af frv., og höfum við nú hreinsað tvo af því, svo að ég tel, að það sé nú það lýtalaust, að hægt sé að senda það út til almennings.